Skipulag náms fyrir nýnema
Inngangur að fjölmiðlafræði
Í námskeiðinu er farið almennt yfir sögu fjölmiðlunar, allt frá dögum prentvélar Gútenbergs til samfélagsmiðla samtímans. Fjallað er um hvaða hlutverki hinir mismunandi fjölmiðlar gegna í samfélaginu en einnig eru helstu kenningar fjölmiðlafræðinnar kynntar stuttlega með tilliti til þeirra áhrifa sem fjölmiðlar hafa og notkunar fólks á þeim. Sérstök áhersla er lögð á miðlalæsi.
Inngangur að félagsvísindum
Farið er yfir sögu félagsvísinda og helstu viðfangsefnum þeirra lýst í hnotskurn. Lögð verður áhersla á helstu kenningar sem liggja félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði til grundvallar og viðurkenndar aðferðir við öflun þekkingar innan þeirra greina. Sérstaklega verður fjallað um samband einstaklings og samfélags, eðli samfélagsreglu og orsakir átaka og breytinga.
Vinnulag í hug- og félagsvísindum
Námskeiðið leggur grunn að háskólanámi með því að þjálfa nemendur í fræðilegum vinnubrögðum. Í námskeiðinu er farið ítarlega í notkun heimilda, s.s. rafræna heimildaleit, tilvísun í heimildir og heimildaskráningu. Áhersla er lögð á ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Nemendur eru þjálfaðir í skrifum, gagnrýni, rökstuðningi, uppsetningu og frágangi ritgerða.
Rannsóknaraðferðir í hug- og félagsvísindum
Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði í aðferðafræði hug- og félagsvísinda. Að loknu námskeiði ættu nemendur að geta gert grein fyrir helstu rannsóknaraðferðum. Fjallað er um rannsóknarsnið, gagnaöflunaraðferðir, úrtök og önnur hugtök aðferðafræðinnar. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir mismunandi aðferða í hug- og félagsvísindum með hliðsjón af ólíkum markmiðum rannsókna. Hluti kennslunnar fer þannig fram að gestakennarar kynna rannsóknir sínar fyrir nemendum, með áherslu á aðferðafræðiþáttinn.
Iðnbylting og hnattvæðing
Fjallað er um þær efnislegu umbreytingar sem urðu á Vesturlöndum, einkum frá 18. öld og fram til okkar daga. Hugað verður sérstaklega að nokkrum lykilbreytingum, þar á meðal að iðnvæðingunni, upphafi og endalokum nýlendukerfisins, og hnattvæðingunni, jafnframt því sem innbyrðis tengsl þessara þróunarferla verða skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem áttu sér stað á Íslandi á 19. og 20. öld og tengsl þeirra við samskonar breytingar á öðrum stöðum í heiminum.
Afbrot og frávik
Fjallað verður um helstu tegundir afbrota og frávika og kenningar á sviði afbrotafræði og félagsfræði frávika. Sérstaklega verður fjallað um hlutverk lögreglu og löggæslu í samfélaginu. Mismunandi skilgreiningar á eðli og afleiðingum slíkra vandamála verða ræddar í sögulegu ljósi og athyglinni beint að áhrifum margvíslegra hagsmuna á setningu og framkvæmd laga.
Kenningar í félagsvísindum
Í þessu námskeiði kynnast nemendur nokkrum helstu kenningarsmiðum félagsvísindanna. Námskeiðið hefst á umfjöllun um frumkvöðla félagsfræðinnar og helstu kenningarskóla en mun svo færast yfir í nútímakenningar. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist dýpri skilning á hugtökum sem kynnt eru í inngangi að félagsvísindum.
Tölfræðileg greining
Námskeiðið er inngangsámskeið í tölfræði, ætlað sem undirbúningur fyrir frekara nám í tölfræði og aðferðafræði rannsókna. Efnistök spanna undirstöðuatriði frá Fjallað er um þær efnislegu umbreytingar sem urðu á Vesturlöndum, einkum frá 18. öld og fram til okkar daga. Hugað verður sérstaklega að nokkrum lykilbreytingum, þar á meðal að iðnvæðingunni, upphafi og endalokum nýlendukerfisins, og hnattvæðingunni, jafnframt því sem innbyrðis tengsl þessara þróunarferla verða skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem áttu sér stað á Íslandi á 19. og 20. öld og tengsl þeirra við samskonar breytingar á öðrum stöðum í heiminum.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir
Viðfangsefni þessa námskeiðs er eigindlegar rannsóknaraðferðir innan mannvísinda með áherslu á félagsvísindagreinar. Nemendur kynnast sögu, markmiðum og kenningarlegum forsendum eigindlegra rannsóknaraðferða og öðlast þekkingu á ýmsum vandamálum og álitamálum sem þeim tengjast. Nemendur læra til verka m.t.t. etnógrafískrar þátttökuathuganar, vettvangslýsingar, ólíkra viðtalsaðferða, rýnihópsaðferðar, sjálfskoðunar, samvinnurannsókna, aðgerðamiðaðra nytjarannsókna, tákn-, orðræðu- og hugtakagreiningar, minnis-, sagnaritunar og frásagnagreiningar, og eigindlegra samanburðarrannsókna.
