Siðareglur Háskólans á Akureyri

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 29.8.2024

Vefútgáfa síðast uppfærð 13.9.2024

 

FLÝTILEIÐIR:

  1. Réttlæti og sanngirni
  2. Virðing fyrir fólki
  3. Fagleg og persónuleg ábyrgð
  4. Um siðanefnd og málsmeðferð vegna brota á siðareglum

Starfsfólk og nemendur Háskólans á Akureyri (HA) mynda samfélag sem byggist á réttlæti, virðingu og ábyrgð. Í nafni þessara gilda gangast meðlimir háskólasamfélagsins undir þær siðferðilegu skuldbindingar sem lýst er í eftirfarandi siðareglum.

Skráðar siðareglur eiga sér samsvörun í ýmsum lagareglum og öðrum reglum. Eðli máls samkvæmt er æskilegt að sem mest samræmi ríki þar á milli. Mikilvægasta hlutverk skráðra siðareglna er að veita ítarlegri viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum og öðrum reglum er ætlað, enda gilda þær áfram þegar hinum sleppir. Siðareglunum er ætlað að styðja við aðrar reglur um starfshætti og samskipti sem gilda innan Háskólans á Akureyri og vera þeim til fyllingar.

Starfsfólk HA er bundið af siðareglum HA sem og af siðareglum fagfélaga sem það kann að vera aðilar að. Telji starfsfólk að ofangreindar reglur séu ósamrýmanlegar í einhverjum atriðum ber því að gera viðeigandi aðilum innan HA viðvart. Siðareglur HA eru settar á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006. Þeim fylgja vísanir í ýmis gildandi lög, sem og reglur og ferli sem samþykkt hafa verið innan HA. Slíkar samþykktir eru ekki hluti af siðareglunum en þjóna markmiðum þeirra. Einstakar deildir og starfseiningar háskólans geta gefið út nánari reglur og leiðbeiningar um æskilega hegðun. Slíkar reglur eiga að styðja siðareglur HA og mega ekki stangast á við þær.

Réttlæti og sanngirni

Jafnræði

1. Við mismunum ekki fólki, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Einelti og áreitni eru aldrei réttlætanleg og við erum á varðbergi gagnvart einkennum þess, hvort heldur sem er í beinum samskiptum eða á netinu. Við veitum ekki sérstaka fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla.

Við skólann eru í gildi reglur vegna kvartana sem berast og snúa að einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri. Fagráð skólans tekur við þeim kvörtunum, sjá nánari upplýsingar hér.

Akademískt frelsi

2. Við virðum akademískt frelsi í rannsóknum, kennslu og námi. Við viðurkennum rétt einstaklinga til að gagnrýna með háttvísi gildandi lög, stefnu stjórnvalda og skólayfirvalda og til að halda fram óvinsælum eða umdeildum skoðunum.

Virðing fyrir fólki

Frumskylda

3. Við störfum í anda virðingar fyrir fólki, umhverfi og verðmætum.

Gagnkvæm virðing

4. Við virðum rétt samstarfsfólks okkar og nemenda og sýnum hvert öðru háttvísi í framkomu, ræðu og riti. Við vinnum saman af heilindum og forðumst að láta persónuleg tengsl eða hagsmuni hafa áhrif þar á. Við virðum skoðanir hvers annars og sýnum hvert öðru umburðarlyndi. Við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum, endurgjöf og ummælum um aðra innan háskólasamfélagsins hvort sem það er í beinum samskiptum, bréfleiðis eða á netinu.

Trúnaður

5. Við gætum trúnaðar um persónuleg málefni hvers annars og um trúnaðarmál þriðja aðila. Við gætum fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni nemenda eða samstarfsfólks eru til umræðu.

Fagleg og persónuleg ábyrgð

Frumábyrgð í akademísku starfi

6. Við leitum þekkingar af heilindum og hlutlægni og leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalegan rökstuðning.

Ábyrgð í rannsóknum

7. Við gætum ávallt heiðarleika og góðs siðferðis í rannsóknum.

8. Við virðum hugverkaréttindi, en í því felst að við eignum okkur ekki heiðurinn af hugmyndum og störfum annarra. Við vísum til heimilda sem við notfærum okkur í samræmi við fræðilegar venjur.

