Þetta nám er fyrir þau sem vilja sérhæfa sig í hjúkrun sjúklinga með hjartasjúkdóma eða sykursýki. Áhersla er á klínískt nám og skiptist það í tvær námslínur:

  • Hjúkrun einstaklinga með hjartasjúkdóma
  • Hjúkrun einstaklinga með sykursýki

Námið byggir á hæfniviðmiðum Evrópska hjartahjúkrunarfélagsins og viðmiðum Alþjóðasykursýkissambandsins um menntun heilbrigðisstétta.

Námið veitir prófgráðuna meistarapróf í hjúkrun sjúklinga með hjartasjúkdóma eða meistarapróf í hjúkrun sjúklinga með sykursýki. Meistaraprófið veitir möguleika á doktorsnámi. 

Er námið fyrir þig?

  • Ert þú hjúkrunarfræðingur?
  • Hefur þú áhuga á hjúkrun einstaklinga með hjartasjúkdóma eða sykursýki?
  • Viltu auka sérfræðiþekkingu þína?
  • Viltu styrkja hæfni og fagmennsku þína?
  • Hefur þú áhuga á rannsóknum?

Áherslur námsins

Markmið námsins er að þú öðlist sérfræðiþekkingu í hjúkrun sjúklinga með hjartasjúkdóma eða sykursýki. Meistaranámið miðar að því að veita þér þekkingu, leikni og hæfni til að sinna sérhæfðri hjúkrun á þínu sérsviði.

Að námi loknu verður þú fær um að veita sérhæfða hjúkrunarmeðferð á öllum þjónustustigum, allt frá forvörnum til líknandi meðferðar. Sérstök áhersla er lögð á sjálfstæði í starfi, dýpkun þekkingar og aukna klíníska færni. Jafnframt er markmiðið að efla fagmennsku og rannsóknarfærni, styrkja hæfni til að leiða meðferð í nýjum þjónustuformum og þverfaglegum teymum, auk þess sem notkun fjarheilbrigðisþjónustu er hluti af náminu.

Fyrirkomulag námsins

Þetta meistaranám er fyrir hjúkrunarfræðinga. Námið er lotubundið og sveigjanlegt, og þú velur sérhæfingu í annaðhvort hjúkrun einstaklinga með sykursýki eða hjartasjúkdóma og skyldum undirgreinum.

Skyldunámskeið námslínunnar eru kennd við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Valnámskeið eru í boði bæði hérlendis og erlendis, og klínískt nám fer fram á sjúkrahúsum og heilsugæslum innanlands og utan. Meistaraverkefnið er 30 ECTS einingar og valeiningar eru 10–15.

Skipulag námsins má skoða á Uglu, kennsluvef Háskólans á Akureyri:

Möguleikar að námi loknu

Starfsmöguleikar eru fjölmargir, til dæmis á sjúkrahúsum, heilsugæslum, og öðrum heilbrigðisstofnunum, við kennslu í háskólum eða sjálfstætt starfandi. Atvinnuhorfur útskrifaðra eru góðar.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Þú þarft að hafa lokið hjúkrunarfræðinámi með að lágmarki 7,0 í einkunn frá viðurkenndri menntastofnun og hafa gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis.

Að hámarki verða átta nemendur teknir inn í hvora námslínu annað hvert ár. Ef umsækjendur eru fleiri en fjöldatakmörk leyfa, ganga þeir fyrir sem hafa þegar lokið viðbótardiplóma- eða meistaraprófi og/eða hafa að minnsta kosti tveggja ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur.

Mikilvægt er að öll umbeðin gögn fylgi umsókn, svo sem staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og starfsvottorð.

Umsagnir

Vaxandi þörf er fyrir sérhæfða hjúkrunarfræðinga í hjúkrun hjartasjúklinga og hjúkrun einstaklinga með sykursýki vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og hækkandi algengi þessara sjúkdóma. Hjúkrunarfræðingar eru í lykilstöðu til að efla sjálfsumönnun fólks og rannsóknir benda til þess að sérhæfing innan hjúkrunar geti bætt útkomu sjúklinga, aukið öryggi þeirra og dregið úr endurinnlögnum.

Margrét Hrönn Svavarsdóttir
Prófessor í hjúkrunarfræði

Sérhæft meistaranám fyrir hjúkrunarfræðinga sem sinna fólki með  hjartasjúkdóma og sykursýki hefur ekki verið í boði áður á Íslandi. Um er að ræða lotubundið sveigjanlegt nám sem veitir hjúkrunarfræðingum á öllu landinu tækifæri til að sækja það og getur þannig stuðlað að fjölgun sérfræðinga í hjúkrun um allt land. Áhersla verður á herminám og klínísk þjálfun verður meiri og sérhæfðari en áður hefur staðið til boða í meistaranámi fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa á þessum sérsviðum.

Árún Kristín Sigurðardóttir
Prófessor í hjúkrunarfræði