Geðhjúkrun veitir dýpri skilning á geðheilbrigðisþjónustu og þeim áskorunum sem skjólstæðingar og aðstandendur þeirra standa frammi fyrir. Áhersla er lögð á að efla klíníska þekkingu og færni, fagmennsku og rannsóknargetu til að stuðla að framþróun í geðhjúkrun og bættu heilbrigðiskerfi.

Námið er samvinnuverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á geðheilbrigðismálum?
  • Brennur þú fyrir því að bæta þjónustu við notendur geðheilbrigðisþjónustunnar og fjölskyldur þeirra?
  • Langar þig að verða virkur þátttakandi í þróun geðheilbrigðisþjónstu til framtíðar?
  • Vilt þú bæta geðheilsu landsmanna?

Áherslur námsins

Meginmarkmið námsins er að búa hjúkrunarfræðinga undir leiðandi hlutverk í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. Áhersla er á að auka klíníska þekkingu og færni nemenda, fagmennsku og rannsóknarfærni.

Námið er 120 einingar og er skipulagt sem fullt nám til tveggja ára. Námið samanstendur af:

  1. Bóklegum námskeiðum (56 ein)
  2. Klínískum námskeiðum kenndum við Landspítala (14 ein)
  3. Lokaverkefni (30 ein)
  4. Metnum einingum úr BS-námi eða viðbótarnámi nemanda (20 ein)

Fyrirkomulag námsins

Meistaranám í geðhjúkrun er 120 einingar og er skipulagt sem tveggja ára nám. Nemendur ljúka 60 einingum á fyrra árinu, sem að hluta til er launað starfsnám, og 40 einingum því síðara, tuttugu einingar eru svo metnar eins og er úr fyrra námi. Námið er sveigjanlegt með reglulegum staðlotum á námstímanum við HA og HÍ, auk klínískra námskeiða í umsjón geðsviðs Landspítala.

Fyrra námsárið (9 mánuðir) er 80% launað starfsnám á forræði eftirfarandi þriggja starfsstöðva:

  • Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins (3 stöður), áhersla á fyrsta og annars stigs geðheilbrigðisþjónustu
  • Landspítala (10 stöður), áhersla á annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu
  • Sjúkrahúsið á Akureyri (2 stöður), áhersla á dreifbýlis geðhjúkrun

Seinna námsárið er ekki launað.

Námsmat fer aðallega fram með símati, verkefnavinnu, verklegum og skriflegum prófum og frammistöðumati í klínískum aðstæðum.

Skipulag námsins má skoða í Uglu, kennsluvef Háskólans á Akureyri.

Möguleikar að námi loknu

Gerð er krafa um að nemandi og vinnustaður hans móti skýra áætlun um hvernig nemandinn muni öðlast sérfræðileyfi í geðhjúkrun eftir að námi lýkur.​

Starfsmöguleikar eru fjölmargir, til dæmis á sjúkrahúsum, heilsugæslum, og öðrum heilbrigðisstofnunum, við kennslu í háskólum eða sjálfstætt starfandi. Atvinnuhorfur útskrifaðra eru góðar.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Hjúkrunarfræðingur sem tekinn er inn í námið þarf að hafa verið ráðinn í 80% sérnámsstöðu við heilbrigðisstofnun og hafa gilt hjúkrunarleyfi á Íslandi. Hann þarf að hafa lokið 240 ECTS BS námi í hjúkrunarfræði með að lágmarki 6,5 í meðaleinkunn og geta tjáð sig, lesið og skrifað á íslensku.

Námið er að hluta til skipulagt sem launað starfsnám og mun aðgangur að því takmarkast við 15 nemendur sem teknir verða inn annað hvert ár. Verði fjöldi umsókna umfram laus pláss mun val á umsækjendum ráðast af niðurstöðum mats á mismunandi þáttum.

Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófsskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og staðfesting frá vinnuveitanda um launaða námsstöðu fylgi með umsókn.