Háskólinn á Akureyri eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í nútímafræði.

Í náminu er lögð áhersla á að fræðast með gagnrýnum hætti um ólíka þætti nútímasamfélagsins.

Mörg valnámskeið eru í boði og góðir möguleikar á skiptinámi, bæði innanlands og utan.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú gaman af því að tala um hitamál?
  • Viltu verða meðvitaður borgari?
  • Viltu skilja af hverju íslensk menning er eins og hún er?
  • Viltu dýpka skilning þinn á vestrænum samfélögum?
  • Hefur þú áhuga á að miðla efni?
  • Viltu velja áherslur í náminu þínu?
  • Viltu geta sannfært fólk og fengið það á þitt band?

Áherslur námsins

Námið er blanda af heimspeki, siðfræði, sagnfræði, samfélagsgreinum og íslensku.

Dregin er upp mynd af nútímasamfélaginu, það er að segja því samfélagsformi sem fór að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum á 18. öld. Fjallað er um þá þætti sem hafa áhrif á það og ýmsum álitamálum velt upp.

Þú færð þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Meðal annars er lögð áhersla á gagnrýna hugsun.

Nemendur ljúka 120 ECTS-einingum af kjarnanámskeiðum. Auk þess er valið á milli margra valnámskeiða en einnig er hægt að velja á milli þriggja áherslusviða:

  • Sagnfræði
  • Heimspeki
  • Íslensku

Þú getur skoðað skipulag námsins neðar á síðunni og í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Að loknu námi munt þú hafa umfangsmikla þekkingu á uppbyggingu og þróun nútímasamfélags. Þeir eiginleikar eru eftirsóttir hjá fyrirtækjum, samtökum, sveitarfélögum og stofnunum.

Stúdentar okkar hafa til að mynda fengið störf á sviði menningarmála, kennslu, fjölmiðlunar og upplýsingamiðlunar.

Námið býr þig einnig undir framhaldsnám í ólíkum greinum hug- og félagsvísinda, til dæmis í mannfræði, siðfræði og sagnfræði.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla. Eða aðrar forsendur til náms sem Félagsvísindadeild metur fullnægjandi

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

  • Uppfylla almenn inntökuskilyrði, 100 stig
  • Fjöldi lokinna eininga, 0-80 stig
  • Sýn umsækjenda á námið, 0-10 stig
  • Umsækjendur sem teljast innflytjendur samkvæmt viðmiðum Hagstofu Íslands, 10 stig
  • Kynjahlutfall í deildinni, 10 stig 

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsækjendur sem uppfylla ekki almennar aðgangskröfur háskólans en náð hafa 25 ára aldri og lokið að lágmarki 90 einingum (140 fein) af framhaldsskólastigi verða eingöngu teknir til skoðunar ef fjöldi umsókna þeirra sem uppfylla almennar aðgangskröfur eru undir fjöldaviðmiðum. Allar undanþáguumsóknir fara til viðkomandi háskóladeildar til meðferðar. Undanþága frá inntökuskilyrðum veitir einungis leyfi til nýskrásetningar í það nám sem umsækjandi sótti um og á því háskólaári. 

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að ekki skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og hafa aðgang að sama námsefninu.

Allir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á upptökunni. Hægt er að taka þátt í umræðutímum og hópavinnu í gegnum samskiptaforrit.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Skiptinám

Allir stúdentar eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Nútímafræði við HA reyndist vera góður grunnur fyrir framhaldsnám í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum. Sveigjanleikinn í náminu gerði mér kleift að stunda hluta þess erlendis. Þá hefur það komið sér vel í störfum mínum hversu þverfaglegt það er.

Hjörtur Ágústsson
Verkefnastjóri alþjóðasamstarfs og styrkja Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Í nútímafræðinni fékk ég góða þjálfun í gagnrýninni hugsun og öguðum vinnubrögðum. Námið opnaði á ný tækifæri og reyndist góður undirbúningur fyrir framhaldsnám mitt í menningarstjórnun og þau störf sem ég hef sinnt, til að mynda sem menningarfulltrúi Eyþings og framkvæmdastjóri aldarafmælis fullveldis Íslands.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir
Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar