Ávarp rektors, Eyjólfs Guðmundssonar, á Háskólahátíð Háskólaseturs Vestfjarða, 17. júní 2023
Kæru kandídatar, starfsfólk Háskólaseturs, góðir Vestfirðingar og gestir lengra að komnir.
Þær eru margar áskoranirnar sem við, íslensk þjóð, stöndum frammi fyrir í dag. Það er ójafnvægi í efnahagsmálum, með tilheyrandi verðbólgu og vaxtahækkunum, nýir tímar í orðræðu og upplifunum birtast á samfélagsmiðlum þar sem oft er erfitt að greina á milli þess rétta og hins ranga. Erlendis frá fáum við harmafregnir af stríðum, óvissan vex vegna nýrrar tækni og við erum bara rétt nýstigin upp úr heimsfaraldri — faraldri af þeirri tegund hörmunga sem skellur á heimsbyggðinni einungis einu sinni á hverri öld.
Já — það er kannski bara ótrúlegt að við skulum yfirhöfuð hafa komist í gegnum síðustu ár!
En kæru kandídatar,
Þrátt fyrir þetta dökka ský er dagur eins og sá sem við höfum hér í dag — háskólahátíð — einmitt sérstaklega hátíðlegur. Við gefum okkur frí frá amstri daglegs lífs og fögnum árangri ykkar, voninni um betri og breyttan heim og lítum fram hjá óveðursskýjum en horfum til sólarinnar. Þið, ágætu kandídatar lýsið svo sannarlega upp daginn og gefið okkur öllum von um að það sé hægt að leysa verkefni heimsins þannig að horfi til betri vegar.
Ágætu gestir,
Samstarf HA og HsVest hefur gengið vel á þessu skólaári líkt og endranær. Við höldum áfram að vera í fararbroddi samstarfs meðal íslenskra háskólastofnanna og eigum það sameiginlegt að samband stúdenta og starfsfólks er með eindæmum gott. Það má kannski líkja því við lítið samfélag eða fjölskyldu þar sem allir stefna að sama markmiði.
Ágætu kandídatar,
Þið megið vera einstaklega stolt af ykkur í dag. Þið hafið hér náð árangri sem er ykkar eigin, á ykkar forsendum. Hvert og eitt ykkar er í raun einstök saga af þori, áræðni, vilja og erfiðisvinnu.
Kæru kandídatar, munið, að ef þið gangið alltaf á varaorkuna þá verður ekkert eftir þegar lífið kemur með nýjar áskoranir og ófyrirséðar breytingar.
Ágætu gestir,
Nú þegar kandídatar eru að ljúka sínu háskólanámi þá tekur við þeim heimur sem er á yfirsnúningi. Það endurspeglast í háu húsnæðisverði og vaxtastigi sem veldur enn frekara álagi, og sérstaklega á unga fólkið okkar. Orðræðan í samfélaginu endurómar harðar deilur á milli mismunandi hópa — jafnvel ásökunum um spillingu, og lýsingu á samfélaginu með orðum sem ekki hæfa hér í þessu ræðupúlti. Þetta er ekki rétta leiðin til að byggja upp gott samfélag. Maður heyrir oft í orðræðunni að við, fólkið í landinu, séum fórnarlömb ytri og innri afla sem leiki sér að okkur og að við fljótum bara með — að feigðarósi — og það eina sem við getum gert sé að öskra sem hæst á samfélagsmiðlum á meðan við berumst eftir straumnum!
En kæru kandídatar — er það svo? Erum við bara leiksoppar örlaganna og óþekktra afla sem ráðskast með líf okkar? Svarið við því er einfaldlega – Nei! Svarið er nei því að í lýðræðislegu samfélagi eins og við búum í geta allir tekið þátt. Sama hvort það er að taka þátt í félagsstarfi íþróttafélaga og skólakerfisins, að taka þátt í sveitastjórnarmálum eða stjórnmálum á landsvísu. Hvert og eitt okkar getur haft áhrif og í stað þess að brjóta á sér fingurna í endalausu hamri upphrópana á lyklaborð og snertiskjái samtímans þá er það skylda okkar að taka þátt og hafa áhrif – nema að sjálfsögðu að við séum sátt við núverandi ástand. En erum við það?
Öll þau samfélagslegu og hagfræðilegu kerfi sem við búum við eru mannanna verk. Öllum þessum kerfum er hægt að breyta með því að ígrunda vel orsakir og afleiðingar — en til þess að það takist þurfum við að deila sameiginlegum markmiðum og sýn á það hvað er gott samfélag.
