Skipulag náms fyrir nýnema
Markaðsfræði I
Inngangur að markaðsfræði, þar sem fjallað er um skilgreiningar, hugtök og kenningar. Fjallað er um heildræna markaðssetningu, stefnumótun, markaðsáætlanir og stjórnun markaðsstarfs. Innri og ytri þættir í umhverfi fyrirtækja, samskipti við viðskiptavini, kauphegðun á neytenda- og fyrirtækjamörkuðum. Söluráðarnir sjö, vara, verð, dreifing, kynning, fólk, ferli og áþreifanlegar vísbendingar verða kynntir, og mikilvægi samspils þeirra gerð skil. Þá verður fjallað um uppbyggingu vörumerkjavirðis, samkeppni, þjónustu, gildi markaðsrannsókna og upplýsingaöflunar fyrir faglegt markaðsstarf. Fjallað verður um mikilvægi markaðshlutunar, markhópagreiningu og staðfærslu. Vöruþróun og alþjóðamarkaðsfræði.
Stjórnun I
Í námskeiðinu er fjallað um stjórnun og stjórnunarkenningar, skipulagsheildir og atferli einstaklinga og hópa við vinnu. Fjallað er um staðblæ og gildismat innan fyrirtækja og sérstök áhersla lögð á mismunandi þjóðmenningu, viðskiptasiðferði og samfélagslega ábyrgð. Ennfremur er fjallað um atferli einstaklinga og vinnuhópa, starfshvatningu, stjórnunarstíla, leiðtogahlutverkið og breytingastjórnun. Loks er fjallað um nýjar áherslur í stjórnun.
Hagnýt stærðfræði I
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna grundvallaraðferðir, hugtök og vinnubrögð sem nýtast við stærðfræðilegar lausnir á vandamálum sem koma fyrir í viðskiptafræði.
Vinnulag í háskólanámi
Námskeiðið miðar að því að þjálfa nemendur í helstu grundvallaratriðum fræðilegra vinnubragða. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknar-viðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Kynntar eru helstu rannsóknar-aðferðir og er lögð áhersla á að megindlegar og eigindlegar aðferðir séu kynntar sérstaklega. Þá er lögð áhersla á skipulag rannsókna, rannsóknarspurningar, skilgreiningar hugtaka og tilgátur. Heimildavinna, rafræn heimildaleit, tilvísanir í heimildir og heimildaskráning fá vandlega umfjöllun . Fjallað er um úrvinnslu gagna og framsetningu niðurstaðna gagna, m.a. gerð texta, stílbrigði,og grunnatriði framsetningar tölfræðilegra gagna. Þá er fjallað sérstaklega um siðferðileg álitamál í rannsóknum og gagnrýna hugsun í vísindum. Loks er lögð mikil áhersla á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Áhersla er lögð á vinnu minni nemendahópa að sértæku rannsóknarverkefni sem gefur nemendum innsýn og þjálfun í ferli rannsóknar: undirbúning, framkvæmd og framsetningu niðurstaðna.
Fjárhagsbókhald
Tilgangur námskeiðsins er að kynna nemendum tengsl upplýsingakerfis, bókhalds og reikningsskila. Horft er til laga og reglugerða um bókhald og uppsetningu ársreikninga. Farið er yfir settar reikningsskilareglur og siðferðislega matsþætti við færslu og vinnslu bókhalds. Grundvallaratriði tvíhliða bókhalds og færslu virðisaukaskatts. Bókunarferillinn er rakinn, bókunarfærslur eru gerðar og lokauppgjör unnin. Uppsetningu og samspili efnahags-, rekstrarreiknings og sjóðstreymis eru gerð ítarleg skil. Færslur í tölvubókhaldi eru einnig skoðaðar.
Þjóðhagfræði I
Þjóðhagfræði og þjóðhagsreikningar. Þjóðartekjur neysla, fjárfesting, sparnaður, skattar og opinber útgjöld, útflutningur, innflutningur og margföldunaráhrif. Framleiðslan og heildareftirspurn. Peningar og lánastofnanir. Seðlabanki, framboð og eftirspurn eftir peningum. Heildarframboð, verðlag og hraði aðlögunar. Verðbólgukenningar, væntingar og trúverðugleiki. Vinnumarkaður og atvinnuleysi. Gengi og viðskiptajöfnuður. Hagstjórn í opnu hagkerfi. Hagvöxtur og hagvaxtarkenningar. Hagsveiflur. Staða þjóðhagfræðinnar í dag. Hlutfallslegir yfirburðir, milliríkjaverslun og viðskiptastefna. Fyrirkomulag gengismála, samþætting í Evrópu og þróunarríki. Einkenni og þróun íslenska hagkerfisins og sérkenni núverandi „sjávarútvegshagkerfis“. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og verkefnavinnu og /eða prófæfingum.
