Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á sveigjanlegt nám í hjúkrunarfræði.

Hjúkrunarfræðinámið við Háskólann á Akureyri hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu. Námið er krefjandi og skemmtilegt og niðurstöður kannana meðal nemenda sýna ánægju með gæði og innihald námsins.

Nám í hjúkrunarfræði er fyrir öll kyn.

Samkeppnispróf eru haldin við lok fyrsta misseris og ákvarða hverjir fá að halda áfram námi á vormisseri fyrsta árs.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú áhuga á heilbrigði og forvörnum?
  • Langar þig að aðstoða fólk við að bæta heilsu, líðan og lífsgæði?
  • Vilt þú starfa í bráðaþjónustu innan eða utan sjúkrahúsa?
  • Langar þig að vinna með fólki?
  • Viltu vinna í hátækniumhverfi?
  • Viltu hafa áhrif á skipulag og stjórnun í heilbrigðisþjónustu?
  • Langar þig að eiga fjölbreytta starfsmöguleika, hérlendis eða erlendis, í þéttbýli eða dreifbýli?
  • Viltu þú eiga möguleika á að starfa á alþjóðlegum vettvangi að hjálpar- og björgunarstörfum?

Áherslur námsins

Áhersla er lögð á að nemendur verði faglega færir til að gegna hjúkrunar-, stjórnunar- og fræðslustörfum á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. 

Áhersla er á hjúkrun sjúkra, heilsueflingu, fræðslu og ráðgjöf, og tengingu á milli bóklegs og klínísks náms.

Nemendur læra að meta og bregðast við þörfum fólks á öllum aldri út frá heilbrigði, lífsgæðum og heilsufarsvanda.

Markmiðið er að mennta einstaklinga í hjúkrunarfræði í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni og alþjóðlega staðla.

Þú lærir almenn hjúkrunarstörf auk stjórnunarstarfa. Þú lærir að miðla fræðsluefni til þinna skjólstæðinga. Klínískt nám á heilbrigðisstofnunum byrjar strax á fyrsta námsári og tekur samtals 24 vikur.

Klínískt nám er hluti af náminu og hefst á fyrsta námsmisseri. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eru meðal samstarfsstofnana sem gera kröfur um að nemendur séu bólusettir fyrir ákveðnum sjúkdómum. Nánari upplýsingar má finna hér.

Á námstíma verða hjúkrunarfræðinemar afla sér þriggja mánaða starfsreynslu á heilbrigðisstofnunum utan skipulegs námstíma. Nánari upplýsingar má finna undir 13. lið reglna matsnefndar hjúkrunarfræðideildar.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

BS próf í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri gefur rétt til að sækja um hjúkrunarleyfi á Íslandi sem getur verið lykillinn að því að starfa hvar sem er í heiminum.

Hjúkrunarfræðingar starfa víða að því að auka heilbrigði og lífsgæði fólks, til dæmis á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og á öðrum heilbrigðisstofnunum. Einnig við sjúkraflutninga, í heimahúsum, við kennslu og í alþjóðlegu hjálparstarfi. Tækifærin eru óendanlega fjölbreytt.

Námið veitir einnig rétt til framhaldsnáms bæði hérlendis og erlendis. Háskólinn á Akureyri býður uppá framhaldsnám á meistara- og doktorsstigi.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Eir er félag heilbrigðisvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla.