Hugmyndafræði og saga nútímans
Fjallað er um (a) mikilvægustu atburði 20. og 21. aldar, sérstaklega í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku; (b) þær grundvallarkenningar og stefnur í samfélags- og stjórnmálum sem komu fram í þessum atburðum; (c) helstu þætti í efnahagsþróun 20. og 21. aldar; (d) valda fulltrúa aldanna meðal þeirra einstaklinga og hópa sem þar gegndu mikilvægu hlutverki; (e) grundvallarspurningar um gildismat sem atburðir aldanna vekja; og (f) ímyndagerð og áhrif hennar. Lesefni og kvikmyndir eru notaðar til að draga fram mikilvæg þáttaskil og einkenni tímabilsins. Námsefninu er ætlað að varpa ljósi á flókna atburði og draga af þeim ýmsa lærdóma.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Gagnrýnin hugsun
Í námskeiðinu þjálfast nemendur í að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar, einkum úr fjölmiðlum og almennri umræðu. Fjallað er um grunnhugtök rökfræði og muninn á góðum rökum annars vegar og mælskubrögðum og rökvillum hins vegar. Nemendur fræðast um sálræna og félagslega þætti sem hafa áhrif á dómgreind og mat á upplýsingum. Sérstaklega er hugað að tölulegum upplýsingum; tilurð þeirra, notkun og og gildi.
Mannfræðileg greining
Fjallað verður um sögu, aðferðafræði, kenningar og helstu viðfangsefni mannfræðinnar, með áherslu á menningarmannfræði. Nemendur munu lesa og kryfja fræðilegt efni á flestum sviðum menningarmannfræði og taka þátt í umræðum um rannsóknir á ólíkum en samþáttuðum menningarheimum samtímans og fortíðar. Jafnframt verða etnógrafískar fræðslumyndir sýndar, ræddar og greindar. Á meðal viðfangsefna verða aðlögun og atvinnuhættir; menning, samfélag og tungumál; menningararfur og menningarerfðir; hagkerfi og dreifingarhættir; stjórnskipan og lagskipting; hnattvæðing; framleiðsluhættir, hugmyndafræði og afstæður þjóðernis og stéttar; kynhlutverk og kyngervi; sifjar, fjölskyldumyndir, heimilishættir, skyldleiki og ættrakning; trúarbrögð, heimsmynd, og táknfræði; og þróunarmálefni og nytjamannfræði.
Einstaklingur og samfélag
Fjallað verður um helstu kenningar félagsfræðinnar um tengsl einstaklings og samfélags og rannsóknir byggðar á þeim. Áhersla verður lögð á kenningar um táknræn samskipti, tengslin milli daglegs lífs einstaklinga og formgerðar samfélagsins og samskipti í litlum hópum. Nemendur fá jafnframt þjálfun í því að kryfja félagsfræðilegar tímaritsgreinar og taka þátt í umræðum um innihald þeirra.
Ályktunartölfræði í félagsvísindum
Kenndar eru nokkrar helstu úrvinnsluaðferðir innan ályktunartölfræði, s.s. fjölbreytugreining, dreifigreining, aðhvarfsgreining, tvíflokka aðhvarfsgreining, þáttagreining og áreiðanleikaprófun á kvörðum. Nemendur eiga að geta leyst úr verkefnum sem þessu tengjast með aðstoð viðeigandi tölfræðiforrita, túlkað niðurstöður og dregið viðeigandi ályktanir.
Félagsgerð og lagskipting
Fjallað verður um helstu kenningar um félagsgerð og lagskiptingu samfélaga og rannsóknir á þróun íslenska þjóðfélagsins á síðari tímum. Sérstök áhersla verður lögð á þróun efnahagslífs, menningar og stjórnmála í alþjóðlegu ljósi. Kynntar verða helstu kenningar og rannsóknir á stéttaskiptingu og annarri lagskiptingu samfélagsins. Þá verður fjallað um þróun þjónustu- og þekkingarhagkerfisins, velferðarríki og markaðsvæðingu og alþjóðavæðingu með sérstakri áherslu á áhrif hnattvæðingar og fjölmenningar á stöðu og framtíð íslensks þjóðfélags. Loks verður fjallað um fjórðu iðnbyltinguna og hugsanleg áhrif hennar á félagsgerð Íslands frá alþjóðlegu sjónarhorni.