Ársreikningurinn
Tilgangur námskeiðsins er að veita nemandanum skilning á ársreikningum, framsetningu þeirra og almennt viðteknum reikningsskilareglum. Áhersla lögð á framlagningu ársreikninga og samspil efnahagsreiknings, rekstrarreiknings og sjóðstreymi. Einnig er fjallað um eftirfarandi efni: Lög um ársreikninga og hlutverk og ábyrgð forstjóra og endurskoðenda. Farið í aðferðafræði við lestur og greiningu ársreikninga og útreikning og túlkun á helstu kennitölum í rekstri fyrirtækja.
Rannsóknaraðferðir og tölfræði
Fjallað er um rannsóknarsnið, helstu gagnaöflunaraðferðir og tölfræði. Af eigindlegum og megindlegum aðferðum er fjallað um viðtöl, rýnihópa og þátttökuathuganir, tilraunir, spurningakannanir og notkun opinberra gagna í rannsóknum. Þá eru kenndir helstu þættir í lýsandi tölfræði, myndrænni framsetningu gagna og einfaldri framsetningu á niðurstöðum. Kynnt eru grunnatriði í ályktunartölfræði, líkindareikningi og einföld tölfræðipróf. Einnig er farið í grunnatriði aðhvarfsgreiningar. Kynnt er skráning gagna í gagnagrunna og grunnatriði í notkun tölfræðiforrita.
Rekstrarhagfræði I
Hagfræðin skilgreind og skýrð sögulega. Vísindi og vísindaleg aðferð. Staða hagfræði meðal vísindagreina. Skipting hagfræðinnar í undirgreinar. Aðferðir og tæki hagfræðinnar. Markmið með stofnun og rekstri fyrirtækja, skipulag þeirra og fjármögnun. Eftirspurn, eftirspurnarfallið, verð-, tekju- og víxlteygni, samkeppnis- og staðkvæmdarvörur. Kenningar um val neytandans. Framboð, framboðsfallið. Framleiðsla og val framleiðsluaðferða. Kostnaður, kostnaðarfallið, meðalkostnaður, jaðarkostnaður, fórnarkostnaður og hagkvæmni. Markaðsaðgerðir: fullkomlega frjáls samkeppni, ófullkomin samkeppni og hrein einokun. Verð, verðlagning og verðmismunun. Fjármagnsmarkaðurinn, vextir og fjárfestingar. Vinnumarkaðurinn, launþegafélög og mismunun. Óvissa, kraðak, og ósamhverfar upplýsingar. Almennt jafnvægi og velferðarhagfræði. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og verkefnavinnu og /eða prófæfingum.
Rekstrarstjórnun
Markmið: Að kynna fyrir nemendum tengsl stjórnunar við rekstur og afkomu fyrirtækja og gera þeim mögulegt að nota aðferðir rekstrarstjórnunar við ákvarðanatöku. Efni: Rekstrarstjórnun. Samkeppnisstaða, stefnumótun og framleiðni. Gerð spálíkana. Skipulag afkastagetu. Rekstrarferli. Skipulag aðstöðu. Staðarval. Vörustjórnun. Birgðastýring, óháðar vörur. Gerð framleiðsluáætlana. Birgðastýring, háðar vörur. Vörustjórnun. Verkefnastjórnun.
Fjármál I (fyrirtækja)
Fjármálastjórn og viðfangsefni fjármálafræða. Kynning á fjármagnsmarkaðinum, fjármálastofnunum, vöxtum og vaxtamyndun. Samband áhættu og arðsemi. Núvirði og framvirði greiðslu og greiðslugeta. Aðferðir við mat á markaðsvirði verðbréfa. Fjármagnskostnaður. Fjárfestingaáætlanir og aðferðir við mat fjárfestinga. Sjóðstreymi og fjárfestingar. Val fjárfestinga, áhættugreining og fjármagnsskömmtun. Fjármagnsskipan fyrirtækja. Gerð fjárhagsáætlana, rekstraráætlana og um þróun fjárhagslegrar stöðu. Fjallað verður um veltufjármuni og fjármögnum þeirra. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og verkefnavinnu og /eða prófæfingum.
