
ÁVARP REKTORS, ÁSLAUGAR ÁSGEIRSDÓTTUR, Á VETRARBRAUTSKRÁNINGARHÁTÍÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 15. FEBRÚAR 2025
Kæru kandídatar, kennarar og aðrir gestir
Það er mér því mikill heiður að fá að segja nokkur orð á þessum degi sem setur punktinn við nám ykkar.
Frá því að þið hófuð nám, og þar til í dag, hafið þið lært, spáð, spekúlerað og lært meira. Á námsferlinum hafið þið einnig myndað samfélög bæði á netinu og hér á Akureyri. Þið hafið kynnst öðru námsfólki, eignast nýja vini og tengst kennurum og starfsfólki skólans. Þetta er mikilvægur hluti alls náms. Hvort sem þið eruð að brautskrást úr grunnnámi, meistaranámi eða með diplóma, verið stolt af því að hafa náð þeim áfanga að brautskrást.
Þetta er fyrsta brautskráningarræðan mín sem rektor Háskólans á Akureyri. Þegar ég settist niður til að skrifa hana, fór ég að hugsa um þær mörgu brautskráningarræður sem ég hef hlýtt á í gegnum nám og störf við háskóla í um 30 ár. Mér telst að þær séu líklega í kringum 50 eða svo. Hvað stendur þar upp úr? Já, þegar stórt er spurt… Þessar ræður hafa oft verið allt of langar, stundum alveg passlegar, en aldrei of stuttar.
Ég man líka að sumar voru afspyrnu skemmtilegar, aðrar hrútleiðinlegar, og sumar fengu mig til að hugsa hluti á nýjan hátt. Ég man hins vegar lítið eftir innihaldi þessara ræðna. Það sem ég þó man eru þær tilfinningar sem kviknuðu við að hlusta. Fannst mér tíma mínum vel varið? Hló ég eitthvað? Voru heilræðin, sem eru alltaf í svona ræðum góð? Beið ég eftir að ræðan hætti? Vitandi þetta, þá stend ég hér og held ræðu. Ég ætla ekki að tala allt of lengi, og það verður ekkert próf á eftir.
Það er sigur ykkar að klára nám. Þið getið verið stolt. Sumum reynist auðvelt að læra, mörg ykkar hafa lagt á ykkur ómælda og oft erfiða vinnu til að ná þessum áfanga. Og þið hafið eflaust flest einhvern tímann efast um hvort þið væruð á réttri hillu. Það er eðlilegt. En þið eruð að brautskrást og getið fagnað. Þið eruð búin að klára, alla vega í bili. Brautskráningin er líka sigur fjölskyldu og ástvina. Þau hafa stutt vegferð ykkar á einn eða annan hátt. Þeim ber að þakka.
Ég vil líka þakka starfsfólki HA fyrir að sinna því mikilvæga starfi að kenna ykkur. Þau hafa búið til námsskrár, skipulagt lotur, farið yfir ótal verkefni og próf. Þau hafa hvatt ykkur til dáða og stutt við vegferð ykkar með margvíslegum hætti. Í dag fær starfsfólk skólans sem skipulagði brautskráninguna sérstakar þakkir. Það þarf heilt samfélag að skipuleggja og halda úti námi og er brautskráning ykkar er líka samfélagslegur sigur okkar allra.
Þetta er í þriðja skipti sem Háskólinn á Akureyri brautskráir stúdenta í febrúar. Er brautskráningin í dag stærsta vetrarbrautskráning HA frá upphafi. Í dag brautskrást samtals 59 kandídatar. 33 eru að brautskrást úr grunnnámi og 26 úr framhaldsnámi. Kandídatar eru að brautskrást úr öllum deildum háskólans og á öllum námsstigum, nema úr doktorsnámi sem eru sjálfstæðir viðburðir. Þetta er því sannarlega fjölbreyttur hópur. Við erum ánægð með að sjá á meðal ykkar fyrsta brautskráningarhópinn í meistaranámi í stjórnun, og er Háskólinn í Reykjavík hér í fyrsta skipti í febrúar að brautskrá stúdenta úr tölvunarfræðináminu sínu hér hjá HA.
Ég vona að námið sem þið eruð að ljúka hjálpi ykkur að ná þeim markmiðum sem þið hafið sett. Ég hvet ykkur til að nýta þekkinguna til að hafa áhrif til umbóta á þeim vettvangi sem þið hafið valið ykkur, hvort sem hann tengist náminu eða ekki. Ef þið róið á önnur mið, þá er kannski ekki alltaf augljóst hvernig námið mun verða ykkur til framdráttar. Allt nám nýtist ykkur á einn eða annan hátt. Það er kannski ekki augljóst fyrst, en smátt og smátt sjáið þið að oft getur annað sjónarhorn verið gagnlegt. Ég vona að námslok þýði ekki að þið hættið að læra. Við lifum í heimi sem krefst stöðugt nýrrar þekkingar og ég vil hvetja ykkur til að halda áfram að bæta við ykkur. Frekara nám er kannski möguleiki, en þið getið líka fylgt forvitninni með lestri, hlustun, áhorfi og tekið einstaka námskeið. Möguleikarnir eru margir.
