Laust starf: Forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar

Háskólinn á Akureyri leitar að metnaðarfullum leiðtoga í starf forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar (SVS). Ráðning er til fimm ára. SVS er rannsókna- og fræðastofnun sem er starfrækt við Háskólann á Akureyri. Um er að ræða nýja rannsókna- og fræðastofnun sem verður til við samruna núverandi stofnunar við Háskólann á Akureyri sbr. lög nr. 77, 1. júlí 2024. Sjá einnig reglur nr. 1180/2024 um SVS við HA.

Stofnunin er vettvangur rannsókna í norðurslóðafræðum og starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi með áherslu á þverfagleg mannvísindi t.d. félags- og umhverfisvísindi. Hlutverk SVS er:

  • að afla nýrrar þekkingar í norðurslóðafræðum með því m.a. að stunda rannsóknir í viðfangsefnum er varða velferð íbúa og sjálfbærni svæðisins í tengslum við samfélagsþróun, auðlindanýtingu, aðlögun að loftslagsbreytingum og efnahagsþróun
  • að vera öndvegissetur og samstarfsvettvangur um málefni norðurslóða sem eflir samfélag rannsakenda um sjálfbæra samfélags- og hagþróun á svæðinu
  • að starfa með innlendum og erlendum háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum með gagnkvæma öflun og miðlun þekkingar í huga
  • að taka þátt í að efla kennslu í grunn- og framhaldsnámi í norðurslóðafræðum og heimskautarétti við Háskólann á Akureyri og byggja upp frjótt rannsóknaumhverfi fyrir meistara- og doktorsnema í rannsóknarnámi
  • að efla íslenska og alþjóðlega miðstöð í málefnum norðurslóða á Akureyri
  • að standa fyrir fræðslu, málstofum, ráðstefnum og fyrirlestrum um norðurslóðafræði

Um fullt starf er að ræða og æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Starfsstöðin er á háskólasvæðinu á Akureyri. Næsti yfirmaður er forseti Hug- og félagsvísindasviðs.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Rannsóknaáætlun og rekstrar- og fjárhagsáætlun SVS
  • Framkvæmd stefnu og daglegur rekstur stofnunarinnar
  • Rækta tengsl stofnunarinnar við innlenda og erlenda samstarfsaðila
  • Umsóknir um styrki til að fjármagns verkefni og starfsemi innan SVS
  • Fjármál stofnunarinnar
  • Útgáfa ársskýrslu stofnunarinnar
  • Styðja við og stjórna fyrirliggjandi rannsóknarverkefnum, kennslu og starfsemi innan SVS
  • Vera fulltrúi SVS á fundum, ráðstefnum og í verkefnanefndum

Hæfniskröfur

  • Forstöðumaður skal hafa hlotið hæfnisdóm sem lektor, dósent eða prófessor á sviði fræða sem tengjast starfsemi stofnunarinnar. Hann skal vera sérfræðingur í málefnum norðurslóðafræða, búa yfir þverfaglegri þekkingu, t.d. á sviði félagsvísinda, umhverfis- og/eða heilbrigðisvísinda. Forstöðumaður skal að jafnaði hafa doktorspróf og þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á fræðasviðinu, staðfest með áliti dómnefndar.
  • Reynsla af umsóknum um og stjórnun alþjóðlegra rannsóknastyrkja á fagsviði stofnunarinnar skilyrði.
  • Reynsla af stjórnun og áætlanagerð.
  • Sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og lipurð í mannlegum samskiptum.
  • Góð færni i upplýsingatækni, t.d. þekking á MS Word, Excel o.fl.
  • Hæfni til kennslu norðurslóðamálefna og miðlunar í töluðu og rituðu máli, á íslensku og ensku.

Umsókn skal fylgja

  • Greinargóð skýrsla um náms- og starfsferil, fræðistörf og kennslu.
  • Staðfest afrit af viðeigandi prófskírteinum á íslensku eða ensku.
  • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið.
  • Tveggja blaðsíðna lýsing á framtíðarsýn umsækjanda fyrir SVS á næstu fimm árum.
  • Dæmi um þrjár útgefnar greinar ritaðar af umsækjanda. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu verki skal umsækjandi gera grein fyrir framlagi sínu til verksins.
  • Tilnefna skal a.m.k. tvo meðmælendur, æskilegt er að annar þeirra sé næsti yfirmaður í núverandi eða fyrra starfi umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til og með 15.01.2025

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara á Akureyri hafa gert.

Meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðning í starfið er í samræmi við ákvæði laga um háskóla nr. 63/2006, laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, reglur nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri og reglur nr. 724/2023 um nýráðningar akademísks starfsfólks við Háskólann á Akureyri. Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996. Háskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur öll kyn til að sækja um laus störf.

Við ráðningu í störf við Háskólann á Akureyri er tekið mið af jafnréttisáætlun háskólans og tekið er tillit til þarfar einingarinnar við ráðningu.

Nánari upplýsingar veitir

Thomas Barry, forseti Hug- og félagsvísindasviðs, tom@unak.is, 460 8028.

Sækja um starf