Markaðsrannsóknir - Spurningakannanir
Fjallað er um markaðsrannsóknir sem tæki við ákvarðanatöku. Farið er yfir rannsóknarferlið og hönnun rannsókna. Notkun fyrirliggjandi gagna við markaðsrannsóknir. Kynning á notkun eigindlegra og megindlegra rannsóknaraðferða við markaðsrannsóknir. Grunnatriði við hönnun og gerð spurningakannana. Fjallað er um úrtaksaðferðir og gerðir úrtaka. Sérstök áhersla er á gagnameðhöndlun með SPSS þar sem nemendur sýni leikni sína í notkun tölfræði (fylgnistuðlum, krosstöflum, vikmörkum o.fl.). Persónufrelsi og markaðsrannsóknir. Markaðsrannsóknir á Íslandi. Í námskeiðinu vinna nemendur hópverkefni sem felst í hönnun, framkvæmd og úrvinnslu úr spurningakönnun.
Viðskiptalögfræði
Farið verður yfir hvaðan réttarreglur eru upprunnar og helstu atriði sem varða skýringu þeirra. Þá verður yfirlit yfir grundvallaratriði í íslenskri stjórnskipun, starfsemi löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómstóla. Megináherslan verður þó á fjármunarétt, þ.e. réttarreglur um samninga, kaup, grundvallaratriði í kröfurétti og um skaðabætur. Kynnt verða réttarsvið sem varða viðskiptalífið sérstaklega, svo sem reglur um félög, samkeppni og fleira.
Skattskil
Farið yfir meginreglur laga um skattskyldu og skattlagningu tekna og eigna einstaklinga og lögaðila. Almenn skattskil, samskipti við skattyfirvöld, staðgreiðsla, rekstrarkostnaður, skattframtal, bókhaldsskylda, tekjuskráning og helstu atriði er lúta að virðisaukaskatti. Fjallað í stuttu máli um stofnun fyrirtækja og farið yfir mismunandi form framtala og skýrslugjafa eftir því hvert rekstrarformið er. Heimildir og skilyrði laga til að lágmarka skattstofna fyrir álagningu gjalda.
Kostnaðarbókhald
Kynning á eðli og hegðan kostnaðar. Samband kostnaðar, magns og hagnaðar. Kostunaraðferðir: Ferliskostun, verkkostun og verkgrunduð kostun. Áætlanir og ábyrgðarreikningar. Notkun frávikagreiningar við stjórneftirlit. Birgðakostun og afkastagreining. Viðeigandi upplýsingar. Arðsemi viðskiptavina, greining sölufrávika og sam- og hjáframleiðsla.
Markaðsfræði II (Auglýsingar og kynningarmál)
Fjallað er ítarlega um kynningarráðana: Auglýsingar, söluhvatar, bein markaðssetning, internetið og gagnvirkir miðlar, persónuleg sala og almannatengsl/fréttaumfjöllun. Samskiptaferlið er greint og þættir þess skoðaðir sem og kauphegðun og ákvörðunarferli neytenda. Þá er fjallað um mismunandi miðla, kosti þeirra og galla. Lögð er áhersla á að kynna mikilvægi stefnumótunar og setningu markmiða í markaðsstarfi og hvernig útbúa eigi markaðs- og kynningaráætlun. Þættir sem snúa að hönnun skilaboða eru skoðaðir gaumgæfilega og einnig hvað felst á bak við hugtakið "skapandi stefna". Þá er fjallað um mikilvægi þess að mæla skilvirkni boðmiðlunar og hvaða leiðir eru færar til þess. Hlutverk alþjóðlegrar boðmiðlunar eru gerð skil og komið er inn á félagsleg, siðferðisleg og efnahagsleg sjónarmið auglýsinga- og kynningarmála.
Stjórnun II (mannauður)
Mannauðsstjórnun. Þróun mannauðs- og starfsmannastjórnunar. Hlutverk starfsmannadeilda, starfsmannastefna og starfsmannaáætlanir. Greining starfa og starfahönnun. Ráðning starfsmanna, móttaka nýliða, þjálfun og fræðsla. Frammistöðumat, starfsmanna- og agaviðtöl. Launakerfi. Starfslok og vinnuréttur. Starfsánægja. Jöfn tækifæri kynja á vinnumarkaði. Alþjóðleg mannauðsstjórnun.
