Í meistaranámi í lögfræði við Háskólann á Akureyri öðlast stúdentar trausta þekkingu á meginsviðum réttarkerfisins. Lögð er áhersla á að stúdentar fái yfirgripsmikla þekkingu á bæði íslenskum sem og alþjóðlegum rétti. Í náminu er notast við fjölbreyttar kennsluaðferðir og námskeið eru kennd bæði á íslensku og ensku.

Rík áhersla er lögð á að stúdentar dýpki þekkingu sína á ólíkum sviðum lögfræðinnar og fái þjálfun í að setja fram rökstuddar lögfræðilegar niðurstöður.

Er námið fyrir þig ?

  • Vilt þú starfa sem lögfræðingur?
  • Vilt þú kryfja málin til mergjar og færa rök fyrir máli þínu?
  • Vilt þú hafa áhrif á samfélagið?
  • Hefurðu áhuga á að starfa í alþjóðlegu umhverfi?
  • Hefur þú ríka réttlætiskennd?

Áherslur námsins

Í meistaranámi í lögfræði við Háskólann á Akureyri öðlast stúdentar trausta þekkingu á meginsviðum réttarkerfisins, bæði íslensks og alþjóðlegs réttar. Í náminu er lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir og námskeið eru kennd bæði á íslensku og ensku.

Rík áhersla er lögð á að stúdentar dýpki þekkingu sína á ólíkum sviðum lögfræðinnar og fái þjálfun í að setja fram rökstuddar lögfræðilegar niðurstöður.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Námið opnar dyr að fjölbreyttum starfstækifærum að loknu námi. Það veitir traustan grunn fyrir hefðbundin störf lögfræðinga, en meistaragráða í lögfræði er jafnframt nauðsynleg til að stunda starf dómara eða málflytjanda.

Lögfræðingar sem brautskrást frá Háskólanum á Akureyri starfa meðal annars sem lögmenn, fulltrúar hjá sýslumönnum, í stjórnsýslunni, hjá fyrirtækjum, í stjórnmálum og sem sérfræðingar hjá alþjóðastofnunum – svo eitthvað sé nefnt.

Þá veitir námið einnig aðgang að frekara framhaldsnámi á háskólastigi.

Inntökuskilyrði

Skilyrði fyrir inntöku í námið er að stúdent hafi lokið BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri eða sambærilegu prófi frá öðrum háskóla. Almennt er miðað við að stúdent sé með lokaeinkunn 7,0 að lágmarki í BA námsferli sínum (eða sambærilega einkunn í öðru einkunnakerfi).

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu. Þú hefur að ákveðnu leyti svigrúm til að skipuleggja þinn námstíma, en með því frelsi fylgir ábyrgð. Nám í lögfræði krefst aga í lestri og góðs undirbúnings.

Sveigjanlegt nám við Lagadeild HA felur í sér að almenn kennsla er óháð stað, en ekki stund. Flestir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef, svo þú getur horft á þá þegar þér hentar, eins oft og þú villt. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund!

Skyldumæting er í námslotur sem haldnar eru á Akureyri 2 sinnum á misseri. Í námslotunum gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Umsagnir

Nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri veitti mér góða færni og þekkingu á íslenskum rétti og ekki síður trausta og góða undirstöðu fyrir framhaldsnám mitt í London.

Hjördís Olga Guðbrandsdóttir
sérfræðingur hjá EFTA í Brussel

Lögfræðin við HA undirbjó mig afar vel fyrir þau störf sem ég hef starfað við síðan ég brautskráðist. Áhersla námsins á gagnrýna hugsun og leiðsögn kennara með afar fjölbreyttan bakgrunn gerði mér kleift að takast á við ýmis óvænt verkefni sem allir sem stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þurfa að takast á við.

Sindri Sólveigarson Kristjánsson
Skrifstofustjóri