Skipulag náms fyrir nýnema
Rannsóknaraðferðir í hug- og félagsvísindum
Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði í aðferðafræði hug- og félagsvísinda. Að loknu námskeiði ættu nemendur að geta gert grein fyrir helstu rannsóknaraðferðum. Fjallað er um rannsóknarsnið, gagnaöflunaraðferðir, úrtök og önnur hugtök aðferðafræðinnar. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir mismunandi aðferða í hug- og félagsvísindum með hliðsjón af ólíkum markmiðum rannsókna. Hluti kennslunnar fer þannig fram að gestakennarar kynna rannsóknir sínar fyrir nemendum, með áherslu á aðferðafræðiþáttinn.
Saga og samfélag
Farið er yfir valda þætti í sögu Íslands og fjallað um uppruna íslensks nútímasamfélags með áherslu á uppeldis- og skólasögu þjóðarinnar. Meðal viðfangsefna eru landnám Íslands og uppruni Íslendinga, mannlíf og menning sjálfsþurftarsamfélagsins, tengsl við erlend ríki frá miðöldum til samtímans, hlutverk kirkjunnar í menntun þjóðarinnar, tilraunir til þess að móta þjóðfélagsþróunina á tímum heittrúar og upplýsingar, uppbygging íslensks menntakerfis í fjölþjóðlegu ljósi, þróun kennaramenntunar og umbreyting samfélags vegna iðnbyltingar og lýðræðis.
Listir og sköpun í skólastarfi
Í námskeiðinu læra nemendur um og vinna með fjölbreytt listform og hönnun; svo sem myndlist, tónlist og leikræna tjáningu. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á listgreinum og fái þjálfun í að nýta þær í skapandi starfi með börnum og ungmennum. Nemendur læra aðferðir til að styrkja læsi sitt á listir í eigin menningarumhverfi og fá þjálfun í að greina hlutverk þeirra, merkingu og gildi. Í námskeiðinu fá nemendur enn fremur tækifæri til að efla eigin sköpunarmátt með virkri þátttöku í listasmiðjum og í tengslum við þær kynnast þeir kenningum um gildi listuppeldis sem þáttar í menntun barna og ungmenna.
Íslenskt mál
Námskeiðið veitir nemendum þjálfun í notkun íslensks máls sem vinnutækis. Í þessum tilgangi verða kynnt til sögunnar helstu yfirlitsrit og orðabækur sem nýtast við hvers konar ritun. Einnig verður fjallað um einkenni formlegs og/eða fræðilegs ritmáls og nemendum veitt leiðsögn í slíkum skrifum þar sem sérstök áhersla verður lögð á ýmis vandasöm málfarsleg atriði. Jafnframt verður lögð áhersla á þjálfun nemenda í ritun lengri fræðilegra ritsmíða. Loks verður íslensk málstefna tekin til umfjöllunar og þar hugað sérstaklega að birtingarmyndum hennar í skólakerfinu.
Grunnskólakennarinn
Viðfangsefni námskeiðsins lúta að grunnskólanum og starfi grunnskólakennarans. Í námskeiðinu er fjallað um grunnskólann í samfélagslegu samhengi og viðhorf er varða börn og starfshætti í skólastarfi. Kennslan tekur einnig til laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla. Fjallað er um starfssvið kennara með áherslu á grunnþætti menntunar, kennsluhætti, samþætt skólastarf og hvernig börn læra. Fjallað er um starfsumgjörð grunnskólakennarans og sjónum beint að ýmsum persónubundnum, aðstæðubundnum og faglegum þáttum sem liggja starfinu til grundvallar. Rýnt er í fagmennskuhugtakið og athyglinni m.a. beint að ígrundun, samvinnu, faglegri ábyrgð, skuldbindingu og siðferðilegum viðmiðum sem mikilvægum forsendum árangurs í starfi. Í námskeiðinu fara nemendur í tveggja daga vettvangsheimsókn þar sem þeir kynnast völdum þáttum skólastarfs.