Fjármál II (fjármálamarkaðir)
Farið er yfir arðgreiðslur og helstu kenningar varðandi þær, einnig fjallað um helstu gerðir hlutabréfa og breytanleg skuldabréf. Farið er yfir sjóðstreymismódelið og mat á virði fyrirtækja út frá núvirðingu á sjóðstreymi. Einnig er kennt samval verðbréfa og helstu kenningar sem þar gilda. Fjallað um samband áhættu og ávöxtunar. Farið er yfir verðmyndun skuldabréfa og vaxta, meðallíftíma skuldabréfa og áhrif vaxtabreytinga á verð skuldabréfa. Farið er yfir helstu kenningar um stjórnun verðbréfasafna. Auk þess er farið yfir íslenska fjármagnsmarkaðinn og helstu einkenni hans.
Alþjóðaviðskipti
Mikilvægi alþjóðaviðskipta og hnattvæðing. Umhverfi alþjóðaviðskipta, menning, stjórnmála- og lagaumhverfi. Fræðilegur grundvöllur alþjóðaviðskipta og fjárfestinga. Fjármálamarkaðir, efnahagssamruni og nýmarkaðir. Stefnumótun í alþjóðaviðskiptum. Innganga og útvíkkun. Rekstrartengdir þættir alþjóðaviðskipta. Framtíð alþjóðaviðskipta og starfstækifæri á sviði alþjóðaviðskipta. Ofangreindir þættir verða skoðaðir í samhengi við íslenskar aðstæður og atvinnulíf, og með sérstakri áherslu á alþjóðavæðingu íslenskra fyrirtækja.
Áætlanagerð
Tilgangur, uppbygging og heildarferli áætlanagerðar og tengslin við stjórneftirlit og innleiðingu stefnumótunar. Fjallað er um eðli stjórneftirlitskerfa og tengsl stefnumótunar, áætlanagerðar, ábyrgðarstaða og frammistöðumats. Kynntar eru ýmsar aðferðir við áætlanagerð m.a. við fjárhagsáætlanir, rekstraráætlanir og greiðsluáætlanir og fjallað um kosti þeirra og galla. Við kynningu á hinum ýmsu undiráætlunum er tekið mið af því sem nemendur hafa þegar kynnst í rekstrarstjórnun, fjármálum og reikningshaldi. Hluti námsins fer fram með greiningum og lausnum nemendahópa á hermidæmum (cases).
Stjórnun III (skipulagsheildin)
Í námskeiðinu er getið um helstu atriði skipulagsfræða. Fjallað er um stjórnskipulag fyrirtækja og stofnana og umhverfi þeirra. Gerð er grein fyrir skipulagi framleiðslu- og þjónustufyrirtækja og lífskeiði fyrirtækja. Farið verður í ákvarðanatöku í skipulagsheildum og vald og samskipti deilda og hópa innan skipulagsheilda. Gerð er grein fyrir þekkingar- og umbreytingarstjórnun, áhrifum upplýsingatækni á skipulag, alþjóðavæðingu fyrirtækja og fyrirtækjamenningu.
Markaðssetning þjónustu
Fjallað er um sérkenni og söluráða þjónustu. Farið er ítarlega í markaðsfærslu þjónustu þar sem dreginn er fram munur á markaðsfærslu þjónustu annars vegar og markaðsfærslu áþreifanlegra vara hins vegar. Lögð er áhersla á þau atriði sem sérstaklega þarf að gæta að við markaðssetningu þjónustu. Fjallað er um áhrifaþætti á væntingar og skynjun viðskiptavina, kauphegðun, mælingar á þjónustugæðum, og mikilvægi þess að byggja upp langtímasamband við viðskiptavini. Þá er farið í hönnun þjónustu, staðla og þjónustuumgjörð og hlutverk viðskiptavina og starfsmanna í framkvæmd þjónustu eru skoðuð. Jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar þjónustu, verðlagning, afhending í gegnum milliliði og markaðsleg boðmiðlun þjónustu eru einnig mikilvæg viðfangsefni þessa námskeiðs.
