Sveigjanlegt nám er stór kostur við Háskólann á Akureyri. Fjölbreyttar og nútímalegar kennslu- og námsaðferðir eru notaðar við miðlun námsefnis.
Allt grunnám er í boði sem sveigjanlegt nám. Það þýðir að nemendur þurfa ekki endilega að vera búsettir á Akureyri heldur koma í háskólann í sérstakar námslotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.
Í námslotunum gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu. Þess er krafist að nemendur mæti í loturnar og taki virkan þátt.
Sveigjanlegt nám er nemendamiðað nám án kröfu um daglega viðveru á háskólasvæðinu á Akureyri - óháð stað en ekki stund. Nemendur geta stundað námið óháð búsetu þar sem verkefni og verkefnaskil eru rafræn.
Samskipti í sveigjanlegu námi eiga sér stað með fjölbreyttum hætti:
Með samskiptum í rauntíma með líkamlegri viðveru
Í gegnum fjærverur (vélmenni) í háskólanum
Í rauntíma með notkun samskiptaforrita eða fjærvera í kennslustundum, umræðu- eða dæmatímum
Með netpósti eða einfaldlega í gegnum síma
Námsefni er aðgengilegt nemendum í kennslukerfi háskólans og er á ýmsu formi. Til dæmis: upptökur af fyrirlestrum, textar, rafbækur og hlaðvörp.
Notaðar eru fjölbreyttar kennsluaðferðir. Til dæmis: samvinnunám, vendikennsla og blandað nám.
Námslotur eru haldnar reglulega yfir skólaárið en fjöldi og lengd þeirra er mismunandi milli námsleiða. Stundum ein, tvær eða þrjár lotur á misseri og geta verið í tvo til fimm daga í senn. Hér má sjá hvenær námslotur eru.
Námslotur eru vettvangur til þess að stuðla að og styðja við námssamfélag háskólans, þar sem nemendur og kennarar vinna saman. Í lotum eru verkefni og umræður í forgrunni. Þess er krafist af nemendum að þeir mæti í kennslulotur og séu virkir meðan á þeim stendur. Í ákveðnum aðstæðum, eins og til dæmis ef ófærð hamlar, geta nemendur í samráði við kennara mætt í lotur í gegnum fjærverur.
Sveigjanlegt nám við Háskólann á Akureyri er í sífelldri þróun. Stuðst er við kennslufræði sem hentar og leitast við að nota þá tækni sem virkar á hverjum tíma til að styðja við kennslufræðina.
Umfram allt er sveigjanlegt nám mótað að þörfum nemenda við Háskólann á Akureyri.
Framhaldsnám
Framhaldsnám háskólans er í boði sem sveigjanlegt nám. Misjafnt er þó eftir námsleið hvernig sveigjanlega náminu er háttað.
Helsti kosturinn er að nemendur og starfsfólk hittast augliti til auglitis
Nemendur geta byggt upp öflugt tengslanet
Nemendur geta tekið virkari þátt í félagslífinu
Nemendur kynnast nemendum á öðrum námsstigum og í öðru námi
Fjarnemar í sveigjanlegu námi
Fjölbreytileg tækni notuð til að búa til gott námsumhverfi fyrir nemendur og stuðla að gagnvirkum samskiptum
Fjarnemar geta nýtt fjærveru/vélmenni til að kíkja í kennslustund, hitt kennara eða samnemendur
Langflest námskeið eru tekin upp og aðgengileg í kennslukerfi háskólans
Miðlun námsefnis fer fram í stuttum í námslotum þar sem nemendur hitta staðarnema og kennara
Fjarnemar skuldbinda sig til að koma í námslotur á Akureyri
Oftast eru tvær námslotur á misseri. Hver lota er um 2-5 dagar
Ef nemendur eru á milli ára geta þeir lent í því að tímasókn dreifist á fleiri daga
Í námslotum er áhersla á verkefnavinnu og umræður
Námsefni er aðgengilegt í kennslukerfi á vefnum
Námsefni er á fjölbreyttu formi, til dæmis upptökur og rafbækur
Samskipti fara til dæmis fram í gegnum netpóst og kennslukerfi
Nemendur þurfa aðgang að öflugri nettengingu
Sterk tengsl geta myndast milli fjarnema í sama námi eða þeirra sem búa á svipuðum slóðum
Nemendur geta áfram búið í sinni heimabyggð
Athugið að annað gæti gilt þar sem verkleg námskeið eru.
Próf fjarnema
Fjarnemar geta tekið próf hjá símenntunar- og fræðslumiðstöðvum úti um allt land ef þeir hafa ekki tök á taka próf í Háskólanum á Akureyri. Athugið að einhverjar símenntunar- og fræðslumiðstöðvar innheimta þjónustugjöld.
Nemendur sem eru búsettir erlendis geta fengið undanþágu til að taka próf utan skráðra próftökustaða:
Þeir verða þá að útvega prófstað hjá viðurkenndri háskólastofnun eða hjá sendiráði
Nemandi ber sjálfur kostnað af próftökunni
Öll próf fara fram á sama tíma og próf á Íslandi (athugið að tímamismunur getur verið mikill)
Skriflegt samþykki deildar þarf fyrir prófstað
Samstarf við símenntunar- og fræðslumiðstöðvar
Nemendur geta fengið vinnuaðstöðu með nettengingu hjá sumum samstarfsaðilum Háskólans á Akureyri. Þetta fyrirkomulag getur hentað þeim sem vilja félagsskap. Einnig þeim sem vilja byggja upp víðara tengslanet samhliða fjar- eða lotunámi.
Sumir samstarfsaðilar innheimta þjónustu- eða aðstöðugjald. Kynntu þér möguleikana í þínu sveitarfélagi.
Háskólinn á Akureyri er í fremsta flokki hvað varðar notkun tækninnar í miðlun náms. Kennslumiðstöð (KHA) heldur öllum á tánum með því að veita kennurum faglega aðstoð við þróun kennsluhátta, hvort sem er í staðar- eða fjarnámi, í formi almennrar ráðgjafar og námskeiða og þróunarstarfs með áherslu á svið upplýsingatækni og kennslufræði.
Auk þess stuðlar KHA að aukinni notkun tölvu- og upplýsingatækni í háskólanum og veitir nemendum og starfsfólki aðstoð og ráðgjöf á því sviði.
Kennslumiðstöð veitir aðstoð ef nemandi óskar eftir að sækja tíma í fjærveru (vélmenni) eða í gegnum Kubi spjaldtölvu. Með hjálp þessara tækja verða fjarnemar enn frekar hluti af háskólasamfélaginu og missa ekki einu sinni af umræðum utan tíma.