Leikskólakennarinn
Viðfangsefni námskeiðsins lúta að leikskólanum og starfi leikskólakennarans. Í námskeiðinu er fjallað um hugmyndasögu leikskóla, strauma og stefnur í nútímaleikskólafræðum og áhrif þeirra á viðhorf er varðar börn og starfshætti í leikskólastarfi. Kennslan tekur einnig til laga, reglugerða og aðalnámskrár leikskóla. Fjallað er um starfssvið kennara með áherslu á grunnþætti menntunar, námssvið leikskólans, samþætt skólastarf og hvernig börn læra. Fjallað er um starfsumgjörð leikskólakennarans og sjónum beint að ýmsum persónubundnum, aðstæðubundnum og faglegum þáttum sem liggja starfinu til grundvallar. Rýnt er í fagmennskuhugtakið og athyglinni m.a. beint að ígrundun, samvinnu, faglegri ábyrgð, skuldbindingu og siðferðilegum viðmiðum sem mikilvægum forsendum árangurs í starfi. Í námskeiðinu fara nemendur í tveggja daga vettvangsheimsókn þar sem þeir kynnast völdum þáttum skólastarfs.
Kennslufræði og vettvangur
Í námskeiðinu er fjallað um hugmyndir, aðferðir og hugtök er varða nám og kennslu í leik- og grunnskólum og það sett í samhengi við starf á vettvangi.
Nemendur fara í vettvangsheimsóknir í skóla og gefst þannig tækifæri til að tengja kenningar við starfið og nýta þær til að móta sína eigin starfskenningu. Nemendur gera rannsóknartengda ferilbók þar sem þeir halda utan um eigin námsferil og ígrundun tengda vettvangsheimsóknum og lesefni námskeiðsins. Leiðandi hugmyndir og hugtök tengjast áherslum Aðalnámskráa og menntun fyrir alla og hvernig kennarar mæta fjölbreytileika nemenda.
Þroskasálfræði
Námskeiðið snýst um þroskaferli manneskjunnar frá móðurkviði til unglingsára. Hlutur erfðaþátta og lífeðlislegra þátta í þroska verður rætt ásamt hluti sálrænna og félagslegra þátta, sem og samspili þessara tveggja meginorsaka breytileika á þroska. Áhersla er lögð á lykilkenningar og sjónarhorn eins og þau snúa að líkamlegum, hugrænum, félagslegum og tilfinningalegum þáttum þroska frá meðgöngu til seinni hluta unglingsára.
Siðfræði, hugmyndir og skólar
Farið er yfir helstu hugtök, kenningar, aðferðir og úrlausnarefni almennrar siðfræði. Skoðaður er sögulegur bakgrunnur siðfræði og veitt yfirlit yfir sögu hugmynda um manninn og veruleikann. Fjallað er um þessi atriði í tengslum við menntun, þroska, nám, kennslu og skólagöngu.
Raunvísindi í námi og leik
Viðfangsefni námskeiðsins taka til raunvísinda þar sem sjónum er sérstaklega beint að náttúruvísindum og stærðfræði. Fjallað er um hlut raunvísinda í skilgreindum grunnþáttum menntunar og rýnt í eðli, sögu og aðferðir raunvísindakennslu. Í náttúruvísindum er lögð áhersla á að efla skilning nemenda á umhverfismálum, sjálfbærni og vistkerfum í gegnum fjölbreytt náttúrufræðileg viðfangsefni. Í stærðfræði er veitt sögulegt yfirlit auk þess sem fjallað er um grunn stærðfræðinnar, svo sem mismunandi talnakerfi og rúmfræði. Sjónum verður sérstaklega beint að sérstöðu verklegrar kennslu í raunvísindum og unnið með grunnþætti eins og sjálfbærni, vísindalæsi og sköpun.
Nám og starf með upplýsingatækni
Í námskeiðinu er horft á viðfangsefni menntunar og starfs með börnum og ungmennum í ljósi tækniþróunar nútímans. Fjallað er um áhrif netsins, samskiptamiðla og snjalltækni á daglegt líf og nám barna og ungmenna og náms- og starfsumhverfi þeirra sem hyggjast mennta sig til starfa með þessum aldurshópi. Sjónum er beint að áhrifum tækniþróunar nútímans á markmið og viðfangsefni sem birtast í íslenskri menntastefnu og endurspeglast í skilgreindum grunnþáttum menntunar á hverjum tíma. Viðfangsefni námskeiðsins miða ennfremur að því að nemendur verði sér vel meðvitaðir um siðferðilega þætti og viðmið sem hafa þarf í huga þegar möguleikar netsins, samskiptamiðla og snjalltækni eru nýttir og í því sambandi er sjónum m.a. beint að rafrænu einelti og birtingarmyndum þess. Lögð er áhersla á að nemendur nálgist viðfangsefni námskeiðsins með greinandi og gagnrýna hugsun að leiðarljósi og setji fram hugmyndir um möguleika tækninnar til þekkingaröflunar, sköpunar, tjáningar, miðlunar, samvinnu og mats á námi.