Þjóðir og menning á norðurslóðum
Námskeiðið er ítarleg kynning á þjóðum og menningu á norðurslóðum út frá rannsóknum í félagsvísindum, sagnfræði og almennum mannvísindum með sérstakri áherslu á mannfræði. Á meðal viðfangsefna verða atvinnu- og framleiðsluhættir á meðal frumbyggja og annarra íbúa norðursins; iðnvæðing, auðlindanýting og hagþróun; breytingar og stöðuleiki samfélaga og menningar; mannlífsþróun, aðlögunarhæfni og áskoranir örra félagslegra og vistrænna breytinga; auðlindastjórnun og málefni stjórn- og lögskipunar; sjálfstjórn, staðbundin þekking og lífvænleiki samfélaga; og hnattvæðing, ímyndir norðursins og öryggismálefni. Námskeiðið samsvarar og er metið sem BCS 321 í námskrá Háskóla norðurslóða.
Stjórnmálafræðileg greining
Fjallað er um sögu, rannsóknarsvið og aðferðafræði stjórnmálafræðinnar. Áhersla er lögð á vinnubrögð samanburðarstjórnmálafræðinnar og sérstakt mið tekið af Íslandi og Norðurlöndunum. Nemendur kynna sér sérstaklega stjórnkerfi, stefnur eða flokka og skila inn verkefnum þar sem greining á þessu fer fram.
Hagfræðileg greining
Námskeiðið fjallar um viðfangsefni rekstrarhagfræðinnar og þjóðhagfræðinnar. Innan rekstrarhagfræði verður áhersla lögð á greiningu og notkun hugtaka er varða verðmyndun, markaðsgerðir, vinnumarkaði og stéttarfélög, fátækt og tekjuskiptingu. Innan þjóðhagfræði verður áhersla á frammistöðu þjóðarbúskapar, verðbólgu, atvinnuleysi, hagvöxt, þjóðarskuld, peningamálastefnu, fjármálastefna ríkisins, Evrópusambandið, hnattvæðingu og ýmis afmörkuð þróunarhagfræðileg málefni. Fjallað verður sérstaklega um þróun og stöðu íslenska þjóðarbúskaparins og um hagkerfi ýmissa annarra landa.
Gerð rannsóknaráætlana í félagsvísindum
Í þessu námskeiði fá nemendur þjálfun í gerð rannsóknaráætlunar með það að markmiði að undirbúa nemendur undir skrif á BA ritgerð. Farið verður yfir hvernig velja á efni ritgerðar og leiðbeinanda. Nemendur setja fram rannsóknarspurningu og finna bestu aðferðina til að svara þeirri spurningu. Nemendur kynna sér tiltekið rannsóknasvið, finna helstu kenningar og lykilrannsóknir á því sviði og fjalla um þær með gagnrýnum hætti. Í lok námskeiðs skila nemendur rannsóknaráætlun þar sem gerð er tillaga að verkefni til að svara tiltekinni rannsóknaspurningu á viðkomandi sviði. Skyldumæting er í þetta námskeið.
Alþjóðastjórnmál/Alþjóðasamskipti
Fjallað er um grundvallareinkenni alþjóðasamfélagsins, stöðu þjóðríkja innan þess og áhrif fjölþjóðlegra stofnana, samtaka og fyrirtækja. Kynntar eru ólíkar kenningar og stefnur um alþjóðasamskipti og þær skoðaðar í ljósi sögulegrar reynslu af samskiptum ríkja. Sérstaklega er fjallað um samrunaþróunina í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld og hvernig Evrópusamruninn hefur mótað alþjóðasamskipti almennt og einnig tengsl Íslands við umheiminn. Þá er sjónum jafnframt beint að öðrum fjölþjóðlegum stofnunum og samtökum, bæði þeim sem byggja á milliríkjasamstarfi á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, NATO annars vegar og svo frjálsum félagasamtökum og hlutverki þeirra í alþjóðakerfinu og þróunaraðstoð hins vegar.
