Ávarp aðstoðarrektors, Elínar Díönnu Gunnarsdóttur, á Vetrarbrautskráningarathöfn Háskólans á Akureyri, 17. febrúar 2024:
Kæru kandídatar, háskólafólk og aðrir góðir gestir.
Það er mér mikill heiður að taka þátt í þessum degi með ykkur og fagna svo merkum áfanga í lífi ykkar.
Í dag brautskrást 56 kandídatar frá tveimur fræðasviðum og í október síðastliðnum brautskráðust 36 kandídatar. Við erum því hér í dag til að fagna þessum merka áfanga með hátt í 100 kandídötum. Þetta er í annað skipti sem Háskólinn á Akureyri heldur vetrarbrautskráningarathöfn fyrir kandídata sem ljúka námi í október og febrúar og það er afar ánægjulegt að þið, kæru kandídatar, hafið séð ykkur fært að fagna með okkur í dag. Þetta er mikil gleðistund fyrir okkur öll, kandídata, fjölskyldur ykkar og vini, Góðvini og starfsfólk HA.
Frá því að Háskólinn á Akureyri var stofnaður hefur hann vaxið hratt. Námsframboð hefur aukist og stúdentum og starfsfólki hefur fjölgað. Hlutfallsleg fjölgun umsókna var t.d. hvað mest í Háskólanum á Akureyri fyrir yfirstandandi skólaár. Til gamans má geta að stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að hér ríki persónulegt og sterkt námssamfélag. Ég vona að það sé einmitt ykkar upplifun af háskólagöngu ykkar hér. Samfélagið og sú umgjörð sem það skapar breytist hratt og í dag er staðreyndin sú að stúdentar halda ansi mörgum boltum á lofti með fjölbreyttar áskoranir og áreiti úr öllum áttum. Við getum því með sanni sagt að í dag fögnum við þessum MERKA áfanga í lífi ykkar og gleðjumst yfir afrekum undanfarinna missera, jafnt stórum sem smáum, því sannarlega er vera ykkar hér í dag byggð á mörgum sigrum.
Þegar ég var að hugsa um hvað ég vildi segja við ykkur í dag velti ég mikið fyrir mér hvað, auk góðrar menntunar, það færði okkur að stunda háskólanám.
Að stunda háskólanám getur nefnilega gefið okkur svo ótal margt. Það er kannski augljósast að með háskólanámi öðlumst við nýja þekkingu, færni og leikni á einhverju fagsviði sem við höfum ástríðu fyrir, eða í það minnsta höfum áhuga á. En veruleikinn er sá að við fáum tækifæri til svo margs annars á þessum tíma sem við erum í háskóla. Þegar ég hóf sjálf háskólanám fyrir um 35 árum síðan var háskólaumhverfið allt annað. Tölvueign var afar takmörkuð og internetið ekki til í hugum okkar flestra, hvað þá tölvupóstar eða samfélagsmiðlar. Það hljómar kannski eins og ég sé alveg við það að fara að dásama einhvern gamlan tíma í nostalgíukasti. En ég sver, það er ekki ætlunin. Á þessum tíma var tiltölulega auðvelt að skapa og viðhalda ákveðnu háskólasamfélagi þar sem allir stúdentar mættu í tíma á staðnum í rauntíma, áttu samtal, eða hlustuðu á áhugaverða fyrirlestra frá kennurum, enda fáir aðrir möguleikar til að fá rýni og samantekt á flóknu efni, ólíkt því sem á við í dag. Umhverfið gerði okkur auðveldara að kynnast, taka þátt og eiga samfélag með minna áreiti en þekkist í dag. Við sem tilheyrum háskólasamfélaginu í dag, bæði starfsfólk og stúdentar, ræðum oft þennan veruleika og þær áskoranir sem felast í því að viðhalda og næra það samfélag sem við myndum í sameiningu innan háskóla. Að við gefum okkur tíma til að kynnast, hlusta, ræða saman og rýna málin til gagns frá ólíkum sjónarhornum. Að við getum tekist á á uppbyggilegan hátt okkur öllum og samfélagi okkar til góða, án þess að festast í litlum