Samfélagsnám hjá Rauða krossinum
Í þessu námskeiði fá nemendur tækifæri til samfélagsnáms á sviði sem tengist einu eða fleiri námskeiðum B.Ed.-náms. Þetta vettvangsnám er frábrugðið hefðbundnu starfsnámi að því leyti að í stað þess að nemandi hljóti formlega þjálfun á vettvangi skóla eins og í öðru starfsnámi Kennaradeildar, felur námskeiðið í sér að nemendur leggi af mörkum til samfélagsins með það fyrir augum að öðlast aukna samfélagslega ábyrgð og kunnáttu og innsýn í líf og reynsluheim flóttafólks og innflytjenda. Námskeiðið felst í sjálfboðastarfi hjá Rauða krossinum við stuðning við flóttafólk og innflytjendur í takt við þær þarfir sem eru til staðar. Í því getur falist tungumálaþjálfun, samvera, sálrænn stuðningur, aðstoð við nám og upplýsingagjöf svo fátt eitt sé nefnt. Öllum sjálfboðaliðum er veitt fræðsla um málefni og aðstæður flóttafólks og um það hvernig nálgast skal starfið. Einnig eru allir sjálfboðaliðar þjálfaðir í sálrænum stuðningi.
Vettvangsvika að hausti
Nemar fara í skólaheimsóknir og kynna sér skólastarf. Vettvangsvikan tengist ákveðnum námskeiðum á haustmisseri.
Námskrár og áætlanagerð
Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í námskrárhugtakið og þróun hugmynda um námskrár í sögulegu samhengi. Ýmis hugtök sem lúta að markmiðssetningu fyrir nám og kennslu verða krufin til mergjar og meginhugtök sem tengjast kennsluaðferðum og námsmati kynnt. Í því sambandi verður athyglinni meðal annars beint að skilgreindum grunnþáttum menntunar og hlutverki þeirra sem leiðarstefs við áætlanagerð fyrir nám og kennslu. Lögð verður áhersla á umfjöllun um gildi og mikilvægi faglegra vinnubragða við áætlanagerð og að nemendur fái þjálfun í að tileinka sér slík vinnubrögð. Í námskeiðinu vinna nemendur að ýmsum verkefnum sem tengjast ofangreindum þáttum, þ. á m. verkefni sem tengt er tveggja daga vettvangsnámi í skóla.
Grenndarkennsla
Farið er yfir helstu hugtök og aðferðir í grenndarfræði svo nemandinn geti fléttað vinnu með næsta nágrenni skóla inn í nám og kennslu í öllum aldurshópum og námssviðum. Meðal mikilvægra efnisþátta eru náttúra og lífríki Íslands, útikennsla og svæðisbundin menning, safnkennsla, landakort og kortagerð. Í námskeiðinu vinna nemendur fjölþætt verkefni, meðal annars á vettvangi.
Íslenskar bókmenntir
Námskeiðið snýst um íslenskar bókmenntir og bókmenntakennslu. Fjallað er um íslenskar bókmenntir í sögu og samtíð, tengsl bókmennta og samfélags, og skoðað hvernig bókmenntir opna leið inn í önnur samfélög og tímabil. Nemendur fá þjálfun í að greina, túlka og tjá sig um bókmenntir og þar með tækifæri til að efla sig sem sjálfstæða lesendur. Rætt er um margþætt gildi bókmennta fyrir einstaklinga og í skólastarfi og leiðir til að efla áhuga nemenda á bóklestri. Rýnt er í aðalnámskrá og kynntar og reyndar fjölbreyttar leiðir til að kenna bókmenntir.
Stærðfræði og stærðfræðikennsla
Námskeiðinu er ætlað að auka færni nemenda í stærðfræði sem og að auka færni þeirra til að kenna stærðfræði í grunnskóla. Í námskeiðinu er áhersla lögð á fjölbreyttar leiðir við framsetningu undirstöðuatriða í stærðfræði á grunnskólastigi, svo sem: sætiskerfi, mengi, grunnreikniaðgerðir (samlagning, frádráttur, margföldun og deiling) og eiginleikar þeirra í mengjum náttúrulegra talna, heiltalna og ræðra talna, líkön og reiknirit fyrir grunnreikniaðgerðir með bæði heiltölum og brotum, valin atriði úr talnafræði, tugabrot og mengi rauntalna, rúmfræði í kartesísku hnitakerfi, algebrulegar stæður, jöfnur, föll og tengsl við hnitarúmfræði, rúmfræði á tvívíðum fleti og í þrívíðu rúmi, lengd, flatarmál og rúmmál, færslur og samsnið. Í námskeiðinu kynnast nemendur hlutverki kennarans við að stuðla að skilningi nemenda á stærðfræðilegum hugtökum og vinna verkefni á vettvangi þar sem þeir kynna sér stærðfræðihluta aðalnámskrár grunnskóla.
