Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er rannsóknarstofnun innan Háskólans á Akureyri sem starfar undir Hug- og félagsvísindasviði. Stofnunin hefur aðsetur í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi á háskólasvæðinu á Akureyri. Þar hefur myndast öflugt samfélag stofnana og fræðimanna sem vinna að norðurslóðamálum.

Hlutverk stofnunarinnar er að efla rannsóknir, miðlun og stefnumótun í málefnum sem tengjast norðurslóðum. Hún vinnur að alþjóðlegum samstarfsverkefnum og leggur áherslu á að veita fræðilegar upplýsingar og sérþekkingu um á sviði norðurslóðamála.

Stofnunin gegnir lykilhlutverki í því að styðja við stefnu stjórnvalda um að Akureyri sé miðstöð íslenskrar þekkingar og sérfræði um norðurslóðir, sem og alþjóðleg miðstöð um norðurslóðamál, sjá nánar hér.

Samruni við Háskólann á Akureyri

Samruni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri tók gildi 1. janúar 2025. Fram að þeim tíma heyrði stofnunin undir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Með samrunanum styrkir HA stöðu sína sem norðurslóðaháskóli og eykur sýnileika og samhæfingu í rannsóknum og verkefnum tengdum norðurslóðum.

Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hafa þegar átt í árangursríku samstarfi um kennslu og rannsóknir. Samruninn markar framhald á þeirri vegferð og opnar ný tækifæri til aukins samstarfs innanlands og á alþjóðavettvangi – meðal annars í gegnum verkefni á vegum Evrópusambandsins, Norðurskautsráðsins og Nordforsk.