Próftíð haustmisseris er að hefjast. Námsmat við háskólann er fjölbreytt og er misjafnt hvort stúdentar skili lokaverkefnum, taki munnleg próf eða fari í skrifleg próf. Þessi tími í lífi stúdenta getur í senn verið spennandi, krefjandi, kvíðvænlegur og gefandi. Góður undirbúningur fyrir próf eykur sjálfstraust og námsárangur. Hér eru nokkur ráð sem gott er að hafa í huga í próftíð:
1. Settu upp áætlun: Skipuleggðu tíma þinn með því að búa til námsáætlun og fá yfirsýn. Raðaðu verkefnum í forgangsröð og settu markmið fyrir hvern dag. Hvað er til prófs og hvert er vægi þess?
2. Skiptu verkefnum niður: Safnaðu saman því sem er til prófs. Skoðaðu, skimaðu og taktu eitt skref í einu. Taktu fyrir ákveðið efni frekar en að reyna að læra allt í einu. Þetta hjálpar þér að muna betur.
3. Að vinna í lotum: Stilltu tíma - mörgum gagnast vel að vinna í lotum og tímastjórnun hjálpar bæði í undirbúningi prófa og einnig er hún mikilvæg í próftökunni sjálfri. Hvað gildir hver spurning mikið? Hve mikinn tíma get ég notað í hverja spurningu?
4. Að læra með tilgangi: Spyrðu þig spurninga um námsefnið til að dýpka skilning. Þetta getur hjálpað þér að búa til tengsl við fyrri þekkingu og þú lærir betur.
5. Hvíld og hreyfing: Gefðu þér tíma til að hvíla þig og hreyfa. Stuttar gönguferðir eða léttar æfingar geta aukið orku. Góður svefn í próftíð er nauðsynlegur til að festa upplýsingar í minni.
6. Hollt og gott: Borðaðu reglulega yfir daginn góðan og næringarríkan mat, líka þó að þú hafir litla matarlyst. Hollt snarl og vatn getur haft jákvæð áhrif á einbeitingu og orku.
7. Aðferðir til að takast á við stress: Finndu þína leið. Nuddstóll er við Nemendaráðgjöf, jóga er í boði í líkamsrækt HA á mánudögum og miðvikudögum. Þú getur einnig púslað á bókasafninu eða prófað að gera núvitundaræfingu.
8. Vinnu- og lestrarumhverfi: Mikilvægt er að vera í umhverfi þar sem þér líður vel og þú nærð einbeitingu. Þeir stúdentar sem búsettir eru á Akureyri geta nýtt sér aðstöðuna í háskólanum okkar til að læra. Hægt er að nýta teppið, vinnuaðstöðu á bókasafninu, N201, N202 og N203 á Sólbrog, Borgir og Kaffi Borg auk þess sem hægt er að fá lánaða kennslustofu í gegn um Jónu hjá Rekstri fasteigna. Senda þarf tölvupóst til þess á jona@unak.is. Hér má nálgast upplýsingar um lesrými HA.
9. Jafningjastuðningur: Leitaðu til samnemenda ef þú hefur tækifæri til, jafningjastuðningur getur verið lykilatriði.
10. Prófareglur: Kynntu þér hvaða reglur gilda um próf og á prófstað. Það eykur öryggi.
Ef þú þarft hvatningu, stuðning, aðstoð við skipulag og námstækni, ef kvíði eykst umfram það sem eðlilegt getur talist, nú eða ef þú vilt bara spjalla - settu þig þá í samband við starfsfólk Nemendaráðgjafar: