Námið er nýtt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun. Áhersla er á klínískt nám og skiptist það í tvær námslínur:

  • Heilsugæslu fullorðinna
  • Heilsuvernd bara og unglinga

Námið er samvinnuverkefni HA, HÍ, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) og heilbrigðisstofnana landsins sem sinna heilsugæslu.

Námið veitir prófgráðuna meistarapróf í hjúkrun innan heilsugæslu fullorðinna eða meistarapróf í hjúkrun innan heilsuverndar barna og ungmenna. Prófgráðan er veitt sameiginlega frá HA og HÍ og meistaraprófið veitir möguleika á doktorsnámi.

Er námið fyrir þig?

  • Ertu hjúkrunarfræðingur í heilsugæslu?
  • Viltu efla færni þína við klíníska hjúkrun innan heilsugæslu?
  • Vilu styrkja fagmennsku þína?
  • Viltu styrkja þig sem sjálfstæðan meðferðaraðila?
  • Viltu auka sérfræðiþekkingu þína og leiðtogafærni?

Áherslur námsins

Markmið námsins er að þú öðlist sérfræðiþekkingu í hjúkrun einstaklinga sem leita til heilsugæslu. Áhersla er á sérhæfða hjúkrunarmeðferð allt frá forvörnum til hjúkrunar fólks með fjölþættan heilsufarsvanda. Markmið er að stuðla að eflingu þjónustu og auknu heilbrigði einstaklinga jafnt í þétt- sem dreifbýli. Sérstök áhersla er lögð á sjálfstæði í starfi, lausnarmiðaða nálgun, dýpkun þekkingar og klíníska færni sem meðferðaraðili. Jafnframt að efla fagmennsku og rannsóknarfærni, styrkja hæfni til að leiða meðferð í nýjum þjónustuformum og þverfaglegum teymum, auk þess sem notkun fjarheilbrigðisþjónustu er hluti af náminu. 

Fyrirkomulag námsins

Þetta meistaranám er fyrir hjúkrunarfræðinga sem hafa verið ráðnir í 80% launaða sérnámsstöður innan heilsugæslunnar. Námið er lotubundið og sveigjanlegt, og þú velur sérhæfingu í annaðhvort Heilsugæsla fullorðinna eða Heilsuvernd barna og unglinga.

Sameiginleg námskeið námslínanna eru 84 ETCS einingar. Sérnámsfög eru 18 ECTS og klínískt nám eru 18 ECTS sem fer fram innan heilsugæslunnar undir handleiðslu lærimeistara.

Markmiðið er að greiða leið hjúkrunarfræðinga hvaðanæva af landinu til að stunda meistaranám í heilsugæsluhjúkrun.

Skyldunámskeið námslínunnar eru kennd við HA, HÍ sem og hjá ÞÍH. Valnámskeið eru í boði við báða háskólana.

Skipulag námsins má skoða á Uglu, kennsluvef Háskólans á Akureyri.

Möguleikar að námi loknu

Námið gefur aukinn möguleika á starfsframa innan heilsugæslunnar, og annarra fagstofnunar innan heilbrigðiskerfisins, við kennslu í háskólum eða sjálfstætt starfandi.

Meistarnámið veitir aðgang að undirbúningi fyrir sérfræðiréttindi í hjúkrun.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Hjúkrunarfræðingur sem tekinn er inn í námið þarf að hafa verið ráðinn í 80% sérnámsstöðu við heilbrigðisstofnun og hafa gilt hjúkrunarleyfi á Íslandi. Hann þarf að hafa lokið 240 ECTS BS námi í hjúkrunarfræði með að lágmarki 7. 0 í meðaleinkunn og geta tjáð sig, lesið og skrifað á íslensku.

Við heilsugæsluna / heilbrigðisstofnunina starfi hjúkrunarfræðingur með að minnsta kosti meistarapróf og starfsreynslu innan heilsugæsluhjúkrunar og hefur verið samþykktur af stjórn námsins í stöðu lærimeistara.

Sérnámshjúkrunarfræðingurinn starfar undir handleiðslu lærimeistarans samkvæmt nákvæmu skipulagi klínísku námsskeiðanna.

Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófsskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og staðfesting frá vinnuveitanda um launaða námsstöðu fylgi með umsókn.

Umsagnir

Hér er í boði nýtt nám, þróað sameiginlega af HA, HÍ, ÞÍH og heilbrigðisstofnunum landsins. Nemendur þurfa að hafa verið ráðnir í sérnámsstöðu innan heilbrigðisstofnunar. Námið svarar vaxandi þörf fyrir sérhæfða hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Áherslur er lögð á að efla klíníska færni og að efla hjúkrunarfræðinga sem sjálfstæða meðferðaraðila. Sérstök stjórn er yfir náminu sem hefur fyrst og fremst það verkefni að styðja við hjúkrunfræðingana sem sækja námið.

Sigríður Sía Jónsdóttir
Dósent við HA og formaður stjórnar námsins