Málþroski og bernskulæsi
Námskeiðið skiptist í tvo nátengda meginþætti. Annars vegar er um að ræða kenningar um máltöku, rannsóknir á málþroska, þróun máls og tvítyngi hjá 0–6 ára börnum. Hins vegar bernskulæsi sem m.a. felur í sér skilning, hljóðkerfisvitund, bókstafaþekkingu og þróun ritmáls. Áhersla er lögð á barnabókmenntir, leik og samskipti sem námsleiðir við töku máls og læsis. Lögð er áhersla á mikilvægi samstarfs við foreldra í tengslum við málörvun og matsleiðir kynntar. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi þar sem þeir gera athuganir á mál- og læsisþekkingu barna.
Vísindasmiðja
Viðfangsefni þessa námskeiðs eru tengsl náttúruvísinda, stærðfræði og skapandi starfs (STEAM). Fjallað er um hvernig nota má athafnakosti á borð við einingakubba til að styrkja bæði stærðfræði og skapandi þætti starfsins og tengja nálægu umhverfi. Kenningar um hugmyndir barna um stærðfræði eru kynntar. Farið er í ýmis hugtök eðlisfræðinnar og hvernig hægt er að vinna með þau með yngri börnum. Möguleikum endurnýtanlegs efniviðar í skólastarfi er gefinn sérstakur gaumur. Jafnframt eru tengsl tækni og skapandi starfs skoðuð og farið er í hvernig tölvan og tölvuforrit geta nýst sem hluti af skapandi starfi. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.
Náttúruvísinda- og stærðfræðikennsla yngri barna
Námskeiðinu er ætlað að gefa nemendum innsýn í kennslu og vinnu í náttúruvísindum og stærðfræði á yngsta stigi grunnskóla og með eldri börnum leikskóla. Viðfangsefni miðast við aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Skoðað verður samhengi kennslu og kenninga um náttúruvísinda- og stærðfræðinám og fjallað um kennsluhætti og námsaðstæður ungra nemenda. Nemendur kynnast verklegum tilraunum, gera sjálfir áætlanir um verklega kennslu og vinnu og kynna þær samnemendum sínum. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.
Barnið í samfélaginu
Í námskeiðinu er viðfangsefnið bernskan sem sérstakt skeið, með áherslu á heildarsýn á börn og málefni barna. Fjallað er um bernskuna í sögulegu samhengi og frá nútíma sjónarhorni. Varpað er ljósi á hvernig mismunandi fræðigreinar hafa í gegnum tíðina beint sjónum sínum að börnum og mótað viðhorf og sýn á barnið í samfélaginu. Bernskan er skoðuð með tilliti til mismunandi menningarheima, lýðræðis og mannréttinda (barnasáttmálar) út frá hugmyndum um það sem er sammannlegt og hins sem er tengt menningu. Unnið er með samtímaumfjöllun um málefni barna í fjölmiðlum og dægurmenningunni en einnig í stefnum og lögum.
Vettvangsvika að vori
Nemar fara í skólaheimsóknir og kynna sér skólastarf. Vettvangsvikan tengist ákveðnum námskeiðum á vormisseri.
Barna- og unglingabókmenntir
Í námskeiðinu verður rætt um barna- og unglingabækur, sögulega þróun þeirra og fræðilegar rannsóknir á þeim. Fjallað verður um flokkun og inntak barnabóka og aðferðir til greiningar á þeim; litið verður á atriði á borð við frásagnarhátt, sjónarhorn, ávarp og persónusköpun. Rætt verður um gagnsemi barna- og unglingabóka í skólastarfi og hvernig auka megi lestraráhuga barna og unglinga.
