Skipulag náms fyrir nýnema
Bygging og starfsemi: Mannslíkaminn
Í námskeiðinu læra nemendur grunnatriði í byggingu og starfsemi mannslíkamans. Áhersla er lögð á helstu líffærakerfi mannsins (að hreyfi- og stoðkerfinu undanskyldu) og eðlilega starfsemi þeirra í tengslum við heilsu og lífsgæði. Einnig verður fjallað um skerðingar á líkamsstarfsemi og leiðir til að fyrirbyggja sjúkdóma í öndunarfærum, hjarta- og blóðrásarkerfi og truflanir á starfsemi innkirtla-, ónæmis-, þekju-, og æxlunarkerfisins. Auk þess læra nemendur almenna skyndihjálp og fá verklega kennslu í endurlífgun.
Námskeiðið byggir á ICF, alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni, fötlun og heilsu og er mikilvæg undirstaða fyrir önnur námskeið um líkamsbyggingu og starfsemi mannslíkamans.
Vinnulag í háskólanámi
Námskeiðið miðar að því að þjálfa nemendur í helstu grundvallaratriðum fræðilegra vinnubragða. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknar-viðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Kynntar eru helstu rannsóknar-aðferðir og er lögð áhersla á að megindlegar og eigindlegar aðferðir séu kynntar sérstaklega. Þá er lögð áhersla á skipulag rannsókna, rannsóknarspurningar, skilgreiningar hugtaka og tilgátur. Heimildavinna, rafræn heimildaleit, tilvísanir í heimildir og heimildaskráning fá vandlega umfjöllun . Fjallað er um úrvinnslu gagna og framsetningu niðurstaðna gagna, m.a. gerð texta, stílbrigði,og grunnatriði framsetningar tölfræðilegra gagna. Þá er fjallað sérstaklega um siðferðileg álitamál í rannsóknum og gagnrýna hugsun í vísindum. Loks er lögð mikil áhersla á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Áhersla er lögð á vinnu minni nemendahópa að sértæku rannsóknarverkefni sem gefur nemendum innsýn og þjálfun í ferli rannsóknar: undirbúning, framkvæmd og framsetningu niðurstaðna.
Inngangur að iðjuþjálfunarfræði
Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í iðjuþjálfafagið, sögu þess, meginhugmyndir og hlutverk auk þess sem þeir kynnast helstu starfsviðum og starfsemi iðjuþjálfa á Íslandi. Fjallað er um iðjuhugtakið frá bæði hlutlægu og huglægu sjónarhorni og hvernig iðja fólks þróast og breytist eftir því sem ævi þess vindur fram. Skoðuð eru tengsl iðju og heilsu í einstaklingsbundnu og samfélagslegu samhengi. Nemendur fá innsýn í greiningu og flokkun iðju í ljósi framkvæmdaþátta, athafna og þátttöku og skoða tengsl hennar við umhverfi í víðum skilningi. Til að öðlast innsýn á iðjuþjálfastarfið af eigin raun fylgjast nemendur með störfum iðjuþjálfa á vettvangi í 16 tíma og deila reynslu sinni með samnemendum.
Heilsa og heilsuefling
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn í heilsu og velferð mannsins, helstu áhrifaþætti heilsu og leiðir til að efla hana. Fjallað er um hugmyndafræði og helstu hugtök heilsueflingar sem og líkamlega-, vitræna-, sálræna- og félagslega heilsu einstaklinga á mismunandi æviskeiðum. Skoðað er samspil erfða, lífsstíls og umhverfis á heilsu frá vöggu til grafar.
Námið og nemandinn
Í námskeiðinu skoða nemendur eigin námsmarkmið, hæfileika, umhverfi og aðferðir til að læra. Kenndar eru mismunandi aðferðir til náms og leiðir til farsællar samvinnu í nemendahópi. Nýtt eru ýmis verkfæri úr iðjuþjálfunarfræði fyrir nemendur til að rýna í eigin viðhorf, vanamynstur, hlutverk og umhverfi. Nemendur gera áætlanir um hvernig þeir mæta kröfum námsins og efla eigin þekkingu, leikni og hæfni.
Mats- og mælifræði
Námskeiðið snýst um fræðilegar undirstöður og aðferðir við upplýsingaöflun og mat á færni og þátttöku. Nemendur kynnast mismunandi leiðum til að afla upplýsinga og rýna í ólíkar gerðir matstækja m.t.t. mælifræðilegra eiginleika þeirra og túlkunar á niðurstöðum. Einnig er fjallað um þróun matstækja, aðferðir við þýðingu og stöðlun og siðfræðilega þætti.