9. Við gætum persónuverndar og stöndum vörð um réttindi og hagsmuni þeirra sem taka þátt í rannsóknum okkar. Við gætum mannúðar við rannsóknir á dýrum.

Vefsíða Vísindasiðanefndar
Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir
Vefsíða Persónuverndar

Siðanefndir spítalanna:

Siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala
Siðanefnd stjórnsýslurannsókna á Landspítala

10. Við vöndum okkur í rannsóknarstörfum og vitum að fölsun eða afbökun upplýsinga og rannsóknarniðurstaðna er óafsakanleg. Verði okkur á mistök viðurkennum við þau og leiðréttum á viðeigandi vettvangi.

11. Við virðum rétt samstarfsmanna í rannsóknum og sjáum til þess að hagsmunir þeirra séu tryggðir.

12. Við forðumst að hagsmunatengsl hafi áhrif á rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Við upplýsum um þau hagsmunatengsl sem kunna að vera til staðar í starfi okkar.

13. Sem kennarar og sérfræðingar birtum við niðurstöður rannsókna okkar á opinberum vettvangi nema brýnar og almennt viðurkenndar ástæður krefji. Við erum opin fyrir málefnalegri gagnrýni, samstarfi og nýjum hugmyndum.

14. Við birtum rannsóknarniðurstöður okkar í eigin nafni og sem starfsmenn viðkomandi stofnunar innan háskólans. Slíkar niðurstöður eru ekki álit Háskólans á Akureyri.

15. Við forðumst að oftúlka þýðingu eigin rannsókna eða rannsóknasviðs, sérstaklega á opinberum vettvangi, til dæmis í þeim tilgangi að afla styrkja til rannsókna.

Ábyrgð í kennslu og námi

16. Sem kennarar virðum við réttindi nemenda okkar og höfum hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

17. Sem kennarar stuðlum við að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi kröfum, hvatningu og góðu fordæmi. Við högum kennslu, leiðsögn, þjálfun og námsmati samkvæmt ýtrustu kröfum fræðigreina okkar um vönduð vinnubrögð.

18. Við undirbúning og framkvæmd rannsókna til bakkalár-, meistara- eða doktorsprófs ber að gæta sérstaklega að ábyrgðarsviði leiðsagnarkennara en þeir eru að öðru jöfnu ábyrgðarmenn þeirra rannsókna sem liggja til grundvallar slíkum ritgerðum.

19. Sem kennarar gætum við þess að nemendur fái tímanlega réttar upplýsingar um þær kröfur sem við gerum til þeirra. Við stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart nemendum og flýtum yfirferð á verkefnum eins og kostur er.

20. Sem kennarar gerum við okkur grein fyrir ójafnri valdastöðu gagnvart nemendum og gætum þess að misnota hana ekki. Við hefjum ekki kynferðissamband við nemendur í námskeiðum okkar. Ef ástvinur eða fjölskyldumeðlimur (t.d. foreldri, systkini, maki, barn, tengdabarn, eða barnabarn) gerist nemandi okkar sjáum við til þess að námsmat sé á hendi annarra.

21. Sem nemendur sýnum við kennurum okkar og samnemendum kurteisi, hlítum sanngjörnum fyrirmælum og erum heiðarleg í samskiptum. Við tökum ekki þátt í misferli, þar með töldu svindli á prófum og ritstuldi.

Ábyrgð í stjórnun, stoðþjónustu og starfi almennt

22. Við sinnum störfum okkar af heiðarleika og samvisku. Við leggjum okkur fram um að veita skjólstæðingum og öðrum sem til okkar leita faglega og góða þjónustu án manngreinarálits. Sem stjórnendur gætum við þess sérstaklega að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir sérhagsmuni.

23. Við gætum persónuverndar og stöndum vörð um réttindi og hagsmuni skjólstæðinga.

24. Við tökum fullt mið af stjórnsýslulögum og viðurkenndum góðum stjórnsýsluháttum í allri málsmeðferð við HA.

25. Við gætum þess að upplýsingar sem við veitum séu eins réttar og nákvæmar og kostur er. Við fullyrðum ekki meira en vitneskja okkar gefur tilefni til heldur öflum upplýsinga eða vísum fyrirspurnum til viðeigandi aðila.