Íslenska fyrir kennara
Námskeiðið fjallar um íslenskt mál og málnotkun í víðu samhengi. Fjallað um hvað eigi að kenna í íslensku og hvernig eigi að kenna. Þá verður ítarlega fjallað um mannlegt mál sem samskiptatæki og eðli þess og ýmis blæbrigði, út frá t.d. kyni, aldri og búsetu, skoðuð. Íslensk málpólitík verður einnig til umfjöllunar og þar hugað sérstaklega að birtingarmyndum hennar í skólakerfinu. Þá verður töluvert rætt um málfræði og málfræðikennslu sérstaklega þar sem áherslur aðalnámskrá verða hafðar til hliðsjónar.
Kennsla, námsumhverfi og námsefni
Í námskeiðinu er sjónum beint að þeim þætti í skipulagi náms og kennslu sem snýr að náms- og kennsluumhverfi. Í því sambandi er fjallað um skipulag náms- og kennslurýmis, námsefni og náms- og kennslugögn, en einnig aðra þætti sem eiga þátt í að móta námsumhverfið, s.s. samskipti og það hvernig umræðu- og spurningatækni er nýtt í starfi með nemendum. Horft er á þróun námsefnis í sögulegu ljósi, fjallað um námsefnisgerð og mat á námsefni og áhersla í því efni lögð á að nemendur fáist við viðfangsefni sem leggja góðan grunn að færni í framsetningu og mati á námsefni. Í námskeiðinu vinna nemendur að ýmsum verkefnum sem tengjast ofangreindum þáttum, þ. á m. verkefni sem tengt er tveggja daga vettvangsnámi í skóla.
Samskipti, samtalstækni og foreldrasamstarf
Í námskeiðinu er fjallað um samskipti og samstarf grunnskóla og foreldra. Kynntar eru rannsóknir og kenningar þar sem sjónum er beint að samskiptum, samtalstækni og foreldrasamstarfi. Fjallað er um þýðingu foreldrasamstarfs fyrir líðan og árangur nemenda og í því sambandi er sjónum m.a. beint að heimanámi. Kynntar eru leiðir til að skipuleggja foreldrasamstarf og fjallað er um miðlun upplýsinga og skipulag og stjórnun foreldrasamtala.
Byrjendalestur
Í námskeiðinu verður fjallað um mál og læsi ungra nemenda. Skoðaðar verða rannsóknir og kenningar um þróun máls og kynntar leiðir til að leggja mat á stöðu og málþróun ungra nemenda. Í námskeiðinu byggja nemar upp þekkingu sína á lestri og læsi. Fjallað verður um rannsóknir og kenningar er varða læsi, rætt um lestrarþróun og kynntar ólíkar leiðir í kennslu lesturs og ritunar. Kynntar verða leiðir til að greina hvernig nemendum gengur að tileinka sér ritmálið og rætt um viðbrögð við ólíkum námsþörfum nemenda. Áhersla verður lögð á gerð kennsluáætlana og rætt um mikilvægi samstarfs við foreldra í tengslum við mál- og lestrarnám. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.
Leikur, kenningar og leikþroski
Í námskeiðinu er fjallað um sögulegan bakgrunn leiksins og hugmyndir og viðhorf til hans. Kafað er í helstu kenningar um leik og leikþroska með áherslu á mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar barna. Farið er í birtingarmyndir leiks og leikgerðir, sem og kenningar um áhrif leiks á þroska barna . Einnig er viðfangsefnið hvernig leikur endurspeglar reynsluheim barna, þann menningarheim og það samfélag sem þau búa í. Hugað er að gildi vináttu í leik og leikþroska barna og hvernig samskipti geta verið bæði jákvæð og neikvæð (s.s. einelti). Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.
Leikskólinn og foreldrar
Í námskeiðinu er fjallað um samstarf leikskóla og foreldra. Kynntar eru rannsóknir, aðferðir og þróunarverkefni um fjölbreyttar leiðir til samstarfs, m.a. þegar upp koma mál tengd þroska, námi, líðan eða hegðun innan skóla og utan. Áhersla er lögð á miðlun upplýsinga, skipulag og stjórnun foreldrasamtala og aðferðir virkrar hlustunar. Farið er yfir hugmyndafræði og rannsóknir á bak við aðlögun barna og fjölskyldna þeirra að leikskóla, meðal annars út frá kenningum en einnig út frá hagnýtum þáttum, svo sem skipulagningu og undirbúningi. Að lokum er viðfangsefnið samstarf leik- og grunnskóla með áherslu á flutning barna á milli skólastiga.
