Á þessari námslínu öðlast þú dýpri þekkingu og sérhæfingu á langvinnum veikindum. Fólki greinist æ oftar með langvinn veikindi og stöðugar framfarir í heilbrigðisvísindum kalla á aukna sérhæfingu heilbrigðisstarfsmanna.

Áhersla er á að þú öðlist þekkingu til að takast á við áskoranir sem bíða þín í þjónustu við fólk sem glímir við langvinn veikindi.

Námið veitir prófgráðuna meistarapróf í heilbrigðisvísindum með áherslu langvinn veikindi.

Er námið fyrir þig?

  • Viltu dýpka skilning þinn á langvinnum veikindum?
  • Viltu auka við sérþekkingu þína?
  • Hefur þú áhuga á rannsóknum?
  • Langar þig að auka víðsýni þína?

Áherslur námsins

Árún Kristín Sigurðardóttir, umsjónarmaður námskeiðis aðstoðar þig við að setja þér markmið innan námslínunnar og velja saman námskeið.

Skyldunámskeið námslínunnar eru fjögur, samtals 40 ECTS einingar. Meistaraverkefni er 60 einingar og byggist á rannsókn. Þú hefur svo val um námskeið upp að 20 ECTS einingum.

Athugið að flest námskeið eru kennd annað hvert ár og taka þarf tillit til þess við gerð námsáætlunar.

Þú getur skoðað skipulag námsins á Uglu, kennsluvef háskólans.

Fyrirkomulag námsins

Námið er skipulagt þannig að mögulegt er að stunda vinnu samhliða því. Nemendur vinna verkefni í stað prófa. 

Diplóma- og meistaranemendur eru hvattir til að mæta í allar lotur í námskeiðum. Til að standast lágmarkskröfur námskeiðs við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs HA þarf nemandi að mæta í að minnsta kosti tvær* af þremur lotum í hverju námskeiði sem hann er skráður í. 

Umsjónarkennara námskeiðs er frjálst að setja kröfu um mætingu í einhverja ákveðna lotu eða allar þrjár loturnar í námskeiði. Þessar kröfur geta verið mismunandi á milli námskeiða. Mæting miðar við að mæta á staðinn eða með samþykki umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs að mæta í gegnum Fjærveru eða Zoom. Ath. nemandi þarf að fá þjálfun hjá Kennslumiðstöð HA til að geta nýtt sér Fjærveru sem mætingu í námskeið. 

*Ef nemandi getur af heilsufarsástæðum ekki mætt í lotu verður viðkomandi að hafa samband fyrirfram við umsjónarkennara námskeiðs og skila vottorði til skrifstofustjóra heilbrigðisvísindasviðs, fari umsjónarkennari fram á það. Umsjónarkennari ákvarðar hvaða viðbótarverkefni nemandi þarf að gera í stað mætingarinnar til að standast lágmarkskröfur námskeiðs.

Þú getur tekið meistaranámskeið við Háskólann á Akureyri eða aðra háskóla, innanlands eða utan.

Möguleikar að námi loknu

Brautskráðir nemendur með meistaranám í heilbrigðisvísindum fara í stjórnunarstörf innan heilbrigðiskerfisins, starfa sjálfstætt eða eru í stöðum sérfræðinga.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur um meistara- og diplómanám þurfa að hafa lokið bakkalárgráðu á sviði heilbrigðisvísinda eða skyldra greina með fyrstu einkunn (7,25 eða hærra) frá viðurkenndum háskóla. Ef til aðgangstakmarkana kemur við innritun ganga þeir umsækjendur fyrir sem hafa nú þegar lokið viðbótardiplóma- eða meistaraprófi og/eða hafa 2 ára starfsreynslu úr heilbrigðis- eða velferðargeiranum. Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og starfsvottorð fylgi með umsókn.

Umsagnir

Meistaranámið efldi mig sem hjúkrunarfræðing og ég varð að leiðtoga innan minnar stofnunnar eftir námið. Það sem mér fannst best við meistaranámið var að þú gast sniðið námið að þínu áhugasviði innan hjúkrunar og kennarar komu til móts við þitt áhugasvið. Ég er einstaklega þakklát HA fyrir sveigjanleika og liðlegheit fyrir hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni

Birna Gestsdóttir
Deildarstjóri slysa og bráðamóttöku HSU