Hugmyndir og sjónarmið í iðjuþjálfunarfræði
Námskeiðið fjallar um helstu sjónarmið, hugtök, hugmyndir og gildi í iðjuþjálfunarfræði og iðjuvísindum. Nemendur fá innsýn í hugmyndafræðilega þróun iðjuþjálfunarfræði og helstu áhrifavalda þar að lútandi. Fjallað er um og rýnt í iðjumiðuð faglíkön og kenningar og nemendur fá tækifæri til að beita þeim. Einnig kynnast nemendur mismunandi rökleiðsluaðferðum og hvernig þær virka á ólíkan hátt eftir eðli viðfangsefnisins.
Athafnir og þátttaka
Námskeiðið fjallar um athafnir og þátttöku fólks og tengsl þessara hugtaka við færni, félagsleg hlutverk, borgaralega aðild og jafnvægi í daglegu lífi. Skoðað er hvernig athafnir og þátttaka birtast í formi leiks, tómstundaiðju, eigin umsjár, náms og starfa og hvernig þessi fyrirbæri þróast á mismunandi hátt í takt við hlutverk fólks, áhuga, lífsstíl og lífsferil. Nemendur kynnast ýmsum verkfærum til að rýna í athafnir og þátttöku og fá þjálfun í að skoða dagleg viðfangsefni ofan í kjölinn. Einnig er fjallað um hömlun við athafnir og nemendur fá innsýn í leiðir og aðferðir til að aðlaga og breyta athöfnum í þeim tilgangi að auka færni fólks í daglegu lífi. Ólíkar birtingarmyndir þátttöku eru skoðaðar og rýnt í mismunandi skilning á hugtakinu.
Þjónusta og vettvangur
Námskeiðinu er ætlað að veita greinargóða þekkingu á þjónustu velferðarkerfisins á mismunandi vettvangi. Fjallað um þjónustuna sem kerfi, hlutverk hennar, hugmyndafræðilega nálgun, fjármögnun og rekstur auk hlutverka mismunandi starfsstétta. Rýnt er í kosti og galla bæði stofnanaþjónustu og þjónustu sem veitt er í nærumhverfi notenda. Í námskeiðinu felst 2ja vikna (80 stunda) dvöl nemenda á vettvangi þar sem þeir kynnast ólíkum nálgunum og aðferðum í velferðarþjónustu.
Velferð, viðhorf og umhverfi
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist greinagóða þekkingu og skilning á samspili velferðar og umhverfis í víðum skilningi. Fjallað er um mismunandi sjónarhorn á færni, fötlun og heilsu með áherslu á margbreytileika, ólíka menningu, gildi, viðhorf og fordóma. Nemendur læra um hlutverk stjórnsýslu og ábyrgð hennar á málefnum er tengjast aðgengi og algildri hönnun og rýna í helstu sáttmála, samninga og yfirlýsingar sem snúa að mannréttindum og velferð. Skoðuð er dreifing heilbrigðis og velferðar út frá félagslegri stöðu ólíkra samfélagshópa og rýnt í helstu ástæður hennar. Einnig er rýnt í siðfræði heilbrigðisstétta og ýmis siðferðisleg álitamál í heilbrigðisþjónustu.
Samskipti og fagleg tengsl
Námskeiðið snýst um samskiptafærni og samstarfsfærni við notendur/skjólstæðinga og samstarfsfólk þar sem fjallað er um helstu hugmyndir, kenningar og aðferðir er lúta að faglegum samskiptum og tengslum. Meðal annars er fjallað um þverfaglega teymisvinnu og rýnt í hlutverk ólíkra fagstétta innan velferðarkerfisins. Kynntar eru helstu aðferðir í viðtalstækni og nemendur æfa sig í að beita þeim. Nemendur rýna í eigin samskiptahætti og læra að nota samskipti á meðvitaðan hátt til að ýta undir og styrkja ákveðna færni og eiginleika til að takast á við margbreytilegar kröfur þess að vera fagmaður í krefjandi störfum. Auk þess er mikilvægi sjálfsþekkingarfærni og slökunar kynnt fyrir nemendum.
Leiðsögn og lærdómur
Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar leiðir fólks til að læra og mismunandi aðferðir til að miðla upplýsingum og leiðbeina bæði einstaklingum og hópum. Nemendur fá innsýn í hugmyndir og kenningar um nám og leiðsögn og ræða beitingu þeirra m.t.t. möguleika fólks til að tileinka sér ný viðhorf, venjur eða færni. Einnig fá nemendur þjálfun í að nota ólíka miðla og tækni til að upplýsa fólk og auka aðgengi þess að þekkingu í því skyni að efla heilsu og færni.