Sköpun í leikskóla
Í námskeiðinu munu nemendur byggja upp þekkingu sína á skapandi starfi með ungum börnum, sköpunarferli, tjáningu og námi sem á sér stað þegar hugmyndir, tilfinningar og ímyndun ungra barna fá að njóta sín. Í námskeiðinu fá nemendur þjálfun í að vinna á skapandi hátt með börnum að myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu, auk þess sem þeir læra að tengja skapandi vinnu fjölbreyttum viðfangsefnum, s.s. sjálfbærni, menningu, tækni og vísindum. Jafnframt verður lögð áhersla á að nemendur kynnist helstu kenningum um gildi listuppeldis fyrir ung börn.
Tjáning, túlkun og raddbeiting
Í námskeiðinu læra nemendur um helstu atriði tjáningar í víðu samhengi. Fjallað verður annars vegar um framburð og framsögn, og hins vegar líffræði raddarinnar, raddbeitingu og hvernig kennarar geta verndað röddina. Lögð verður áhersla á að nemendur fái tækifæri til að efla eigið næmi, hugmyndaflug og sköpunargáfu með því að byggja upp færni í tjáningu og túlkun. Nemendur læri um tjáningarmöguleika raddar og líkama til að tjá og túlka líðan og tilfinningar með leikrænni framsetningu. Námskeiðinu er ætlað að leysa ímyndunaraflið úr læðingi og þjálfa hæfni nemenda til skapandi tjáningar og frumkvæðis.
Tölvur, myndlist og kennsla
Megininntak námskeiðsins er að leggja grunn að notkun tölvu- og upplýsingatækni í myndlist og kennslu. Unnið er með grunnþætti í sameiginlegum hluta aðalnámskrár; sköpun en einnig afmarkaða þætti læsis (myndlæsi, upplýsinga- og tæknilæsi), og hvernig vinna má með þá í skólastarfi. Viðfangsefni námskeiðsins tengjast námsumhverfi og verkefnagerð fyrir kennslu. Unnið er með, mismunandi forrit við gerð kyrr- og hreyfimynda, möguleikar snjalltækni (s.s. síma eða spjaldtölva) eru kynntir og hugað er að samþættingu snjalltækni við myndlist og skapandi skólastarf. Kennsla og viðfangsefni eru einstaklingsbundin og tengd sérhæfingu nema.
Náttúruvísindanám og kennsla í grunnskólum
Í námskeiðinu er fjallað um náttúrugreinar í grunnskólum og kennslu þeirra með áherslu á mið- og unglingastig. Farið er yfir ýmis grunnatriði náttúruvísinda og fjallað um helstu viðfangsefni náttúrugreina. Unnið verður með grundvallarhugtök eins og vatn, loft , lotukerfið, efnahvörf, krafta, hreyfingu, orku, rafmagn, þróun, erfðir og uppbyggingu mannslíkamans. Áhersla er lögð á vísindaleg vinnubrögð og efnistök sem nýtast munu grunnskólakennurum í starfi, í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla í náttúrugreinum. Verklag miðar að því að kennaranemar kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum sem reynst hafa árangursríkar í náttúrufræði kennslu. Aðalnámskráin er kynnt ásamt námsefni og nemendur vinna verkefni á vettvangi.
Tónlist og tónlistaruppeldi
Meginviðfangsefni námskeiðsins lúta að tónlist og uppeldisfræði tónlistar. Annars vegar er fengist við fræðilegar kenningar um tónlistarþroska barna og aðferðir og efni sem beita má til að auka tónlistarfærni barna á mismunandi aldri, og hins vegar viðfangsefni sem ætlað er að efla tónlistarfærni nemenda námskeiðsins og örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu í tónlist. Fjallað er um stefnur og strauma í tónlistaruppeldi. Sjónum er beint að margskonar tónlistarformum, efni og tækjum, einkum þó „skólahljóðfærum“ og röddinni, í því skyni að skoða eðli þeirra og eiginleika til tónlistarsköpunar og flutnings.