Háskólar eru þekkingarsamfélag og sem slíkir mikilvægur hluti samfélagsins. Þar er bætt við þekkingu með rannsóknum, og henni miðlað með kennslu, vísindagreinum og á samfélagsmiðlum. Þessi samtvinningur þekkingar og kennslu útskýrir til dæmis mikla nýsköpun sem gerist oft í nærumhverfi háskóla. Háskólinn á Akureyri er engin undantekning. Þrátt fyrir þetta virðast háskólar oft vera íhaldsamar stofnanir, þegar reyndin er að nýjar áskoranir leiða til stöðugrar þróunar innan þeirra. Hér innanhúss kvikna hugmyndir um nýjar námsbrautir til að þjóna Akureyri, Norðurlandi og Íslandi öllu betur.
Stúdentar þrýsta líka á breytingar. Til dæmis lögðu stúdentafélög HA vinnu í að skilgreina góðar námslotur, og er sú vinna þegar farin að skila árangri. Þrýstingurinn um breytingar kemur líka utan frá. Ný tækni ryður sér til rúms og krefst viðbragða. Einnig vilja margir betri tengingu við samfélagið í kringum háskólann. Háskólinn á Akureyri bregst við þessu og er því í stöðugri þróun til að ná markmiðum sínum betur. Það sem stendur hæst er að við erum að styrkja þekkingu innan háskólans á nýsköpun. Í þeirri vegferð viljum við tryggja öfluga tengingu við nýsköpunarumhverfið á Akureyri, sem fer vaxandi.
Næsta haust bætast við tvær nýjar meistaragráður í hjúkrun, önnur í heilsugæsluhjúkrun en hin snýst um hjúkrun hjartveikra og sykursjúkra. Mikið er rætt um öran vöxt öflugrar gervigreindar. Hún er þegar farin að einfalda mörg verk og mun gera það enn frekar í framtíðinni. Háskólinn á Akureyri stefnir að því að starfsfólk og stúdentar geti nýtt sér þessa tækni sér til framdráttar. Einnig viljum við að við kunnum að nálgast afleiðingar hennar á ábyrgan hátt.
Háskólinn á Akureyri er skilgreindur sem norðurslóðaháskóli hér á landi. Við erum að vinna í að efla sýnileika okkar í verkefnum tengdum norðurslóðum. Ein helsta rannsóknarstofnun Íslands á sviði norðurslóðarannsókna, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sameinaðist háskólanum 1. janúar síðastliðinn. Þetta var farsælt sameiningarferli og gefur okkur tækifæri til að byggja brýr innan og utan Háskólans í rannsóknum og kennslu.
Ég vona að þið eigið góðar minningar frá námi ykkar við Háskólann á Akureyri. Minningarnar eiga eflaust eftir að þróast í gegnum tíðina og áherslur að breytast. Ég efast ekki um að einhvern tímann eigið þið eftir að segja öðrum að þið hafið vaðið háa skafla í mótvindi til að ná að klára námið. Þetta er eðlileg þróun þegar við öll eldumst. Minningar fyrrum stúdenta Háskólans á Akureyri rata stundum til mín sem rektors. Eitt af því skemmtilegasta í starfi mínu er að rekast á fyrrum stúdenta háskólans og heyra hversu vel háskólinn hefur undirbúið þau fyrir störfin sem þau nú gegna. Þau segja mér frá krefjandi námi, uppáhalds kennurum, hjálplegu starfsfólki og góðum vinum sem þau kynntust í náminu.
Það er augljóst að námið og námsumhverfið hefur nýst til að ná árangri í lífi og störfum. Fyrrverandi stúdentar eru á þennan hátt staðfesting á því góða starfi sem hér er unnið. Ég vona að ég heyri slíkt frá einhverjum ykkar í framtíðinni. Við hér sem vinnum fyrir Háskólann á Akureyri erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til mennta ykkur.
Að lokum vil ég nefna eina nýjung í viðbót. Lagið sem verður spilað þegar við göngum út hér á eftir er valið af þeim sem eru að útskrifast í dag. Takk fyrir að taka þátt í þessu vali. Niðurstöðum kosninganna hefur verið haldið leyndum. Við verðum þannig öll hissa saman.
Við þökkum samfylgdina hingað til.
Gangi ykkur vel og hjartanlega til hamingju.