Bygging og starfsemi: Stoðkerfið
Í námskeiðinu er fjallað um hvernig stoðkerfi mannslíkamans er uppbyggt, hvernig það starfar og tengsl þess við færni, fötlun og heilsu. Áhersla er lögð á eðlilega byggingu og starfsemi beina, liðamóta, vöðva og úttauga, en nemendur fá einnig innsýn í skerðingar á starfsemi stoðkerfisins, orsakir, einkenni, almenn meðferðarúrræði og forvarnir gegn sjúkdómum. Auk þess fá nemendur verklega kennslu í einföldum aðferðum til að meta byggingu og starfsemi stoðkerfisins.
Bygging og starfsemi: Skyn og hreyfistjórnun
Í námskeiðinu er fjallað um byggingu, starfsemi og þróun þess líkamskerfis sem tekur á móti skynáreitum, vinnur úr þeim og stjórnar hreyfingum mannslíkamans. Nemendur læra um samspil skynsviða og hreyfinga og fá innsýn inn í mismunandi kenningar þar að lútandi. Einnig læra nemendur um skerðingar sem geta orðið á starfsemi skyn- og hreyfistjórnunarkerfisins, birtingamyndir þeirra, möguleg áhrif á athafnir og þátttöku, almenn meðferðarúrræði og forvarnir.
Þjónustuferli og fagleg rökleiðsla 1: Hreyfanleiki
Námskeiðið snýst um að skipuleggja þjónustu fyrir einstaklinga, hópa eða samfélög til að koma til móts við iðjuvanda af líkamlegum toga. Nemendur æfa sig í að velja og beita aðferðum til að safna bæði formlegum og óformlegum upplýsingum um líkamsstöðu og hreyfingar, túlka matsniðurstöður og nýta þær til að setja mælanleg markmið fyrir athafnir og þátttöku. Áhersla er lögð á faglega rökleiðslu, ferli þjónustu og skráningu upplýsinga. Hluti námskeiðsins (40 stundir) fer fram á vettvangi þar sem nemendur æfa sig í ofangreindum atriðum við raunverulegar aðstæður.
Rannsóknaraðferðir og tölfræði
Fjallað er um rannsóknarsnið, helstu gagnaöflunaraðferðir og tölfræði. Af eigindlegum og megindlegum aðferðum er fjallað um viðtöl, rýnihópa og þátttökuathuganir, tilraunir, spurningakannanir og notkun opinberra gagna í rannsóknum. Þá eru kenndir helstu þættir í lýsandi tölfræði, myndrænni framsetningu gagna og einfaldri framsetningu á niðurstöðum. Kynnt eru grunnatriði í ályktunartölfræði, líkindareikningi og einföld tölfræðipróf. Einnig er farið í grunnatriði aðhvarfsgreiningar. Kynnt er skráning gagna í gagnagrunna og grunnatriði í notkun tölfræðiforrita.
Hreyfing og heilsa
Námskeiðið snýst um athafnir sem krefjast getu til að stjórna líkamsstöðu og komast um. Nemendur læra að meta ýmsa þætti í starfsemi skyn- og hreyfistjórnunarkerfisins og kynnast aðferðum til að koma í veg fyrir skerðingar og auka færni.
Grundvallaratriði eigindlegrar aðferðafræði
Viðfangsefni námsskeiðsins er að kynna heimspekilegan og fræðilegan grunn eigindlegra aðferða og útfærslu þeirra og notkun í iðjuþjálfunarfræði, hjúkrunarfræði og öðrum heilbrigðisvísindum. Kynntar verða fyrir nemendum algengar eigindlegar rannsóknir sem og aðferðir við gagnasöfnun og gagnagreiningu. Lögð verður áhersla á ýmis viðfangsefni og álitamál sem tengjast eigindlegum rannsóknum svo sem siðfræðilegum þáttum og trúverðugleika/réttmæti og áreiðanleika. Lögð verður sérstök áhersla í færni í að meta gæði eigindlegra rannsókna og rannsóknarrýni.
Efnisheimur, aðgengi og tækni
Markmið námskeiðsins er að veita greinagóða þekkingu og innsæi í hvernig efnislegt umhverfi hefur áhrif á færni og þátttöku fólks. Fjallað er um aðgengi í víðu samhengi, svo sem að byggingum og upplýsingum, og nemendur æfa sig í að greina þörf fyrir og skipuleggja umhverfisbreytingarnar til að koma í veg fyrir eða mæta færniskerðingu. Lögð er áhersla á notendamiðaða nálgun og aðferðir til að auka möguleika fólks á að hafa áhrif á eigin efnisheim. Innifalið í námskeiðinu er 12 stunda nám á vettvangi.