Samfélagsnám hjá Rauða krossinum
Í þessu námskeiði fá nemendur tækifæri til samfélagsnáms á sviði sem tengist einu eða fleiri námskeiðum B.Ed.-náms. Þetta vettvangsnám er frábrugðið hefðbundnu starfsnámi að því leyti að í stað þess að nemandi hljóti formlega þjálfun á vettvangi skóla eins og í öðru starfsnámi Kennaradeildar, felur námskeiðið í sér að nemendur leggi af mörkum til samfélagsins með það fyrir augum að öðlast aukna samfélagslega ábyrgð og kunnáttu og innsýn í líf og reynsluheim flóttafólks og innflytjenda. Námskeiðið felst í sjálfboðastarfi hjá Rauða krossinum við stuðning við flóttafólk og innflytjendur í takt við þær þarfir sem eru til staðar. Í því getur falist tungumálaþjálfun, samvera, sálrænn stuðningur, aðstoð við nám og upplýsingagjöf svo fátt eitt sé nefnt. Öllum sjálfboðaliðum er veitt fræðsla um málefni og aðstæður flóttafólks og um það hvernig nálgast skal starfið. Einnig eru allir sjálfboðaliðar þjálfaðir í sálrænum stuðningi.
Íslenska
Í námskeiðinu er fjallað um þá íslensku málfræði sem kemur við sögu í efri bekkjum grunnskólans og á framhaldsskólastigi. Farið verður yfir það námsefni sem þar er stuðst við í kennslu og rýnt í þau málfræðihugtök sem þar eru til umfjöllunar, svo sem innan beygingarfræði, setningafræði og merkingarfræði. Kynntar eru helstu aðferðir sem beita má við málfræðikennslu á efri stigum skólakerfisins.
Enska
Í námskeiðinu er fjallað um breytta stöðu ensku á Íslandi og hvernig skólakerfið þarf að bregðast við þeirri stöðu. Nokkur áhersla er lögð á enska málfræði og málnotkun auk þess sem farið er yfir meginatriði hljóðfræði með sérstakri vísan til framburðarvandamála sem rekja má til mismunar á hljóðkerfum ensku og íslensku . Veitt er leiðsögn í kennslufræði ensku með skírskotun til nemenda á grunnskólastigi. Leitast er við að tengja námið því sem fram fer í kennslustofunni með dæmum úr kennslu. Þá er fjallað um námsáætlanir og námsmat í ensku.
Leikur sem kennsluaðferð
Í námskeiðinu er lögð áhersla á leikinn sem kennsluaðferð, hvað það felur í sér og hvernig hægt er að vinna með og stuðla að leik í daglegu leikskólastarfi. Fjallað er um dagskipulag með leikinn að leiðarljósi og skipulag og áhrif leikumhverfis á leik og nám barna. Leik- og námsumhverfi í leikskóla er skoðað út frá aðalnámskrá og þroskaþáttum með áherslu á vitrænan þroska og félagsþroska en einnig út frá aldri barna og félagslegum þáttum s.s. kyni. Kafað er í hlutverk kennara og skoðað hvernig val á efnivið og kennslugögnum hefur áhrif á námsumhverfi. Farið er yfir helstu stefnur og aðferðir leikskóla. Unnin er greinandi vinna er varðar leik, í gegnum skráningar og mat.
Sjálfbærni og umhverfismennt
Í námskeiðinu er gengið út frá þremur stoðum sjálfbærrar þróunar sem eru efnahagur, samfélag og umhverfi. Farið verður yfir opinbera stefnu á þessum sviðum svo og stefnu og markmið Sameinuðu. Sérstök áhersla er lögð á samfélagslega stoð sjálfbærni og leiðir til að efla getu barna til að hafa áhrif á umhverfi og samfélag með framtíðarhagsmuni að leiðarljósi. Skapandi nálgun og kennsluhættir leikskóla eru hafðir að leiðarljósi. Fjallað er um leiðir sem kennarar geta nýtt til að skoða starf og starfshætti. Sérstök áhersla er á hvernig hægt er að endurnýta ýmsan efnivið.
Vettvangsnám og æfingakennsla
Í námskeiðinu starfa nemendur í leik- eða grunnskóla undir leiðsögn leik- eða grunnskólakennara einn dag í viku 5–6 tíma í senn í 10 vikur. Námið á vettvangi beinist að meginhluta til að tengslum fræða og starfs, starfi og samskiptum í kennslurými, barninu/nemandanum sem einstaklingi, áætlanagerð og mati á árangri. Námskeiðið er sambland af aðstoðarkennslu og æfingakennslu. Í upphafi námskeiðs skilar nemi til HA vinnu- og samskiptaáætlun um starfið á vettvangi sem hann vann með leiðsagnarkennara sínum. Jafnframt skulu nemar vinna að úrlausn viðfangsefna sem umsjónarkennari námskeiðsins leggur fyrir.