Réttarfélagsfræði
Réttarfélagsfræði (sociology of law) er kynnt og rætt um tengsl hennar við aðrar fræðigreinar Helstu kenningar réttarfélagsfræðinnar verðar raktar og veitt yfirlit um rannsóknaraðferðir og aðferðafræðileg vandamál við rannsóknir á þessu sviði. Sérkennum trúarlegra, lagalegra og læknisfræðilegra taumhaldsstofnana verður lýst og rakin barátta þeirra um eignarhald á mismunandi tegundum frávika í aldanna rás. Rætt verður um áhrif félagslegra, pólitískra og efnahagslegra hagsmuna á samspil löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds í réttarkerfi samtímans. Rætt verður um ýmsar tegundir afbrota og tengsl þeirra við félagslega þætti og vinsældir mismunandi refsiúrræða á ýmsum söguskeiðum. Rætt verður um lagalega úrlausn deilna í tímans rás og leiðir til að koma á sáttum milli manna og stríðandi fylkinga. Loks verður gerð grein fyrir samspili félagslegra breytinga og réttarkerfisins og nútímavæðingu þess. Fjallað verður sérstaklega um þróunina á Íslandi í því samhengi.
Kynjafræði
Fjallað er um stöðu kynjanna og viðhorf til þeirra frá félagsfræðilegu sjónarhorni. Kynnt verða helstu viðfangsefni kynjafræðinnar um leið og tvö grunnhugtök, kyn (sex) og kyngervi (gender), verða krufin. Fjallað verður um helstu kenningar á sviði kynjafræðinnar og lögð sérstök áhersla á að skoða hvernig ójöfnuður kynjanna birtist innan helstu stofnanna samfélagsins (svo sem fjölmiðla, vinnumarkaðar, fjölskyldu, og heilbrigðiskerfis). Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að skoða samtvinnun kyns og annarra áhrifabreyta svo sem kynþáttar, stéttarstöðu, kynhneigðar, og þjóðernis fólks.
Þróunarhagfræði
Fjallað er um ýmsar kenningar, verkefni og stefnur er varða hagþróun þannig að nemendum sé kleift að greina þau efnahagslegu vandamál sem þróunarlönd og jaðarsvæði standa frammi fyrir. Sérstök áhersla er lögð á þriðja heiminn og norðurslóðir. Hagþróun er skoðuð í alþjóðlegu, ríkisbundnu, svæðisbundnu og byggðarlegu samhengi. Rætt er um nútíma- og hefðbundin hagkerfi, um utankerfisefnahagslíf, um hagkerfisbreytingar og um nýtingu mannauðs.
Inngangur að norðurslóðafræði
Námskeiðið fjallar um þverfaglegar rannsóknir á náttúrulegu umhverfi, mannvist, lífskjörum og þróun lífsgæða á norðurslóðum, en er um leið kynning á arktískum samfélögum og menningu í vistfræðilegu, sögulegu, samtímalegu og hnattrænu samhengi. Á meðal viðfangsefna verða lífríki, náttúra, auðlindir og loftslagsbreytingar; lýðfræði, búferlaflutningar og aðlögun; þróun lífsgæða og lífvænleiki samfélaga; kyngervi og kynjamálefni; heilbrigði og velferð; menntun og menning; hagkerfi og atvinnugreinar; stjórnskipan og lagskipting; arktísk samvinna og alþjóðasamfélagið; sjálfbær þróun, hnattvæðing og loftslagsbreytingar; og frumbyggjamálefni og margvísleg þekkingarkerfi. Námskeiðið er kennt á ensku og samsvarar og er metið sem BCS 100 í námskrá Háskóla norðurslóða.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
B.A. verkefni í félagsvísindum
Nemandinn velur viðfangsefni í samráði við fasta kennara og skrifar um það fræðilega ritgerð undir handleiðslu leiðbeinanda. Ritgerðin á að bera vott um (a) gott vald á máli og framsetningu, (b) sjálfstæð efnistök og frumleika, og (c) staðgóða þekkingu á rannsóknarefninu. Nauðsynlegt er að fá formlegt samþykki fyrir viðfangsefninu og vinna það samkvæmt reglum félagsvísinda- og lagadeildar um lokaverkefni.
Jaðarsettir hópar og félagslegt misrétti
Í þessu námskeiði drögum við upp útlínur félagslegs misréttis og kynnum okkur uppbyggingu þess frá sjónarmiði félagsfræðikenninga og nýlegra rannsókna á menningu, kyn og kyngervi, þjóðerni og kynþætti, stéttum og efnahag. Við skoðum á gagnrýninn hátt hvernig þessir þættir mótast og hvernig þeim er viðhaldið en einnig hvernig þeir fléttast saman og móta þannig líf og reynslu einstaklinga og hópa. Með virkri þátttöku í námskeiðinu munum við ramma inn þekkingu á mótun og aðstæðum jaðarsettra hópa auk mismunandi birtingamyndum félagslegs misréttis og afleiðinga þess.