Nám fyrir þau sem eru í viðskiptafræði eða sjávarútvegsfræði og vilja bæta við sig gráðu í annarri hvorri greininni. Þú útskrifast þá með tvær háskólagráður.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á markaðsmálum?
  • Hefur þú áhuga á fjármálum?
  • Viltu læra um fullnýtingu afurða?
  • Hefur þú áhuga á stjórnun?
  • Langar þig í alþjóðleg viðskipti eða kannski á þing?
  • Vilt þú geta valið um störf hvar sem er í heiminum?
  • Hefur þú áhuga á íslenskum fiskistofnum?

Áherslur námsins

Í viðskiptafræði og sjávarútvegsfræði er lögð áhersla á helstu greinar fræðasviðanna.

Þú lærir að búa til viðskipta-, markaðs- og kynningaráætlanir. Jafnframt aflar þú þér þekkingar á helstu veiði- og vinnsluaðferðum, um íslenskan sjávarútveg og alþjóðlegar fiskveiðar. Þú vinnur einstaklings- og hópverkefni í nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Þú lærir gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans:

Möguleikar að námi loknu

Viðskiptafræði er víðtækt nám og opnar margar dyr fyrir nemendum. Það sama má segja um sjávarútvegsfræði.

Starfsvettvangur er meðal annars hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum, fjármálafyrirtækjum og fleirum.

Menntunin nýtist einnig þeim sem reka eigið fyrirtæki eða stefna á starfsvettvang erlendis.

Námið er góður grunnur fyrir þá sem fara í framhaldsnám, bæði hérlendis og erlendis.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Reki er félag viðskiptafræðinema og Stafnbúi er félag nemenda við auðlindadeild.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla, eða hafi útskrifast úr verk- og raunvísindadeild frá Háskólabrú Keilis. Gerð er krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Nám í viðskipta- og sjávarútvegsfræði er að hluta raungreinanám með líffræði, efnafræði og stærðfræði sem kjarnanámskeið. Hafi umsækjandi ekki lokið einingum í raungreinum á framhaldsskólastigi er mælst til þess að taka undirbúningsnámskeið í efnafræði og stærðfræði. Símenntun HA býður upp á slík námskeið í lok ágúst

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Háskólinn á Akureyri má aðeins innrita lítinn fjölda stúdenta sem uppfylla ekki almenn inntökuskilyrði. Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Til að undanþága sé veitt skal umsækjandi hafa náð 25 ára aldri og lokið meira en 90 einingum (130 fein) af framhaldsskólastigi. Einnig styrkir umsókn að hafa starfsreynslu sem tengist náminu.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að skiptir litlu máli hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt frábært að fá tækifæri til að hitta þig í háskólanum.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verklega vinnu, verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Að geta bætt við sig einu ári og útskrifast sem sjávarútvegs- og viðskiptafræðingur er magnað! Það opnar ekki bara fleiri möguleika í áframhaldandi nám heldur er það einnig góður undirbúningur fyrir það sem koma skal í atvinnulífinu.

Þórhildur Sigurðardóttir
Fjármálasvið Samherja