B.Ed. Ritgerð
Fræðileg ritgerð til fullnaðar fyrstu námsgráðu í kennaraskor. Viðfangsefnið er verkefni sem tengist kjörsviði og/eða stigskjarna nemanda og hann vinnur undir handleiðslu leiðsögukennara. Í verkefninu er leitast við að sameina fræðilegt og hagnýtt gildi. Lögð er áhersla á að nemandinn dýpki fræðilega þekkingu sína og skilning á því sviði sem verkefni hans tekur til og að hann þjálfist í faglegum vinnubrögðum við að beita þekkingu sinni og skilningi við útfærslu á viðfangsefninu.
Ritun og skapandi skrif
Námskeiðið snýst um íslenskt ritmál og skapandi hugsun. Nemendur fá þjálfun í að semja og skrifa texta af ýmsum toga, svo sem sögur, ljóð og nytjatexta. Farið er í hugtök sem tengjast skáldskap, svo sem efnisval, sjónarhorn, byggingu, bragfræði og stílbrögð. Námskeiðið byggist á verklegum æfingum og virkri þátttöku. Nemendur þjálfast í ritun, upplestri, textarýni og leiðsögn þar sem jafningjamat er veigamikill þáttur í námskeiðinu.
Landafræði og saga
Landafræði og saga eru náskyldar greinar. Landafræðin fjallar um rúmið en sagan um tímann. Í námskeiðinu er farið yfir valda þætti úr almennri mannkynssögu tuttugustu aldar til samtímans og mikilvæg viðfangsefni er varða víxlverkun manns og náttúru, og hugað er að ýmsum grundvallaratriðum í mannvistarlandafræði sama tímabils. Skýrar tengingar eru við námsmarkmið og námsefni fyrir miðstig og elsta stig grunnskóla.
Kennslufræði tungumála
Í námskeiðinu verður fjallað um sögu tungumálakennslu og greint frá helstu kennsluaðferðum nútímans. Kennslufræði tungumála verður einnig sett í samhengi við almenn málvísindi og sérstakur greinarmunur gerður á máltöku annars vegar og tungumálanámi hins vegar, auk þess sem rætt verður um tengsl móðurmáls við það tungumál sem numið er. Fjallað verður sérstaklega um grundvallatriði almennrar hljóðfræði og nýtingu þeirra í framburðarkennslu. Áhersla verður lögð á íslensku sem annað tungumál. Þá fá nemendur leiðsögn í hvernig velja skal námsefni sem hentar mismunandi nemendahópum og er bent á leiðir til að viðhalda og bæta við fræðilega þekkingu sína.
Athuganir í leikskóla
Í námskeiðinu er fjallað á fræðilegan og hagnýtan hátt um athuganir í leikskólastarfi t.d. vettvangsathuganir, atviksskráningar, dagbækur og tékklista. Áhersla er lögð á athuganir á leik barns og barnahópa, áhugasvið barna og alhliðaþroska, s.s. félagsþroska og félagsvitund, tilfinningaþroska, líkams- og hreyfiþroska, málþroska og læsi, vitsmunaþroska, siðferðisþroska og siðferðisvitund, fagurþorska og sköpunarhæfni. Einnig á hvernig athuganir geta nýst til að þróa hvetjandi námsumhverfi.
Rýnt er í tilgang athugana, siðferðileg atriðið tengd athugunum og börnum, og tækni við framkvæmd athugana s.s. leiðir við gagnaöflun, úrvinnslu ganga, greiningu gagna og hvernig halda má utan um safn athugana í verkefna- og/eða ferilmöppum.
Kynntar eru þrjár helstu heildstæðu aðferðir við markvissa söfnun athugana; Uppeldisfræðilega skráningu, Námssögur og Mósaíkaðferðina og hvernig má nota þær sem leið að snemmtækri íhlutun og námsmati með áherslu á þátttöku barna.
Stjórnun í leikskóla
Í námskeiðinu er lögð áhersla á stjórnunarþátt deildarstjóra í leikskóla og ábyrgð þeirra við að byggja upp gagnkvæmt traust og öryggi. Hugað er að starfsumhverfi, skipulagi starfs og samskipta og fjallað um boðskipti, deilustjórnun og ákvarðanatöku, teymisvinnu og starfsánægju. Helstu kenningar um stjórnun og menningu skóla verða kynntar, fjallað er um áhrif breytinga ásamt því sem skoðuð eru lög, reglugerðir og siðareglur sem snúa að skólastarfinu.