Neytendahegðun
Viðfangsefni námskeiðsins er neyslumenning og neytendahegðun. Með grunnskilning á neyslumenningu og félagslegum birtingarmyndum hennar er veitt innsýn inn í hegðun neytenda og sýnt fram á mikilvægi fræðilegrar þekkingar á neyslumenningu samtímans fyrir markaðsfærslu þjónustu sem og vöru. Er sjónarhorninu beint fyrst og fremst á Vesturlönd. Áhersla er lögð á menningu, kaupákvörðunarferlið þar sem m.a. er fjallað um hvata til kaupa, ákvörðunarþætti, líkön ákvarðanatöku, formgerð markaða og markaðshlutun.
Stefnumótun
Grunnatriði stefnumótunarfræðanna. Námskeiðið er byggt upp þannig að nemendur fái innsýn í hugtakið stefnumótun og tengi saman fræði og hagnýta notkun þeirra. Efni: Saga og hlutverk stefnumótunar. Greining ytra umhverfis. Mat á innri auðlindum. Framtíðarsýn og hlutverk, samkeppnisyfirburðir og kjarnahæfni. Valkostir og mótun stefnu. Innleiðing stefnu, skipulag, stjórnunarhættir og hagsmunaaðilar. Mótun og framkvæmd stefnu. Rýni stefnumótunar. Kennsla og verkefni: Kennsla byggist á fyrirlestrum, umræðum og verkefnum ásamt gestafyrirlestrum. Vinnuhópar starfa saman yfir önnina að fjölbreyttum verkefnum sem tengja saman hagnýtingu og fræði.
Fjármál III (Afleiður)
Vextir, áhætta og eignasöfn. Fjallað er um helstu verðmyndunarlíkön og kenningar um verðmat verðbréfa. Helstu tegundir afleiðusamninga: Vilnanir og framvirkir samningar. Fjallað verður um kenningar um samband milli núgengis, framvirks gengis, vaxta og verðbólgu. Einnig um gengisáhættu og varnir gegn henni.
Tölfræðileg greining - Hagrannsóknir
Í námskeiðinu verður farið yfir notkun tölfræðilegra aðferða sem tengjast viðskiptafræði. Farið verður í líkindafræði og líkindaföll. Annað sem farið verður yfir er: tilgátuprófun, fylgni, aðhvarfsgreiningu, margvíða aðhvarfsgreiningu, tímaraðagreining og spálíkön, stikalaus próf, gæði mats, dreifigreining og úrtaksfræði. Lögð er áhersla á að nemendur verði vel undirbúnir fyrir notkun tölfræðilegra aðferða í öðrum námskeiðum og starfi. Áhersla er lögð á að nemendur noti Excel í útreikningum.
Hagnýtar aðgerðarannsóknir
Kynntar eru ýmsar stærðfræðilegar og tölfræðilegar aðferðir til að gera skipulegar áætlanir og taka hagkvæmar ákvarðanir um fjárfestingar, framkvæmdir, framleiðslu, flutninga og aðra starfsemi fyrirtækja og stofnana. Rætt er um spár, bestun, línulega bestun, grafíska aðferð og simplexaðferð, næmnigreiningu, flutningaverkefni, heiltölubestun, Poissonferli og biðraðafræði. Áhersla er lögð á notkun tölvu til að leysa spá- og bestunarverkefni í Excel (töflureiknir).
Markaðsleg boðmiðlun
Farið er nánar í ýmsa þætti boðmiðlunarferlisins, með ríka áherslu á almannatengsl. Tekin eru fyrir áhugaverð efnisatriði s.s. eins og almannatengsl og fréttaumfjöllun, hvernig þetta nýtist fyrirtækjum, almannatengsl á netinu, félagsleg markaðssetning, stjórnun orðspors, og áfallastjórnun svo dæmi séu tekin. Mikil áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og þátttöku nemenda í tímum.
