Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er tilvalið fyrir þau sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu námi. Við útskrift hlýtur þú lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.

Iðnaðar- og orkutæknifræðingar fást við hluti sem eru allt í kringum okkur og starfa meðal annars á verkfræðistofum, í virkjunum, og í tækni- og framleiðslufyrirtækjum.

Námið er byggt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og fer fram í staðnámi við Háskólann á Akureyri. Stúdentar eru skráðir við HR og greiða þangað skólagjöld.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á að vinna með endurnýjanlega orkugjafa?
  • Langar þig að auka sjálfvirkni í iðnaði?
  • Langar þig að forrita róbóta í framleiðslulínum?
  • Vilt þú stýra framtíðarmatvælavinnslum?
  • Langar þig að teikna og hanna hluti í 3D?
  • Heillar rekstur og viðhald á virkjunum þig?
  • Vilt þú meta kosti vindmylla?
  • Langar þig að verða tæknifræðingur?

Áherslur námsins

Iðnaðar- og orkutæknifræði er krefjandi raungreinanám með áherslu á fræðilega þekkingu. Samhliða því vinnur þú hagnýt verkefni þar sem þér gefst tækifæri á að hanna og smíða hluti frá grunni. Í gegnum hagnýt verkefni, valnámskeið, starfsnám og lokaverkefni hefur þú möguleika á að sníða námið að þínu áhugasviði. Starfsnámið er 12 ECTS einingar.

Í náminu eru misseri brotin upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Í HA horfa stúdentar á fyrirlestra í beinu streymi á sama tíma og kennsla fer fram í HR. Aðstoðarkennari sér um dæmatíma í HA og aðstoðar stúdenta á staðnum. Gert er ráð fyrir að stúdentar séu í fullu námi í dagskóla, 30 ECTS á hvoru misseri.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skipulag námsins á vef Háskólans í Reykjavík.

Möguleikar að námi loknu

Starfssvið iðnaðar- og orkutæknifræðinga er fjölbreytt. Þeir starfa meðal annars við hönnun, stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þeir vinna á verkfræðistofum, í framleiðslufyrirtækjum, í iðnaði og hjá orkufyrirtækjum.

Við útskrift færð þú B.Sc. gráðu í iðnaðar- og orkutæknifræði. Þú getur svo sótt um staðfestingu til viðkomandi ráðuneytis og hlotið lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.
Ljúkir þú náminu og ert einnig með sveinspróf og hefur lokið tilskyldum starfstíma getur þú jafnframt sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein. Háskólarnir gefa ekki út slík leyfi.

Námið veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði innanlands sem og erlendis. Eftir meistaranám í verkfræði getur þú sótt um lögverndaða starfsheitið verkfræðingur.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir stúdentar við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Data er félag tölvunarfræði- og tæknifræðinema við HA og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook. Einnig er tekið vel á móti þeim í Technis, félag iðn- og tæknifræðinema í HR.

Inntökuskilyrði

Þú þarft að hafa lokið einu af eftirfarandi: stúdentsprófi, prófi úr Háskólagrunni HR, 4. eða 3. stigs vélstjórnarprófi, sveinsprófi eða staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi.

Einnig er nauðsynlegt að hafa lokið 20 einingum í stærðfræði (þar af 15 einingum á 3. hæfniþrepi) og 10 einingum í eðlisfræði (2. eða 3. hæfniþrep). Miðað er við áfanga af náttúrufræði- eða náttúruvísindabraut.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði Háskólans í Reykjavík.

Skiptinám

Þú getur tekið hluta af náminu við erlenda samstarfsháskóla. Skiptinám er frábært tækifæri til þess að kynnast námi og störfum í öðrum löndum og öðlast meiri sérhæfingu á þínu áhugasviði. Til að geta farið í skiptinám þarft þú að hafa lokið 60 einingum og hafa yfir 7 í meðaleinkunn. Alþjóðaskrifstofa HR tekur vel á móti þér og svarar þeim spurningum sem þú hefur.

Sækja um

Þú sækir um á umsóknarvef HR. Smelltu hér til að sækja um. Umsóknarfrestur er til og með 5. júní.

Hlökkum til að sjá þig!

Spurt og svarað

Er fjarnám í boði?

Nei, aðeins staðnám á Akureyri.

Hvar fer námið fram?

Námið fer að langmestu leyti fram í staðnámi á Akureyri, ásamt mögulega nokkrum vettvangsferðum í HR yfir námstímann.

Hvernig fer námið fram?

Þú horfir á fyrirlestrana í beinu streymi frá HR, á sama tíma og þeir eru. Einnig eru fluttir fyrirlestrar á Akureyri. Dæma- og verkefnatímar eru í Háskólanum á Akureyri með kennara sem er á staðnum.

Hver eru skólagjöldin?

Skólagjöldin eru samkvæmt verðskrá HR.

Hvernig tölvu þarf í námið?

Nauðsynlegt er að hafa góða tölvu í tæknifræðináminu. Mörg forrit eru eingöngu til fyrir Windows stýrikerfi. Unnið er mikið með teikningar og þá er gott skjákort mikilvægt.

Ef þú átt eða kýst frekar að nota Apple tölvu er mikilvægt að hún sé nógu öflug til að keyra forritin í parallels/virtual umhverfi eða álíka.

Er spurningu þinni ósvarað?

Ef þetta svarar ekki spurningum þínum þá tekur Ólafur (olafurj@unak.is) verkefnastjóri námsins á Akureyri vel á móti þér.

 

Umsagnir

Námsefnið er mjög áhugavert og skemmtilegt. Þriggja vikna áfanginn hefur staðið upp úr en þá skoðuðum við gamla vatnsaflsvikjun og unnum stórt verkefni tengt henni. Við teiknuðum virkjunina upp í teikniforritinu Inventor og könnuðum hvað þyrfti að gera til að koma henni í gang svo eitthvað sé nefnt. Við erum fá í bekknum og hjálpumst að ef einhver á í erfiðleikum með námið. Aðgengi að kennurum er mjög gott og það er frábært að vera með aðstoðarkennara á staðnum. Mér finnst rosalega þægilegt að geta búið á Akureyri og lært það sem ég hef áhuga á. Orkumál eru mikilvæg og þetta nám er mjög hagkvæmt fyrir framtíðina.

Kári Gautason
nemandi

Mín upplifun á náminu er búin að vera mjög góð, námsefnið er skemmtilegt og nemendahópurinn er orðinn þéttur og góður hópur. Það sem stendur helst upp úr er þriggja vikna námskeiðið. Það var mjög skemmtilegt að vinna verkefni frá upphafi til enda. Einnig hafa kennararnir veitt gott aðhald og verið frábært. Í framtíðinni held ég að námið muni nýtast mér vel hvort sem það verður á vinnumarkaðnum eða í áframhaldandi námi.

Jón Hafsteinn Einarsson
nemandi