Líftækni er tækni sem gerir það mögulegt að nota lífverur til að framleiða nýjar afurðir eða breyta náttúrulegum ferlum. Þannig er hægt að búa til lyf, matvæli og fleiri afurðir sem nýtast samfélaginu. Líftækni er því í raun öflugt tól til þess að búa til verðmæti úr auðlindum sjávar og lands.

Námið er spennandi og krefjandi og veitir þér traustann grunn til að starfa við rannsóknir. Sérfræðingar í líftækni eru eftirsóttir starfskraftar um allan heim, og því getur starfsvettvangurinn verið hvar sem er. Þú getur líka stofnað þitt eigið sprotafyrirtæki út frá þínum rannsóknum og hugmyndum.

Námið hefur einnig reynst góður grunnur fyrir fjölbreytt framhaldsnám á sviði raunvísinda og líffræði.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á náttúruvísindum og hagnýtingu þeirra?
  • Vilt þú geta valið um fjölbreytt störf innan ört vaxandi geira líftækninnar?
  • Þorir þú að hugsa út fyrir boxið?
  • Hefur þú áhuga á auðlindum og verðmætasköpun?
  • Langar þig til þess að stofna og reka eigið fyrirtæki?
  • Fékkst þú forvitni í vöggugjöf?

Áherslur námsins

Í líftæknináminu er lögð áhersla á hagnýt lífvísindi, eins og lífefnafræði og sameindaerfðafræði, auk námskeiða á sérsviðum líftækninnar. Jafnframt er boðið upp á námskeið í viðskipta- og rekstrargreinum. Þau undarbúa þig fyrir að starfa í og stjórna líftæknifyrirtækjum.

Mikil áhersla er lögð á verklega þjálfun sem gefur þér góða þekkingu og færni til starfa á rannsóknastofum.

Námið veitir traustan grunn til áframhaldandi náms á meistarastigi.

Þú getur skoðað skipulag námsins neðar á síðunni og í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Líftækninám opnar dyr að fjölbreyttum starfsvettvangi. Fjöldi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja í líftækni geta nýtt þína þekkingu, svo sem Arctic Therapeutics, Alvotech, Íslensk erfðagreining, Orf líftækni, Primex, Algalif, Genis og Lýsi. Þú getur einnig stofnað þitt eigið sprotafyrirtæki út frá þínum rannsóknum og hugmyndum.

Námið skapar góðan grunn fyrir rannsóknastörf, bæði hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum eins og Matís og Umhverfisstofnun.

Hátt hlutfall stúdenta hafa haldið áfram í meistara- og doktorsnám að loknu BS-námi.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Stafnbúi er félag líftækni- og sjávarútvegsnema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla, eða hafi útskrifast úr verk- og raunvísindadeild frá Háskólabrú Keilis. Gerð er krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Nám í líftækni er að hluta raungreinanám með líffræði, efnafræði og stærðfræði sem kjarnanámskeið. Hafi umsækjandi ekki lokið einingum í raungreinum á framhaldsskólastigi er mælst til þess að taka undirbúningsnámskeið í efnafræði og stærðfræði. Símenntun HA býður upp á slík námskeið í lok ágúst

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Háskólinn á Akureyri má aðeins innrita lítinn fjölda stúdenta sem uppfylla ekki almenn inntökuskilyrði. Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Til að undanþága sé veitt skal umsækjandi hafa náð 25 ára aldri og lokið meira en 90 einingum (130 fein) af framhaldsskólastigi. Einnig styrkir umsókn að hafa starfsreynslu sem tengist náminu.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar þurfa koma tvisvar sinnum á misseri í eina viku til Akureyrar. Þá eru gerðar tilraunir á rannsóknastofu og farið í aðra verklega tíma. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu. Skyldumæting er í þessar verklegu lotur. Kynntu þér því vel dagsetningarnar sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Líftækninámið reyndist mér vel sem undirbúningur fyrir framhaldsnám. Einnig hefur það komið að góðum notum við störf mín tengd lífvísindum sem og í núverandi starfi.

Dana Rán Jónsdóttir
Verkefnastjóri RHA

Þegar ég flutti norður til að stunda nám í líftækni vissi ég ekki við hverju væri að búast. HA tók vel á móti mér með persónulegu umhverfi. Nemendur við HA eru einstaklega heppnir með góða kennara sem eru allir af vilja gerðir til að fræða og upplýsa. Mér finnst kröfurnar og gæði náms vera á sama stigi hjá HA og hjá NTNU.

Þórhildur Edda Eiríksdóttir
Vísindamaður hjá Alvotech

Í líftækni lærir þú allt í senn öguð vinnubrögð lífvísinda og undirstöðugreinar í viðskiptafræði. Á sama tíma er ýtt undir sköpunargleði og hugmyndaflug.

Guðný Vala Þorsteinsdóttir
Líftæknifræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands

Eintómt hrós frá mér fyrir líftækninámið í HA. Kennarar eru vel tengdir við atvinnulífið og á þessum þremur árum myndaði ég ómetanleg tengsl sem nýtast mér til frambúðar. Námið hefur nýst mér vel í starfi, allt frá raungreinum, eins og efnafræði og örverufræði, til námskeiða sem fjalla um stjórnun og gæði.

Olga Ýr Björgvinsdóttir
Forstöðumaður rannsóknastofa hjá Arctic Therapeutics