Kúfskelin til bjargar landinu?

Skimað eftir nytsamlegum örverum úr kúfskel - Upptaka fosfórs og framleiðsla lífplasts úr skólpi

Fosfór gegnir mikilvægu hlutverki í efnaskiptaferlum dreif- og heilkjarna frumna s.s. baktería, dýra og plantna. Þetta óendurnýjanlega steinefni er mikið notað í tilbúnum áburði í landbúnaði, en yfirvofandi skortur þess getur leitt til uppskerubrests og hungursneyðar á næstu árhundruðum ef ekkert verður að gert. Því er mikilvægt að loka hringrás fosfórs og koma í veg fyrir tap hans út í sjó, sem verður að hluta til vegna losunar skólps. Ísland er eftirbátur annarra vestrænna ríkja þegar kemur að skólphreinsun og sums staðar er óhreinsuðu skólpi enn veitt út í sjó. Áskoranir fráveitu á norðurslóðum felast m.a. í smæð byggðarlaga, köldu loftslagi og útþynntu skólpi. Markmið skólphreinsunar er að draga úr magni lífrænna og ólífrænna efna sem enda í viðtaka. Einn hluti hennar felst í upptöku fosfór. Notkun sérhæfðra örvera (e. PAOs), sem hafa getu til að taka upp umframmagn fosfórs og mynda í leiðinni lífplast (e. PHA), í sérstöku “lifandi” kerfi (e. EBPR), hefur skilað góðum árangri. Fimm óþekktir bakteríustofnar úr meltingarvegi kúfskeljar (Arctica islandica) úr Eyjafirði voru rannsakaðir m.t.t. fosfatupptöku og lífplastframleiðslu í tveimur gerðum gerviskólps (næringarríku og næringarsnauðu) við loftháðar aðstæður. Fosfatupptaka og lífplastframleiðsla mældist hjá öllum stofnum. Þessar niðurstöður gefa tilefni til frekari rannsókna, því örverustofnar einangraðir hérlendis eru aðlagaðir staðbundnum aðstæðum og gætu komið að gagni við bæði hreinsun og virðisaukningu skólps í landinu.

Ísold E. Guðjónsdóttir líftækninemi við Auðlindadeild HA rannsakaði örveruflóru eyfirsku kúfskeljarinnar m.t.t. fosfatupptöku úr skólpi í lokaverkefni sínu. Hún vann verkefnið undir handleiðslu Evu M. Ingvadóttur aðjúnkt við Auðlindadeild HA og Christinu Goethel lektor við St. Mary’s College of Maryland.

Öll velkomin!