Gæðastjórnun I
Í námskeiðinu er unnið með; skilgreiningar á gæðum, sögu gæðastjórnunar og framlag frumkvöðla til gæðastjórnunar. Fjallað er um meginhugtök gæðastjórnunar, PDCA-hringrásina, viðhorf stöðugra umbóta, liðsvinnu, sjö-þrepa umbótaferlið, hópvinnuaðferðir og „tól og tæki“. Þá er fjallað um altæka gæðastjórnun, fyrirtæki sem safn ferla og stjórnkerfisbreytingar. Farið verður yfir breytileika og mikilvægi þess að vinna náið með/fækka birgjum og minnka breytileika með því að skipuleggja alla ferla í fyrirtækinu. Einnig verður farið yfir ýmis gæðaverðlaun, gæðatryggingar, gæðavottanir, gæðakostnað og stefnumótun í gæðamálum. Farið verður yfir stöðugreiningu, Servqual-aðferðina, tölfræðilega gæðastýringu, stjórnrit, stýrimörk, undirhópa og getu ferlis. Hvernig skal finna og uppræta orsakir breytileika. Þá verður fjallað um uppbyggingu og innleiðslu gæðastjórnunar, nám í skipulagsheildum og þjálfun starfsmanna.
Viðskiptabréfa- og verðbréfamarkaðsréttur
Sérreglur kröfuréttar, aðallega viðskiptabréfareglur. Farið verður yfir reglur um kröfuábyrgðir, veðréttindi og þinglýsingar og helstu reglur sem gilda um fjármálamarkaðinn. Fjallað um verðbréfasjóði, verðbréfaviðskipti, lög um fjármálafyrirtæki, lög um kauphallir og skipulagða tilboðsmarkaði. Opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum.
Stjórnun og rekstur sveitarfélaga
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum þekkingu á íslenska sveitarstjórnarstiginu, stjórnun, rekstur og starfsemi sveitarfélaganna. Helstu efnisþættir eru:
- Tilgangur, hlutverk og verkefni sveitarstjórnarstigsins og stöðu sveitarfélaganna í stjórnkerfinu.
- Stjórnsýsla, lýðræði og stefnumótun á sveitarstjórnarstiginu.
- Löggjöf um sveitarstjórnir og sveitarfélög.
- Rekstur og fjármál sveitarfélaga.
- Sveitarfélög, byggðaþróun og búferlaflutningar.
- Samfélagsleg og landfræðileg áhrif samgangna og fjarskipta
- Sveitarfélög á 21. öldinni. Útlit og horfur.
Stærðfræði II
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að þjálfa frekari aðferðir, hugtök og vinnubrögð í stærðfræði sem nýtast í raunvísindum og viðskiptafræði.
Verkefnastjórnun
Þetta námskeið er ætlað nemendum í viðskiptadeild og öðrum sem vilja efla þekkingu sína á eðli nútíma verkefnastjórnunar í fyrirtækjumog daglegu lífi. Skoðuð verða helstu hugtök og grundvallar vinnubrögð sem og þau tæki og tól sem nútíma verkefnastjórnun notast við. Skoðuð verða raunveruleg dæmi og reynt að tengja saman starfsemi fyrirtækja og fræðigreinina verkefnastjórnun.
Vöruþróun og nýsköpun
Námskeiðið er viðamikið og miðar að þróun viðskiptahugmyndar yfir í viðskiptatækifæri og gerð viðskiptaáætlunar fyrir viðskiptahugmyndina.
Annars vegar er farið yfir grundvallaratriði við vöruþróun og hugmyndavinnu og hvernig viðskiptahugmynd verður að viðskiptatækifæri. Fjallað verður um meginhugtökin nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Farið verður yfir helstu þætti varðandi vöruþróunarferlið sjálft sem og hugmyndavinnu og gildi hópa fyrir vöruþróunarferlið. Jafnframt verður farið yfir helstu þætti við val og síun hugmynda eða matsferlið. Fjallað verður um nýsköpun á Íslandi.
Hins vegar verður farið yfir ferlið frá hugmynd að áætlun og fjallað um uppbyggingu og innihald s.s. stefnumótun, markaðsmál, fjármál ofl. ásamt framsetningu. Einnig verður fjallað um klasa og klasasamstarf.
B.Sc.- ritgerð
Lokaverkefni miðast við að þjálfa nemendur í sjálfstæðum rannsóknavinnu er lúta að öflun gagna, greiningu á þeim og framsetningu á niðurstöðum. Verkefnið er sjálfstæð vinna nemenda undir handleiðslu kennara. Verkefnið skal vera á því sérsviði sem nemandinn hefur valið. Lokaverkefni miðast við að undirbúa nemendur til frekari náms og stunda sjálfstæðar rannsóknir. Nemendur verða að hafa lokið að lágmarki 120 ECTS einingum áður en hægt er að byrja vinnu við lokaverkefnið. Sjá nánar „Leiðbeiningar um lokaverkefni“.