búblum og skapa okkar eigin litlu bergmálshella. En af hverju skiptir þetta máli almennt? Þetta skiptir máli af því að við erum hluti af samfélagi og berum þá miklu ábyrgð að vera rödd í því samfélagi. Hvort sem það er háskólasamfélag, bæjarsamfélag, íslenskt samfélag í heild sinni, alþjóðasamfélagið eða bara hvaða samfélag sem við erum hluti af. Þá erum við ábyrg fyrir því samfélagi ásamt öllum hinum sem mynda það með okkur. Öll samfélög ganga í gegnum breytingar og flest þeirra stanslausar breytingar, misstórar þó. Ef við hugsum um undanfarin misseri, daginn í dag og nánustu framtíð, þá eru sannarlega stór og mikilvæg málefni sem við sem samfélag þurfum að takast á við. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá finnst mér við ekkert alltaf vera til mikillar fyrirmyndar í því hvernig við nálgumst hvert annað og ræðum saman. Afmennskun og skautun í samfélaginu og umræðunni er eitthvað sem við höfum öll séð og bergmálshellarnir eru ríkjandi víða. Sem er svo langt frá því að vera til þess fallandi að leiða af sér farsæla þróun.
En þá kem ég aftur að ykkur, kæru kandídatar. Hvað hafið þið lært af veru ykkar hér við háskólann sem gerir ykkur færari í að vera raunverulegt afl sem getur breytt þessu mynstri? Mig langar að nefna nokkra þætti sem ég tel að eigi við um ykkur. Þið hafið tekið þátt í háskólasamfélagi sem byggir á fjölbreyttum aðferðum til náms og samskipta. Þið hafið fengið tækifæri til að hitta fólk í rauntíma og á staðnum þar sem þið hafið getað myndað tengsl og unnið með fólki að lausn verkefna. Þið hafið líka öðlast æfingu í að eiga í samskiptum við fólk uppi í skýjunum þar sem þið sjáið það stundum í rauntíma en stundum ekki og hafið þannig átt samtöl, rökræður og fundið lausnir við vandamálum með fólki sem þið sjáið ekki á skjánum beint fyrir framan ykkur. Þið hafið hlotið tækifæri til að öðlast færni í að eiga „góð“ samskipti við fólk í því fjölbreytilega umhverfi sem nútímasamfélag býður okkur upp á. Þar sem þið getið rýnt til gagns og leyst vandamál en fallið ekki í gildrur tvískautunar og upphrópana sem eiga það til að einkenna samskipti okkar í skýjunum.
Þið brautskráist því héðan í dag - ekki eingöngu með ýtarlega þekkingu og þjálfun á ykkar fagsviði, sem mun verða ykkur og samfélaginu til góðs, hvort sem þið farið beint út á vinnumarkaðinn, eða stefnið í áframhaldandi nám. Þið farið líka héðan með þekkingu og færni í því að taka þátt í uppbyggilegu samtali, að raunverulega hlusta á rödd annarra, að færa rök fyrir máli ykkar, og að byggja röksemdafærslu á gögnum og vísindalegri þekkingu. Og þetta, kæru kandídatar, gerir ykkur ómetanlega þátttakendur í nútímasamfélagi. Öll þau stóru málefni sem brenna á okkur sem samfélag, hafa ekki farið fram hjá neinu okkar, og í dag langar mig að hvetja ykkur til þess að nota rödd ykkar og mennsku, nota þekkingu ykkar og hæfni til að vera þátttakendur í samtalinu og raunverulegt afl til breytinga.
Kæru kandídatar, takk fyrir að velja Háskólann á Akureyri. Okkar dyr standa ykkur áfram opnar, hvort sem það er til þess að stunda áframhaldandi nám, prófa eitthvað alveg nýtt, taka þátt í viðburðum eða störfum Góðvina. En sama hvert lífið leiðir ykkur hafið þið nú lokið gæðanámi og ég vona að þið finnið fyrir stolti yfir þessum árangri ykkar.
Kæru kandídatar, enn og aftur, til hamingju með áfangann.