Skipulag náms fyrir nýnema
Inngangur að fjölmiðlafræði
Í námskeiðinu er farið almennt yfir sögu fjölmiðlunar, allt frá dögum prentvélar Gútenbergs til samfélagsmiðla samtímans. Fjallað er um hvaða hlutverki hinir mismunandi fjölmiðlar gegna í samfélaginu en einnig eru helstu kenningar fjölmiðlafræðinnar kynntar stuttlega með tilliti til þeirra áhrifa sem fjölmiðlar hafa og notkunar fólks á þeim. Sérstök áhersla er lögð á miðlalæsi.
Inngangur að félagsvísindum
Farið er yfir sögu félagsvísinda og helstu viðfangsefnum þeirra lýst í hnotskurn. Lögð verður áhersla á helstu kenningar sem liggja félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði til grundvallar og viðurkenndar aðferðir við öflun þekkingar innan þeirra greina. Sérstaklega verður fjallað um samband einstaklings og samfélags, eðli samfélagsreglu og orsakir átaka og breytinga.
Vinnulag í hug- og félagsvísindum
Námskeiðið leggur grunn að háskólanámi með því að þjálfa nemendur í fræðilegum vinnubrögðum. Í námskeiðinu er farið ítarlega í notkun heimilda, s.s. rafræna heimildaleit, tilvísun í heimildir og heimildaskráningu. Áhersla er lögð á ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Nemendur eru þjálfaðir í skrifum, gagnrýni, rökstuðningi, uppsetningu og frágangi ritgerða.
Rannsóknaraðferðir í hug- og félagsvísindum
Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði í aðferðafræði hug- og félagsvísinda. Að loknu námskeiði ættu nemendur að geta gert grein fyrir helstu rannsóknaraðferðum. Fjallað er um rannsóknarsnið, gagnaöflunaraðferðir, úrtök og önnur hugtök aðferðafræðinnar. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir mismunandi aðferða í hug- og félagsvísindum með hliðsjón af ólíkum markmiðum rannsókna. Hluti kennslunnar fer þannig fram að gestakennarar kynna rannsóknir sínar fyrir nemendum, með áherslu á aðferðafræðiþáttinn.
Iðnbylting og hnattvæðing
Fjallað er um þær efnislegu umbreytingar sem urðu á Vesturlöndum, einkum frá 18. öld og fram til okkar daga. Hugað verður sérstaklega að nokkrum lykilbreytingum, þar á meðal að iðnvæðingunni, upphafi og endalokum nýlendukerfisins, og hnattvæðingunni, jafnframt því sem innbyrðis tengsl þessara þróunarferla verða skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem áttu sér stað á Íslandi á 19. og 20. öld og tengsl þeirra við samskonar breytingar á öðrum stöðum í heiminum.
Tölfræðileg greining
Námskeiðið er inngangsámskeið í tölfræði, ætlað sem undirbúningur fyrir frekara nám í tölfræði og aðferðafræði rannsókna. Efnistök spanna undirstöðuatriði frá Fjallað er um þær efnislegu umbreytingar sem urðu á Vesturlöndum, einkum frá 18. öld og fram til okkar daga. Hugað verður sérstaklega að nokkrum lykilbreytingum, þar á meðal að iðnvæðingunni, upphafi og endalokum nýlendukerfisins, og hnattvæðingunni, jafnframt því sem innbyrðis tengsl þessara þróunarferla verða skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem áttu sér stað á Íslandi á 19. og 20. öld og tengsl þeirra við samskonar breytingar á öðrum stöðum í heiminum.
Stjórnmálafræðileg greining
Fjallað er um sögu, rannsóknarsvið og aðferðafræði stjórnmálafræðinnar. Áhersla er lögð á vinnubrögð samanburðarstjórnmálafræðinnar og sérstakt mið tekið af Íslandi og Norðurlöndunum. Nemendur kynna sér sérstaklega stjórnkerfi, stefnur eða flokka og skila inn verkefnum þar sem greining á þessu fer fram.