26. Við förum vel með fjármuni og önnur verðmæti háskólans. Sérstaklega gætum við þess að nota ekki eignir háskólans í eigin þágu eða til þess að hygla þeim sem við höfum velþóknun á.

27. Við stöndum vörð um heiður Háskólans á Akureyri og aðhöfumst ekki neitt það sem rýrir álit samfélagsins á honum.

28. Við vitum að málefnaleg gagnrýni á ætíð rétt á sér, þar með talin gagnrýni á eigin stofnun. Við temjum okkur málefnaleg og heiðarleg skoðanaskipti.

Umhverfisvitund

29. Við tökum ábyrga afstöðu til umhverfis og auðlindanýtingar.

30. Við gerum okkur grein fyrir að daglegar athafnir mannsins hafa margvísleg áhrif á umhverfið. Þar sem vafi leikur á afleiðingum þessara athafna, skal láta umhverfið njóta vafans. Afstaða okkar til röskunar umhverfis er bæði staðbundin og alþjóðleg.

Um siðanefnd og málsmeðferð vegna brota á siðareglum

31. Ef starfsmaður eða nemandi verður þess áskynja að starfsmaður hafi brotið siðareglur HA ber honum að vekja athygli á því með erindi til siðanefndar HA. Rökstudda ábendingu um brot á siðareglum skal ætíð taka til athugunar. Niðurstaða slíkrar athugunar má aldrei bitna á þeim sem færir ásökunina fram og nafn þess sem kærir skal ekki gert opinbert. Tilhæfulausar ásakanir geta þó brotið önnur ákvæði þessara siðareglna.

32. Forseti fræðasviðs, deildarforseti eða deildarfundur fjalla um málefni stúdenta (sbr. 15., 20., 23 og 43. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022). Telji þeir að stúdent hafi mögulega brotið siðareglur HA geta þeir leitað álits siðanefndar HA um hvort svo sé. Agamál og svindl á prófum heyra undir deildarforseta en ritstuldur getur heyrt undir siðanefnd.

Öllum grun um ritstuld í bakkalár-, meistara eða doktorsritgerðum ber að vísa til siðanefndar HA. Sjá reglur viðeigandi deilda um bakkalár- og meistaraverkefni.

Öll erindi til siðanefndar verða að uppfylla þær kröfur sem starfsreglur siðanefndar Háskólans á Akureyri gera, sjá 3.3. gr. starfsreglnanna.

33. Siðanefnd HA er stjórnsýslunefnd í skilningi stjórnsýslulaga. Hún sker úr um það hvort siðareglur skólans hafi verið brotnar. Aðilar innan og utan skólans geta beint erindum til nefndarinnar en hún tekur ekki mál upp að eigin frumkvæði.

34. Háskólaráð hefur frumkvæði að því að semja starfsreglur fyrir siðanefnd og staðfestir þær. Reglurnar skulu lýsa meðferð mála fyrir nefndinni, meðal annars varðandi það hvernig nefndin aflar gagna og athugasemda málsaðila og hvernig hún upplýsir mál og birtir niðurstöður sínar. Tekið er mið af málsmeðferð fyrir dómstólum og opinberum stjórnvöldum sem ætlað er að tryggja óhlutdrægni og málefnalega umfjöllun.

35. Niðurstaða siðanefndar í máli skal vera bæði rökstudd og afdráttarlaus. Nefndin mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum á siðareglum, en tekur afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.

36. Siðanefnd HA á síðasta orðið um túlkun á siðareglum HA. Ef niðurstaða nefndarinnar bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga vísar nefndin málinu til viðkomandi stjórnvalda sem grípa þá til viðeigandi ráðstafana lögum samkvæmt. Ef um er að ræða ágreining eða brot á reglum sem heyrir ekki undir siðanefnd HA vísar nefndin málinu frá með rökstuddri greinargerð og leiðbeinir eftir atvikum um réttan farveg fyrir viðkomandi mál.

 

Samþykktar á fundi háskólaráðs 29. ágúst 2024.