Handbók stúdenta

Þessi handbók er samstarfsverkefni stúdenta og háskólans. Þú getur komið með ábendingar um lagfæringar og viðbætur.

SHA og námsráðgjafar eru umsjónaraðilar handbókarinnar.

Hagsmunavernd

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri er hagsmunafélag stúdenta. Félagið sinnir hagsmunagæslu á breiðum grunni.

  • Skrifstofa SHA er staðsett í D-húsi. Sjá kort
  • Stúdentar eru alltaf velkomnir á skrifstofuna.
    Opnunartími skrifstofu er:

    • Mánudaga - miðvikudaga 14:00-18:00

    • Fimmtudaga og föstudaga 10:00-16:00

Hafa samband við SHA

Í stúdentaráði SHA sitja formenn deildarfélaga, formaður SHA, varaformaður og fjármálafulltrúi félagsins. Þeir gæta hagsmuna stúdenta gagnvart háskólanum og öðrum stofnunum, svo sem ráðuneytum og MSN.

Félagið er til staðar fyrir stúdenta.

  • Ef þú hefur fyrirspurnir varðandi námið, réttindi og önnur atriði getur þú leitað til félagsins.
  • Innan félagsins er starfrækt ráð sem sinnir sértækri hagsmunagæslu fyrir stúdenta.

SHA, ásamt aðildarfélögum fræðasviðanna, sér um að velja og skipa stúdenta sem gegna trúnaðarstörfum innan HA. Stúdenta eru þannig virkir þátttakendur í stjórnun skólans.

Á hverju fræðasviði fyrir sig eru starfrækt sérstök aðildarfélög. Aðildarfélögin eiga fulltrúa í ýmsum ráðum og nefndum innan fræðasviða og deilda.

Kynntu þér samþykktir SHA

Hagsmunasamtök

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta

  • LÍS eru heildarhagsmunasamtök íslenskra stúdenta
  • Samtökin standa vörð um hagsmuni háskólastúdenta hérlendis
  • Þau standa vörð um hagsmuni íslenskra háskólastúdenta á erlendri grundu
  • Samtökin vinna að samræmingu gæðastarfs í íslenskum háskólum

Kynntu þér starfs Landssamtaka íslenskra stúdenta

SÍNE - Samtök íslenskra námsmanna erlendis

  • Samtökin sjá um hagsmunavörslu fyrir íslenska námsmenn erlendis. Þau miðla fróðleik um nám í útlöndum og gefa út tímaritið Sæmund. 

Kynntu þér starf Samtaka íslenskra námsmanna erlendis

Réttindi og skyldur

Stúdentar við Háskólann á Akureyri hafa ákveðin réttindi og bera einnig ákveðnar skyldur.

Háskólinn fylgir þeim reglum sem þarf til þess að tryggja þér akademíska menntun. Háskólinn þarf að fylgja reglum, varðandi námsmat og kennslu, til þess að tryggja þér réttindin.

HA leitast við að tryggja að komið sé fram við alla stúdenta af sanngirni og réttlæti.

Skyldur þínar felast meðal annars í því að fylgja reglum og leiðbeiningum skólans. Með því að vera stúdent við HA tekur þú þátt í þekkingarsamfélagi stúdenta, kennara og starfsmanna háskólans. Það er skylda allra að fara eftir þeim reglum sem gilda innan þessa samfélags. 

Misferli og brot á reglum háskólans

Í 2. málsgrein, 19. greinar í Lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 segir:

„Nemandi skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla."

Þar sem lögin eru nokkuð víðtæk og almenn er gott að þú fylgir þeim leiðbeiningum og siðareglum sem skólinn setur.

Fjallað er um réttindi og skyldur stúdenta í 43. gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri. Í 2. mgr. 43. gr. segir meðal annars:
„Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ritstuldur í hvaða formi sem er telst með öllu óheimil háttsemi í námi við Háskólann á Akureyri.“

Verkferli vegna ritstuldarmála við Háskólann á Akureyri.

Kvartanir og málskotsréttur

Það er réttur þinn að geta kvartað og skotið þínu máli áfram til umfjöllunar.

Óformlegar fyrirspurnir og ráðgjöf

Áður en þú sendir formlega kvörtun talaðu þá við námsráðgjafa, SHA, fræðasvið eða stoðþjónustu.

  • Skrifstofur, stjórnir fræðasviða/kennara eða starfsfólk stoðþjónustu er að finna í Uglu.

Formlegar kvartanir

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta. 

  1. Senda skriflegt erindi til deildarforseta. Í erindi skal stúdent greina skilmerkilega frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstyðja hana.

  2. Deildarforseti fjallar um álitaefnið eigi síðar en innan mánaðar frá því að erindið barst. Ef málið krefst lengri afgreiðslutíma fær stúdent tilkynningu hvenær niðurstöðu afgreiðslu er að vænta.

  3. Deildarforseta ber að afgreiða erindi með formlegu svari.

  4. Uni stúdent ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta um rétt hans eða skyldu getur hann innan 30 daga skotið máli sínu til háskólaráðs. Áður en háskólaráð tekur ákvörðun leitar ráðið álits kærunefndar í málefnum stúdenta við Háskólann á Akureyri. 

  5. Ákvarðanir háskólaráðs vegna kvartana og kærumála stúdenta eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

Nánari upplýsingar

Kærunefnd í málefnum stúdenta við Háskólann á Akureyri

Kærunefnd í málefnum stúdenta er skipuð af háskólaráði í hverju máli fyrir sig. Kærunefndin er skipuð þremur aðilum, fulltrúa stúdenta, fulltrúa akademísks starfsfólks og fulltrúa stoðþjónustu og stjórnsýslu, en fulltrúi akademísks starfsfólks skal vera formaður nefndarinnar. 

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

Stúdentar geta kært niðurstöðu háskólaráðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Áfrýjunarnefndin getur með úrskurði sínum staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir háskóla í kærumálum háskólanema.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.

Áfrýjunarnefnd tekur fyrir efni er varðar:

  • Framkvæmd prófa og námsmats, fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna.
  • Mat á námsframvindu og rétt til endurtökuprófs.
  • Afgreiðslu umsókna um skólavist og mat á námi á milli skóla.
  • Brottvikningu úr skóla eða beitingu annarrar refsingar.
  • Beiðni um úrskurð nefndarinnar skal vera skrifleg þar sem kæruefnið kemur skýrt fram og er rökstutt
  • Beiðni um úrskurð nefndarinnar skal vera skrifleg þar sem kæruefnið kemur skýrt fram og er rökstutt

Sendu erindið til:

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólastúdenta
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti
Arnarhvoli við Lindargötu
101 Reykjavík

Senda fyrirspurn á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
Afgreiðsla alla virka daga frá kl. 8:30-16:00
Sími: 545-9600

Lán og styrkir

Fleiri styrkir

Gagnlegir hlekkir