Áhrif fjölmiðla og samfélagsmiðla
Í námskeiðinu er farið í allar helstu kenningar um áhrif fjölmiðla. Sjónum er t.d. beint að notkun fólks á afþreyingarefni, og rýnt er í hvaða áhrif ofbeldisefni hefur, hvort sem er í kvikmyndum eða tölvuleikjum.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir
Viðfangsefni þessa námskeiðs er eigindlegar rannsóknaraðferðir innan mannvísinda með áherslu á félagsvísindagreinar. Nemendur kynnast sögu, markmiðum og kenningarlegum forsendum eigindlegra rannsóknaraðferða og öðlast þekkingu á ýmsum vandamálum og álitamálum sem þeim tengjast. Nemendur læra til verka m.t.t. etnógrafískrar þátttökuathuganar, vettvangslýsingar, ólíkra viðtalsaðferða, rýnihópsaðferðar, sjálfskoðunar, samvinnurannsókna, aðgerðamiðaðra nytjarannsókna, tákn-, orðræðu- og hugtakagreiningar, minnis-, sagnaritunar og frásagnagreiningar, og eigindlegra samanburðarrannsókna.
Hugmyndafræði og saga nútímans
Fjallað er um (a) mikilvægustu atburði 20. og 21. aldar, sérstaklega í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku; (b) þær grundvallarkenningar og stefnur í samfélags- og stjórnmálum sem komu fram í þessum atburðum; (c) helstu þætti í efnahagsþróun 20. og 21. aldar; (d) valda fulltrúa aldanna meðal þeirra einstaklinga og hópa sem þar gegndu mikilvægu hlutverki; (e) grundvallarspurningar um gildismat sem atburðir aldanna vekja; og (f) ímyndagerð og áhrif hennar. Lesefni og kvikmyndir eru notaðar til að draga fram mikilvæg þáttaskil og einkenni tímabilsins. Námsefninu er ætlað að varpa ljósi á flókna atburði og draga af þeim ýmsa lærdóma.
Gagnrýnin hugsun
Í námskeiðinu þjálfast nemendur í að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar, einkum úr fjölmiðlum og almennri umræðu. Fjallað er um grunnhugtök rökfræði og muninn á góðum rökum annars vegar og mælskubrögðum og rökvillum hins vegar. Nemendur fræðast um sálræna og félagslega þætti sem hafa áhrif á dómgreind og mat á upplýsingum. Sérstaklega er hugað að tölulegum upplýsingum; tilurð þeirra, notkun og og gildi.
Saga fjölmiðlunar
Í námskeiðinu er rakin og greind saga fjölmiðla. Sérstök áhersla er lögð á þróun prentmiðla og félagsleg áhrif þeirrar þróunar. Í námskeiðinu er ennfremur rætt um frelsi fjölmiðla og þýðingu þess hugtaks.
Texti og ljósmyndun
Í námskeiðinu er farið í grunnatriði blaðamennsku, m.a. hvernig eigi að skrifa fréttir og taka viðtöl. Áhersla verður einnig á ljósmyndun og notkun ljósmynda í fjölmiðlum. Stór hluti námskeiðsins felst í því að vinna við útgáfu blaðs sem gefið er út á almennum markaði. Nemendur koma að og undirbúa alla þætti útgáfunnar, hugmyndavinnu, skrif, útlit, umbrot og prentun.
Blaðamennska og lýðræði
Innlendir og erlendir fjölmiðlar verða krufnir, bornir saman, gagnrýndir og metnir. Sérstök athygli beinist að því að greina og skilja innbyggða hlutdrægni eða afstöðu í fréttum út frá eðli fréttamiðlanna sjálfra. Skoðaðir eru mismunandi þættir, s.s. persónubinding, kröfur um leikrænt eðli frásagna og tenging við stjórnvöld. Jafnframt er skoðuð siðferðileg ábyrgð, hlutleysi, skýrleiki, áreiðanleiki, gegnsæi, heimildafesti, efnisval, framsetning, málnotkun og stíll. Nemendur vinna verkefni úr daglegu fréttaumhverfi fyrir Landpóstinn, vefrit fjölmiðlafræðinema (www.landpostur.is). Farið er yfir notkun íslensku í fjölmiðlum og áhersla lögð á talað jafnt sem ritað mál.
Einstaklingur og samfélag
Fjallað verður um helstu kenningar félagsfræðinnar um tengsl einstaklings og samfélags og rannsóknir byggðar á þeim. Áhersla verður lögð á kenningar um táknræn samskipti, tengslin milli daglegs lífs einstaklinga og formgerðar samfélagsins og samskipti í litlum hópum. Nemendur fá jafnframt þjálfun í því að kryfja félagsfræðilegar tímaritsgreinar og taka þátt í umræðum um innihald þeirra.