Umsækjendur sem uppfylla almenn inntökuskilyrði fá tækifæri til þess að hefja nám á haustmisseri. Samkeppnispróf eru haldin við lok haustmisseris á 1 námsári.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

  • Uppfylla almenn inntökuskilyrði, 55 stig
  • 30 einingar í íslensku, ensku og stærðfræði, þar af 5 einingar á 3ja hæfniþrepi í hverri grein, 15 stig
  • Stig fyrir hverja einingu í Líffæra- og lífeðlisfræði
  • Stig fyrir hverja einingu í Líffræði
  • Kynjahlutfall í greininni, 5 stig

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Ferilskrá og kynningarbréf eru valkvæð gögn í umsóknargátt en styrkja umsókn. Einnig starfsvottorð frá vinnuveitanda hafi umsækjandi unnið störf í heilbrigðis- eða velferðarþjónustu.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin við lok haustmisseris á 1 námsári. Þeir sem ná bestum árangri geta haldið áfram með námið. Fjöldi þeirra stúdenta, sem öðlast rétt til náms á vormisseri 1. námsárs er ákveðinn af háskólaráði árlega (um 75 stúdentar).

Þú getur smellt hér og lesið meira um málið.

Sveigjanlegt nám og námslotur

Námið í hjúkrunarfræðideild er sveigjanlegt nám með fyrirfram ákveðnum námslotum. Nemendur geta því stundað nám sitt óháð búsetu. Allir nemendur fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef ásamt öðru námsefni. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu.

Í námslotum mæta nemendur í Háskólann á Akureyri og taka virkan þátt í kennslustundum. Þar gefst tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast háskólasamfélaginu.

Við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri er skyldumæting í námslotur. Dagsetningar á öllum námslotum eru birtar fyrir upphaf skólaárs og mikilvægt er að nemendur kynni sér þær dagsetningar tímanlega.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Klínískt nám fer fram á heilbrigðisstofnunum um allt land og öðrum starfsstöðvum hjúkrunarfræðinga á fyrirfram ákveðnum námstímabilum, sem eru birtar fyrir upphaf skólaárs. Á námstímanum verða hjúkrunarfræðinemar að afla sér þriggja mánaða starfsreynslu á heilbrigðisstofnunum utan skipulags námstíma.

Nemendur þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum fyrsta og annars námsárs til þess að geta hafið nám á þriðja námsári.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Nemendur geta sótt um að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Einnig geta nemendur sótt um að stunda klínískt nám við samstarfsstofnanir á öðrum Norðurlöndum. Umsóknir um skiptinám og val á námskeiðum er unnið í samráði við formann hjúkrunarfræðideildar.

Alþjóðafulltrúi veitir nánari upplýsingar um námspláss, húsnæði og nemendastyrki.

Umsagnir

Hjúkrunarfræðinámið við HA er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Margir góðir kennarar koma að kennslunni og námið býður upp á ótal möguleika að því loknu. Að geta stundað námið hvaðan af landinu sem er, óháð búsetu, er mikill kostur. Ég stundaði fjarnám við skólann og það var alltaf gaman að koma í lotur á Akureyri. Ávallt var tekið vel á móti fjarnemum og skólaumhverfið er hlýlegt og persónulegt.

Sandra Leifs Hauksdóttir
Hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Sem menntaður myndlistarmaður, tveggja barna móðir og á þeim tíma búsett í Berlín, þakkaði ég Háskólanum á Akureyri á hverjum degi fyrir að gera mér kleift að stunda hjúkrunarfræðinám. HA var lykilatriði á leið minni í átt að ljósmóðurdraumnum sem nú hefur ræst. Get ekki mælt nógu mikið með hjúkrunarfræðinni við HA. Takk fyrir mig!

Sunna María Schram
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans

Sveigjanleiki námsins og persónuleg samskipti við starfsfólk skólans gerðu námið mitt í HA að einstaklega skemmtilegri og gagnlegri reynslu. Þeir möguleikar sem skólinn býður upp á í sambandi við fjarnám hafa gagnast mér mjög vel, en ég hef getað haldið áfram með framhaldsnám mitt í heilbrigðisvísindum við skólann þrátt fyrir flutninga erlendis. Ég er því einstaklega þakklát fyrir að hafa getað nýtt mér þann möguleika sem skólinn býður upp á að getað stundað nám á Íslandi óháð búsetu.

Þuríður Helga Ingvarsdóttir
Nemandi í framhaldsnámi við Háskólann á Akureyri