Námslínan verður ekki í boði skólaárið 2020-2021.

Diplómanám í náttúru- og auðlindafræði er fyrir þá sem hafa áhuga á náttúru- og lífvísindum.

Lagður er grunnur að frekara námi í líftækni og sjávarútvegsfræðum við HA. Námið er einnig góð undirstaða fyrir almennt raunvísindanám, svo sem líffræðinám, fiskeldisnám og fleira.

Námið er áhugavert fyrir kennara sem vilja dýpka þekkingu sína í náttúru- og auðlindafræðum.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú áhuga sjálfbærri þróun?
  • Er nýsköpun eitthvað fyrir þig?
  • Veist þú hvað endurnýjanleg auðlind er?
  • Þarft þú frest til þess að ákveða hvort þú viljir leggja áherslu á líftækni, sjávarútvegsfræði eða aðrar greinar lífvísinda?
  • Liggja raunvísindagreinar vel fyrir þér?

Áherslur námsins

Námið í náttúru- og lífvísindum byggir á langri reynslu Háskólans á Akureyri á þessu sviði.

Þú kynnist helstu kenningum og aðferðafræði náttúruvísinda. Boðið er upp á tvö áherslusvið: náttúruvísindagrunn og auðlindagrunn.

Lögð er áhersla á vísindaleg vinnubrögð með verklegum æfingum, vettvangsferðum og spennandi verkefnum.

Þú velur hvort þú vilt vera staðar- eða fjarnemi – allt námið er öllum aðgengilegt.

Nemendur hafa gott aðgengi að kennurum. Fjarnemar koma tvisvar sinnum í eina viku í senn til Akureyrar á hverju misseri til þess að gera tilraunir og sækja verklega tíma.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Diplómanámið eykur þekkingu í náttúruvísindum og auðlindafræðum. Námsgráðan veitir ekki starfsréttindi.

Diplómagráða veitir tækifæri til þess að halda áfram eitt námsár og klára BS-nám í líftækni eða sjávarútvegsfræði við HA. Námið nýtist einnig sem grunnur í raunvísindanámi við aðra háskóla.

Þú getur kennt á sérsviði náttúru- og auðlindafræða ef þú hefur kennsluréttindi af menntavísindasviði.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Stafnbúi er félag auðlindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar þurfa koma tvisvar sinnum á misseri í eina viku til Akureyrar. Þá eru gerðar tilraunir á rannsóknastofu og farið í aðra verklega tíma. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Námið er hugsað fyrir þá sem vilja læra náttúru- og lífvísindi en hafa ekki gert upp hug sinn hvert skal stefna. Þeir sem vilja halda áfram við HA geta þá valið líftækni eða sjávarútvegsfræði. Kjósi nemandinn svo getur hann horfið til náms við aðra háskóla með gott veganesti. Þá getur námið verið áhugaverður kostur fyrir kennara sem vilja dýpka þekkingu.

Jóhann Örlygsson
deildarformaður auðlindadeildar