Fjölmiðlar nær og fjær
Nærfjölmiðlun og fjölmiðlun utan hins hefðbundna meginstraums verður skilgreind og skoðuð, m.a. borgaralega blaðmennska. Farið verður yfir ólík efnistök fjölmiðla eftir því hvort um hefðbundna eða óhefðbundna fjölmiðlun er að ræða, um staðbundna fjölmiðlun eða fjölmiðla á landsvísu eða hnattræna vísu. Námskeiðið kannar samfélagslegar tengingar slíkra miðla, styrkleika þeirra og veikleika. Sérstaklega er hugað að áhrifum breyttrar tækni á skilning og eðli miðlunar nær og fjær.
Kenningar í fjölmiðlafræði
Fjallað er um kenningar um fjölmiðla og boðskipti með vísan til fjölmiðlasögu. Kynntar verða klassískar kenningar nokkurra af helstu fræðimönnum á svið fjölmiðla, svo sem Jürgens Habermas, Michels Foucault, Marshals McLuhan, Theodors Adorno og Walters Benjamin.
Bundið val
Nemendur velji námskeið af áherslusviðum í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Nýmiðlun: Internet og samfélagsmiðlar
Í námskeiðinu er fjallað um þá grundvallarbreytingu sem felst í gagnvirkum stafrænum samskiptum, einstaklingsmiðuðu upplýsingaflæði og uppskiptingu almannarýmisins. Samfélagsmiðlar eru skoðaðir sérstaklega, eðli þeirra og notkun og þau áhrif sem boðskipti á þessum vettvangi hafa á samfélagið, stofnanir þess og einstaklinga. Jafnframt er samspil samfélagsmiðla og hefðbundinna miðla skoðað sérstaklega. Nemendur fá innsýn inn í tæknilegar hliðar og sérkenni mismunandi miðla auk þess sem áhersla er lögð á fræðilegar kenningar um netboðmiðlun og samfélagsleg áhrif niðurbrots almannarýmisins bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi.
Ljósvakamiðlun
Farið er yfir helstu einkenni ljósvakamiðla og sérstaða þeirra í heimi fjölmiðla skoðuð. Stór hluti námskeiðsins felst í því að vinna við útsendingar og söfnun efnis fyrir raunverulega útvarps/sjónvarpsstöð, sem sendir út á meðan námskeiðið stendur yfir.
Alþjóðastjórnmál/Alþjóðasamskipti
Fjallað er um grundvallareinkenni alþjóðasamfélagsins, stöðu þjóðríkja innan þess og áhrif fjölþjóðlegra stofnana, samtaka og fyrirtækja. Kynntar eru ólíkar kenningar og stefnur um alþjóðasamskipti og þær skoðaðar í ljósi sögulegrar reynslu af samskiptum ríkja. Sérstaklega er fjallað um samrunaþróunina í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld og hvernig Evrópusamruninn hefur mótað alþjóðasamskipti almennt og einnig tengsl Íslands við umheiminn. Þá er sjónum jafnframt beint að öðrum fjölþjóðlegum stofnunum og samtökum, bæði þeim sem byggja á milliríkjasamstarfi á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, NATO annars vegar og svo frjálsum félagasamtökum og hlutverki þeirra í alþjóðakerfinu og þróunaraðstoð hins vegar.
Málstofa í nútímafræði II
Í málstofunni er kafað ofan í valið viðfangsefni, eða röð skyldra viðfangsefna, sem varpa ljósi á þá hugmyndafræði, samfélagsgerð og lífshætti sem við kennum við nútímann, þ.e. tímabilið frá 18. öld og til samtímans. Kennslan er með málstofusniði sem krefst virkar þátttöku nemenda. Yfirskrift og efnisþættir eru ákveðnir á vori hverju fyrir komandi kennsluár og birtir í kennsluskrá.
Mannfræðileg greining
Fjallað verður um sögu, aðferðafræði, kenningar og helstu viðfangsefni mannfræðinnar, með áherslu á menningarmannfræði. Nemendur munu lesa og kryfja fræðilegt efni á flestum sviðum menningarmannfræði og taka þátt í umræðum um rannsóknir á ólíkum en samþáttuðum menningarheimum samtímans og fortíðar. Jafnframt verða etnógrafískar fræðslumyndir sýndar, ræddar og greindar. Á meðal viðfangsefna verða aðlögun og atvinnuhættir; menning, samfélag og tungumál; menningararfur og menningarerfðir; hagkerfi og dreifingarhættir; stjórnskipan og lagskipting; hnattvæðing; framleiðsluhættir, hugmyndafræði og afstæður þjóðernis og stéttar; kynhlutverk og kyngervi; sifjar, fjölskyldumyndir, heimilishættir, skyldleiki og ættrakning; trúarbrögð, heimsmynd, og táknfræði; og þróunarmálefni og nytjamannfræði.
