Rannsóknatengt meistaranám á sviði líftækni og sjávarútvegsfræði dýpkar þekkingu þína og styrkir hæfni í vísindalegum vinnubrögðum. Þú öðlast færni til að leysa flókin verkefni á sviði auðlindanýtingar og sjálfbærni.

Hvernig nýtum við auðlindir sem best? Hvar liggja framtíðartækifærin? Hvernig stuðlum við að sjálfbærri nýtingu og tryggjum komandi kynslóðum heilbrigt vistkerfi?

Auðlindafræðin leitar að svörum við þessum lykilspurningum fyrir framtíðina.

Er námið fyrir þig?

  • Býrðu yfir sjálfstæði, frumkvæði og forvitni?
  • Hefur þú áhuga á sjálfbærri þróun?
  • Hefur þú þor til að fara nýjar og óþekktar leiðir?
  • Býrðu yfir getu til að skilja aðalatriði frá aukaatriðum?
  • Hefur þú áhuga á að þróa ný viðskiptatækifæri?

Áherslur námsins

Skipulag meistaranáms í auðlindafræðum mótast af áhugasviði þínu.

Námskráin er sveigjanleg og aðlöguð að þínum markmiðum og áherslum við val á rannsóknarverkefni, sem er meginþáttur námsins. Verkefnið er unnið undir handleiðslu sérfræðinga háskólans, auk utanaðkomandi sérfræðinga frá fyrirtækjum, háskólum eða rannsóknastofnunum. Ráðgefandi sérfræðingar tryggja, auk aðalleiðbeinanda, að verkefnið standist alþjóðlegar gæðakröfur.

Við hvetjum þig einnig til að taka hluta námsins við erlenda háskóla til að dýpka þekkingu þína enn frekar og efla tengslanet.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Námið veitir þér tækifæri til að starfa hjá áhugaverðum fyrirtækjum og sprotafyrirtækjum eða að stofna þitt eigið sprotafyrirtæki.

Rannsóknarverkefnið opnar leiðir inn í ýmis konar sérfræðistörf, svo sem rannsóknastörf hjá líftæknifyrirtækjum, sjávarútvegsfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, verkfræðistofum og við kennslu og rannsóknir í háskólum.

Meistaragráða opnar aðgang að doktorsnámi bæði við innlenda og erlenda háskóla.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að nemendur hafi lokið BS gráðu í náttúru- eða raunvísindum við viðurkennda háskóla.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Umsagnir

Ég mæli með líftækni fyrir nemendur sem gera kröfur og kjósa spennandi nám í frjóu umhverfi þar sem nálægð við kennara og aðra nemendur ríkir. Mikil áhersla er lögð á verklega vinnu sem gerir nemendur vel undirbúna fyrir fjölbreytt störf þegar á vinnumarkað er komið. Þverfagleiki námsins gerir það ekki síður heillandi fyrir þá sem eru í frumkvöðla- og nýsköpunarhugleiðingum.

Máney Sveinsdóttir
náttúrufræðingur á Veirufræðideild LSH

Í meistaranámi í líftækni við Háskólann á Akureyri er lögð höfuðáhersla á rannsóknir og sjálfstæða verklega vinnu nemenda. Sú þekking og víðtæka reynsla sem ég öðlaðist af vinnu á rannsóknarstofum í meistaranáminu mínu reyndist mér afar dýrmæt þegar út á vinnumarkað var komið. Framtíðarmöguleikar líftækninnar eru gríðarlega miklir og ég mæli hiklaust með náminu sem boðið er uppá í Háskólanum á Akureyri.

Jan Eric Jessen
sérfræðingur hjá Algalíf Iceland

The University of Akureyri provides a great setting to pursue a research-based graduate degree in topics relating to natural resource science. The academic staff has a strong motivation to push students towards working independently with a high degree of competence. My time at UNAK was an invaluable step in the continuation of my scientific career.

Sean Michael Scully
Aðjúnkt við Háskólann á Akureyri