Þjónustuferli og fagleg rökleiðsla 2: Hugarstarf
Námskeiðið snýst um ólíkar aðferðir til að tilgreina iðjuvanda, safna upplýsingum og meta færni er tengist atferli og líðan fólks. Nemendur kynnast og æfa sig í aðferðum til að safna formlegum og óformlegum upplýsingum um vitræna og sálræna getu í ljósi iðjuvanda og nýta þær til að setja mælanleg markmið fyrir athafnir og þátttöku. Áhersla er lögð á faglega rökleiðslu, ferli þjónustu og skráningu upplýsinga. Hluti námskeiðsins (44 tímar) fer fram á vettvangi þar sem nemendur æfa sig í ofangreindum atriðum við raunverulegar aðstæður.
Stjórnunarfræði innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu
Í námskeiðinu er fjallað um stjórnunarfræði, stjórnunarkenningar og stjórnunarlega uppbyggingu, umgjörð og stefnumótun í íslenskri velferðarþjónustu. Nemendur fá innsýn í ólíkar hugmyndir og aðferðir í stjórnun, s.s. breytingastjórnun, gæðastjórnun og mannauðsstjórnun. Auk þess skoða nemendur hlutverk leiðtogans, gildi handleiðslu, teymisvinnu og eigin reynslu.
Hugur og heilsa
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist greinagóða þekkingu á hvernig starfsemi hugans hefur áhrif á færni og þátttöku fólks. Nemendur læra um helstu kenningar tengdar hugarstarfi (sálrænni og vitrænni starfsemi) og leiðir til að viðhalda eða efla geðheilsu og vitræna færni fólks. Á grunni faglegar rökleiðslu og gagnreyndar þekkingar fá nemendur þjálfun í að velja matsaðferðir, túlka matsniðurstöður, skilgreina markmið og setja fram rökstuddar tillögur að þjónustu sem miðar að því að viðhalda eða efla hugarstarf, þátttöku og velferð einstaklinga, hópa eða samfélaga.
Félagslegt umhverfi, stuðningur og tengsl
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist greinagóða þekkingu á hvernig félagslegt umhverfi, stuðningur og tengsl hafa áhrif á færni og þátttöku fólks. Fjallað er um stuðning og tengsl í bæði nær- og fjær samfélaginu , allt frá fjölskyldunni til opinberrar þjónustu. Notendamiðuð nálgun er í brennidepli. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum sem notaðar eru til stuðnings. Þeir æfa sig í að greina þörf fyrir og skipuleggja félagslegan stuðning sem stuðlar að færni og þátttöku. Fjallað verður um helstu lög og reglugerðir velferðarkerfisins sem tengjast stuðningsþjónustu. Í námskeiðinu felst 8 stunda dvöl nemenda á vettvangi.
Bygging og starfsemi: Heilinn
Í námskeiðinu er fjallað um byggingu og starfsemi heilans í tengslum við vitsmunastarf, sálfélagslega starfsemi, tilfinningalíf og persónuleika. Nemendur kynnast taugafræðilegum grundvelli hegðunar og hugsunar og þeim afleiðingum sem frávik í taugaþroska, sjúkdómar og ákomnir heilaskaðar geta haft á atferli, samskipti og iðju á mismunandi æviskeiðum. Nemendur læra einnig um orsakir, einkenni, forvarnir og almenn meðferðarúrræði við sjúkdómum í miðtaugakerfinu sem hafa áhrif á hugarstarf.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velja námskeið í samráði við kennara/deildarforseta
Nýsköpun
Námskeiðið snýst um hugmyndir og aðferðir í nýsköpun og verkefnastjórnun. Á grundvelli heimilda og annarra upplýsinga um valið málefni setja nemendur fram hugmynd að nýrri eða breyttri þjónustu, afurð, aðferð, skipulagi eða miðlun og gera verkáætlun um hvernig megi hrinda henni í framkvæmd. Verkefnið er unnið bæði einstaklingsbundið og í hóp. Hluti af námskeiðinu er í formi málstofu þar sem nemendur kynna og ræða hugmyndir sínar og gefa hver öðrum uppbyggilega svörun á verkefnin.
Fræðileg skrif og gagnreynt starf
Í þessu námskeiði fá nemendur þjálfun í fræðilegum skrifum og umræðum um fagleg efni sem byggja á rannsóknum og öðrum gagnreyndum upplýsingum. Nemendur vinna ýmist einstaklingsbundið eða í hópum við að afla og rýna í gagnreyndar heimildir um ákveðin málefni. Þeir kynna afrakstur vinnu sinnar í töluðu og rituðu máli þar sem þeir fá svörun bæði kennara og samnemenda. Hluti námskeiðsins fer fram í málstofum þar sem nemendur ræða innihald, gæði og framsetningu fræðilegra skrifa og rannsókna og notagildi þeirra í gagnreyndu starfi.