Kynjafræði
Fjallað er um stöðu kynjanna og viðhorf til þeirra frá félagsfræðilegu sjónarhorni. Kynnt verða helstu viðfangsefni kynjafræðinnar um leið og tvö grunnhugtök, kyn (sex) og kyngervi (gender), verða krufin. Fjallað verður um helstu kenningar á sviði kynjafræðinnar og lögð sérstök áhersla á að skoða hvernig ójöfnuður kynjanna birtist innan helstu stofnanna samfélagsins (svo sem fjölmiðla, vinnumarkaðar, fjölskyldu, og heilbrigðiskerfis). Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að skoða samtvinnun kyns og annarra áhrifabreyta svo sem kynþáttar, stéttarstöðu, kynhneigðar, og þjóðernis fólks.
Íslenskir fjölmiðlar I
Farið er yfir sögu íslenskrar fjölmiðlunar frá upphafi til samtímans. Skoðuð eru helstu tímabilin og einkenni þeirra dregin fram, s.s. tími pólitískra vikublaða, flokksblaða, ljósvakabyltingin o.s.frv. Farið er yfir helstu fjölmiðla hvern fyrir sig og einkenni þeirra dregin fram, jafnt prentmiðla sem ljósvaka- og vefmiðla. Nemendur vinna stóra ritgerð um tiltekinn fjölmiðil og gera grein fyrir honum í kennslustund. Jafnframt eru unnin fjöldi smærri verkefna.
Íslenskir fjölmiðlar II
Námskeiðið kryfur stöðu íslenskra fjölmiðla í samtímanum. Sérstaklega er hugað að stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart alþjóðavæðingu og möguleikum þeirra í fámennu málumhverfi. Lagarammi fjölmiðla er kannaður með tilliti til samþjöppunar eignarhalds og hinnar stafrænu byltingar og staða RÚV skoðuð sérstaklega. Gestafyrirlesarar úr fjölmiðlastétt koma og meta stöðu íslenskra fjölmiðla.
B.A. verkefni í fjölmiðlafræði
Nemandinn velur viðfangsefni í samráði við umsjónarmann B.A. ritgerða í fjölmiðlafræði og skrifar um það fræðilega ritgerð undir handleiðslu leiðbeinanda. Nemandinn velur sér ritgerðarefni í samráði við umsjónarmann náms í nútímafræði og skrifar fræðilega ritgerð um efnið undir handleiðslu leiðbeinanda. Ritgerðin á að bera vott um (a) gott vald á máli og framsetningu, (b) sjálfstæð efnistök og frumleika, og (c) staðgóða þekkingu á rannsóknarefninu. Nauðsynlegt er að fá formlegt samþykki fyrir viðfangsefninu og vinna það samkvæmt reglum félagsvísinda- og lagadeildar um lokaverkefni.
Hagfræðileg greining
Námskeiðið fjallar um viðfangsefni rekstrarhagfræðinnar og þjóðhagfræðinnar. Innan rekstrarhagfræði verður áhersla lögð á greiningu og notkun hugtaka er varða verðmyndun, markaðsgerðir, vinnumarkaði og stéttarfélög, fátækt og tekjuskiptingu. Innan þjóðhagfræði verður áhersla á frammistöðu þjóðarbúskapar, verðbólgu, atvinnuleysi, hagvöxt, þjóðarskuld, peningamálastefnu, fjármálastefna ríkisins, Evrópusambandið, hnattvæðingu og ýmis afmörkuð þróunarhagfræðileg málefni. Fjallað verður sérstaklega um þróun og stöðu íslenska þjóðarbúskaparins og um hagkerfi ýmissa annarra landa.
Staða og ábyrgð fjölmiðlamanns
Kastljósinu er beint að ýmsum þáttum í fjölmiðlarétti, störfum blaða/fréttamanna og sjálfstæði ritstjórna. Hugað er að lagalegri og siðferðilegri ábyrgð, réttindum og skyldum starfsfólks fjölmiðla, m.a. gagnvart eigendum, hagsmunaaðilum, auglýsendum, almenningi og stjórnvöldum. Farið er yfir ábyrgðarreglur fjölmiðlaréttar, lagatakmarkanir tjáningarfrelsis og reglur um verndun heimildarmanna. Þá eru sérstaklega skoðuð mikilvæg dæmi um siðferðileg álitamál í fjölmiðlum og þau krufin.