Skipulag náms fyrir nýnema
Ályktunartölfræði í félagsvísindum
Kenndar eru nokkrar helstu úrvinnsluaðferðir innan ályktunartölfræði, s.s. fjölbreytugreining, dreifigreining, aðhvarfsgreining, tvíflokka aðhvarfsgreining, þáttagreining og áreiðanleikaprófun á kvörðum. Nemendur eiga að geta leyst úr verkefnum sem þessu tengjast með aðstoð viðeigandi tölfræðiforrita, túlkað niðurstöður og dregið viðeigandi ályktanir.
Málstofa í lögreglufræði
Í málstofunni er kafað ofan í valið viðfangsefni, eða röð skyldra viðfangsefna, sem varpa ljósi á störf lögreglunnar og löggæslu í samfélaginu. Kennslan er með málstofusniði sem krefst virkar þátttöku nemenda. Yfirskrift og efnisþættir eru ákveðnir á vori hverju fyrir komandi kennsluár og birtir í kennsluskrá.
Kynningar og umræður í vikulegum umræðutímum sem fara fram í rauntíma.
Réttarfélagsfræði
Réttarfélagsfræði (sociology of law) er kynnt og rætt um tengsl hennar við aðrar fræðigreinar Helstu kenningar réttarfélagsfræðinnar verðar raktar og veitt yfirlit um rannsóknaraðferðir og aðferðafræðileg vandamál við rannsóknir á þessu sviði. Sérkennum trúarlegra, lagalegra og læknisfræðilegra taumhaldsstofnana verður lýst og rakin barátta þeirra um eignarhald á mismunandi tegundum frávika í aldanna rás. Rætt verður um áhrif félagslegra, pólitískra og efnahagslegra hagsmuna á samspil löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds í réttarkerfi samtímans. Rætt verður um ýmsar tegundir afbrota og tengsl þeirra við félagslega þætti og vinsældir mismunandi refsiúrræða á ýmsum söguskeiðum. Rætt verður um lagalega úrlausn deilna í tímans rás og leiðir til að koma á sáttum milli manna og stríðandi fylkinga. Loks verður gerð grein fyrir samspili félagslegra breytinga og réttarkerfisins og nútímavæðingu þess. Fjallað verður sérstaklega um þróunina á Íslandi í því samhengi.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir
Viðfangsefni þessa námskeiðs er eigindlegar rannsóknaraðferðir innan mannvísinda með áherslu á félagsvísindagreinar. Nemendur kynnast sögu, markmiðum og kenningarlegum forsendum eigindlegra rannsóknaraðferða og öðlast þekkingu á ýmsum vandamálum og álitamálum sem þeim tengjast. Nemendur læra til verka m.t.t. etnógrafískrar þátttökuathuganar, vettvangslýsingar, ólíkra viðtalsaðferða, rýnihópsaðferðar, sjálfskoðunar, samvinnurannsókna, aðgerðamiðaðra nytjarannsókna, tákn-, orðræðu- og hugtakagreiningar, minnis-, sagnaritunar og frásagnagreiningar, og eigindlegra samanburðarrannsókna.
Álitamál í löggæslu
Í námskeiðinu er kafað ofan í valið viðfangsefni, eða röð skyldra viðfangsefna, sem varpa ljósi á störf lögreglunnar og löggæslu í samfélaginu. Yfirskrift og efnisþættir eru ákveðnir á vori hverju fyrir komandi kennsluár og birtir í kennsluskrá.
B.A. verkefni í lögreglu- og löggæslufræði
Nemandi velur svið viðfangsefnis í samráði við umsjónarmann B.A. ritgerða sem annast tilnefningu leiðbeinanda úr hópi kennara. Nemandi skal því næst í samráði við leiðbeinanda útbúa vinnuáætlun sem er stutt lýsing á viðfangsefni lokaverkefnis auk leslista með helstu heimildum sem ætlunin er að nota. Þegar umsjónarmaðurinn hefur fallist á vinnuáætlun nemandans telst nemandinn hafa staðist þennan hluta af vinnu við lokaverkefni til B.A. prófs en þegar lokaverkefni lýkur endanlega fær það eina lokaeinkunn sem gildir þá enn fremur fyrir þetta námskeið.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
Í námskeiðinu er fjallað um Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans. Fjallað er um efni þeirra, eftirlitskerfi samningsins og hvernig ákvæði hans eru leidd í íslensk lög og þeim framfylgt. Áhersla er lögð á réttindi samkvæmt samningnum að því er varðar rannsókn sakamála og réttarfar, til að mynda rétt til einkalífs og takmarkanir á eftirlitsvaldi og rétt grunaðra og vitna að því er varðar yfirheyrslu, varðhald eða ákæru.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.