Ágætu gestir,
Meginvandamál íslensks samfélags liggur kannski einmitt í því að við í raun erum að fjarlægjast hvert annað — hugmyndafræðilega og félagslega. Sjálfur er ég fæddur á suðvesturhorni landsins en hef nú búið stóran hluta ævi minnar fyrir norðan, dvalið hér fyrir vestan og búið í öðrum löndum. Það bil sem ég verð var við á milli landshorna breikkar stöðugt. Deilur um nýtingu auðlinda okkar, deilur um framkvæmdir og forgangsröðun, hugmyndir um hvernig samfélag við viljum hafa, deilur um hlutverk höfuðborgar gagnvart landsbyggðunum öllum og hvar og hvernig hið opinbera veitir þjónustu sína í síbreytilegum og tæknivæddari heimi. Allar þessar deilur eru að leiða af sér samfélag sundrungar en ekki sameiginlegra markmiða. Slíkt ástand mun einungis draga úr heildarkrafti íslensks samfélags og leiða til enn harðari deilna í framtíðinni. Samfélagið hér á Vestfjörðum er hinsvegar þekkt fyrir að geta tekist á við stór áföll og erfiðar aðstæður. Hér er einhver samfélagslegur kraftur sem ekki er auðfundinn annars staðar. Er möguleiki að þessi kraftur geti orðið útflutningsvara framtíðarinnar? Að þessi samheldni leiði til betri samfélaga þar sem fólk kemur til að búa — en vinnur svo alls konar vinnu í gegnum netið. Stærsti hluti starfa í framtíðinni verður óháður staðsetningu — Hvers vegna mun ungt fólk velja að búa á Vestfjörðum? Er svarið eins einfalt eins og: Hér er auðveldara að búa til gott samfélag?
Ágætu kandídatar,
Ég horfi til ykkar sem leiðtoga nýrrar og betri framtíðar fyrir heiminn allan. Þið komið alls staðar að úr heiminum. Þið hafið lært um „resilience“ Vestfjarða og orðið „resilient“ sjálf. Hér í ykkar námi hafið þið unnið saman sem ein heild — haldið því áfram þegar út í atvinnulífið kemur og takið þátt í að sameina íslenskt samfélag en ekki sundra því.
Ágætu kandídatar,
Eitt af því erfiðasta sem hvert og eitt ykkar stendur frammi fyrir er að velja hvað það verður sem þið látið hafa áhrif á ykkur og hvað þið látið sem vind um eyrun þjóta. Og þá er ég ekki bara að tala um áreiti upplýsinga og samfélagsmiðla heldur einnig samtöl og samskipti á vinnustað. Það er auðvelt að gleyma að rækta þau samskipti sem eru góð en gefa neikvæðum samskiptum alla athyglina. Ég hvet ykkur því til að setja skýr mörk í samskiptum við annað fólk og vera undir það búin að geta leitt hjá ykkur alla þá hælbíta og afturhaldsseggi sem munu reyna að stöðva ykkur í að koma á umbótum og breytingum í ykkar vinnuumhverfi. Heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr og þið þurfið að vera undir það búin að nýta ykkur þau tækifæri til góðs og ykkur til framdráttar en ekki taka þátt í að einangra ykkur frá tækni og öðrum breytingum. Gervigreindin verður fimmta iðnbyltingin — sú fjórða er um það bil að líða undir lok. Þið verðið í forystu atvinnulífs og stofnana sem munu innleiða gervigreind. Til þess þarf bæði visku og hugrekki, en ekki síst siðferðilegan áttavita til að skilja hvað er rétt og hvað er rangt við innleiðingu þessarar nýju tækni. Þá mun koma sér vel að geta verið í góðu og faglegu samtali við annað fólk en ekki taka upp þann ósið sem nú hefur rutt sér til rúms að nota sem mest gífuryrði og úthúða öllu og öllum til að reyna að fá athygli fyrir eigin málstað.
Munið að það glymur hæst í tómri tunnu.
Kæru gestir,
Í upphafi talaði ég um að það væru margar áskoranir fyrirliggjandi í okkar heimi í dag. Það gleður mig mjög að sjá þennan öfluga hóp kandídata sem nú brautskráist frá HSVest því að ég er viss um að þeim mun ganga betur en okkur hefur tekist að byggja upp gott og réttlátt samfélag sem byggir á þekkingu, visku, verkvilja og ábyrgð í víðum skilningi.
Kæru kandídatar og góðir gestir,
Skólaárið 2022 til 2023 hefur verið gott ár, bæði fyrir HsVest og HA. Áralangt samstarf hefur skilað okkur góðu námi og öflugum rannsóknum ásamt því að búa til hundruð sendiherra Vestfjarða um allan heim. Það mun skila sér í nánustu framtíð.
En nú er orðið tímabært að huga að framtíðinni. Hvernig geta HA og HsVest unnið enn frekar saman til að efla samfélög okkar enn betur. Í gær var haldið mjög skemmtilegt málþing sem fór yfir 25 ára sögu fjarnáms HA hér á Ísafirði. Þar kom meðal annars fram að í upphafi heimsótti hópur fólks UHI til að læra um starfsemi þeirrar stofnunar. Samstarf HA og HsVest er að nokkru leyti byggt á þeirri hugmyndafræði en samstarfið hefur í raun ekki þróast að fullu í þá átt.
Í erindi mínu á þinginu lagði ég til að við heimsæktum aftur þessa hugmynd og skoðuðum af fullri alvöru að stofna sameiginlega Háskóla Norðursins – The Arctic University of Iceland. Slíkur háskóli yrði fjölstaða og teygði sig frá Vestfjörðum yfir til Austfjarða, að sjálfsögðu með Skagafjörðinn með í því samstarfi. Hérna gæti verið um samstarfsnet að ræða sem yrði samstarf ólíkra stofnanna sem þó eiga það sameiginlegt að þjóna samfélögum sem eru í stöðugri baráttu um að fá til sín þjónustu, fólk og að efla atvinnulíf.
Mjög hraðar breytingar í heiminum eru að opna alveg ný tækifæri fyrir samfélög eins og okkar, lítil en skilvirk, samheldin en samt fjölbreytt — samfélög sem byggja á sterku sambandi við náttúruna. Yrðum við ekki öflugri sem ein sameiginleg rödd í risastóru samfélagi samfélagsmiðla og kaótísks heims á yfirsnúningi?
Ágætu kandídatar,
Þið hafið nú lokið meistaragráðu og eruð nú sannir sérfræðingar á ykkar sviðum. Námi lýkur hins vegar aldrei og við lærum ætíð svo lengi sem við lifum.
Ein af virtustu vísindakonum fyrr og síðar, Marie-Curie, sagði eitt sinn:
„Við eigum ekki að óttast neitt í lífinu – aðeins reyna að skilja hið óþekkta.“ En hún sagði jafnframt að leiðin að betri heimi væri hvorki hröð né einföld. Þið, kæru kandídatar, hafið nú þegar sýnt að í ykkur búa kraftur og vinnusemi til að takast á við óvæntar aðstæður — og þið komust í gegnum þann skafl. Berið þá reynslu með ykkur í gegnum lífið og munið að árangur kostar alltaf erfiði.
Eleanor Roosevelt, maki Roosevelt forseta Bandaríkjanna og líklega sú fyrsta sem nýtti sér það hlutverk til að ná fram bættu samfélagi, sagði: „Framtíðin tilheyrir þeim sem trúa á fegurð drauma sinna.“ Kæru kandídatar — leyfið ykkur og látið ykkur dreyma — og trúið á þá drauma.
Shirley Anita Chishom, fyrst kvenna af afrískum uppruna kosin á þing í Bandaríkjunum, sagði: „Þið náið ekki árangri með því að vera á hliðarlínunni, kvartandi og kveinandi. Þið náið árangri með því að koma hugmyndum í framkvæmd!“
Munið að þið eruð alltaf hluti af samfélagi sem þið berið ábyrgð á að þróist með sanngjörnum og réttum hætti þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að skapa sér og sínum betra líf. Takið afstöðu til mála og nýtið kosningarétt ykkar á öllum tímum.
Kæru gestir,
Nú hér á þessum stað, á þjóðhátíðardegi okkar, er gott að horfa til þeirrar bjartsýni sem Jón Sigurðsson hafði fyrir hönd okkar allra og trúði á öflugt og gott samfélag. Það hefur svo sannarlega ræst en til þess að við getum orðið enn öflugri í flóknum heimi þá skulum við vinna enn betur saman að enn bjartari framtíð — og góðu samfélagi.
„Farið þangað sem hjartað segir ykkur að fara en notið hyggjuvitið við að komast á þann áfangastað! - Go where ever you heart tells you to go but always use your common sense and knowledge to get there!“