Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla.

  • Þú velur á milli eins eða tveggja missera náms
  • Nemendur á heilbrigðisvísindasviði geta tekið hluta klíníska námsins í skiptinámi
  • Í boði eru háskólar í gegnum Erasmus+ og Nordplus
  • Háskólar á norðlægum slóðum í gegnum North2North
  • Háskólar utan Evrópu

Hafðu samband við Miðstöð Alþjóðasamskipta varðandi frekari upplýsingar um nám.

Tímabókun

  • Þú getur bókað fund á bókunarvefnum okkar
  • Við getum hist á skrifstofunni okkar eða í Teams
  • Miðstöð alþjóðasamskipta er staðsett á Sólborg í O115, sjá kort

Bóka fund

Almennt um skiptinám

Hvert er hægt að fara?

Í gagnagrunni yfir samstarfsskóla HA getur þú fengið upplýsingar um þá möguleika sem eru í boði.

Hér finnur þú samstarfsskóla HA

Hvað kostar skiptinámið?

Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA.

  • Þú greiðir fyrir húsnæði, fæði, bókakostnað og annað sem til fellur
  • Gestaskólinn veitir aðstoð við að útvega húsnæðið auk annarrar almennrar aðstoðar
  • Í Erasmus+ og Nordplus er möguleiki á dvalar- og ferðakostaði upp að vissu marki

Hverjir eru kostirnir við að fara í skiptinám?

  • Þú getur fengið námið metið inn í þitt nám við HA
  • Þú eykur færni þína í tungumálakunnáttu
  • Færð reynslu af nýju skólakerfi
  • Lærir að þekkja menningu, siði og venjur annarrar þjóðar
  • Byggir upp fjölþjóðlegt tengslanet
  • Færð reynslu sem nýtist í atvinnulífinu að námi loknu

Hver eru skilyrðin fyrir því að geta farið í skiptinám?

  • Þú þarft að hafa lokið 60 ECTS einingum í viðkomandi námi. Stúdentar í hjúkrunarfræði þurfa að hafa lokið tveimur námsárum.
  • Þú þarft að fara út í fullu samstarfi við þína deild.

Þurfi að velja á milli nemenda sem sótt hafa um sama skóla gilda eftirfarandi reglur:

  1. Gildar umsóknir sem berast fyrir auglýstan umsóknarfrest hafa forgang. Umsókn telst ekki gild fyrr en öll fylgigögn hafa borist.
  2. Meistaranemar njóta forgangs umfram grunnnema nema ákvæði viðkomandi samstarfssamnings kveði á um annað.
  3. Ef umsækjendur eru á sama námsstigi gildir eftirfarandi:
    1. Ef munar minna en 30 ECTS á loknum einingum ráða einkunnayfirlit og árangursröðun úrslitum. Ef einkunnir eru sambærilegar skal varpa hlutkesti milli nemenda í viðurvist votta.
    2. Ef munar meira en 30 ECTS á loknum einingum ráða einkunnayfirlit og árangursröðun einungis úrslitum ef munur á meðaleinkunn milli nemenda er einn heill eða meira (t.d. annar með 6.5 og hinn með 8.0). Ef einkunnir eru sambærilegar skal varpa hlutkesti milli nemenda í viðurvist votta.

Hvernig sæki ég um skiptinám?

  1. Kynntu þér skiptinámið og hafðu samband við Miðstöð Alþjóðasamskipta ef þú þarft frekari upplýsingar
  2. Veldu þér samstarfsskóla og fylltu út námssamning „Learning agreement" þar koma fram námskeiðin sem þú velur hjá samstarfsskólanum (þú miðar við núverandi kennsluskrá ef kennsluskrá skólans fyrir næsta ár er ekki tilbúin)
  3. Hafðu samband við deildina þína (brautarstjóra/deildarformann) til að fara yfir fyrirhugaðan námssamning (e. Learning agreement) og fáðu undirritun. Ef með þarf fer skjalið svo til matsnefndar viðkomandi deildar/brautar til afgreiðslu
  4. Þú sækir um styrki ef einhverjir eru: Erasmus+ styrkur eða Nordplus styrkur (umsóknarfrestur fyrir haustönn 1. mars / vorönn 1. nóvember). Hægt er að sækja um inngildingarstyrki til viðbótar við hefðbundinn dvalarstyrk. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Rannís
  5. Þú sækir um skiptinámið hjá samstarfsskólanum með aðstoð Miðstöð alþjóðasamskipta
  6. Mundu svo eftir að skrá þig í nám við HA fyrir komandi skólaár (staðfestir þig í Uglu) og greiða skrásetningargjaldið

Athugaðu að deildin þín þarf að skrifa undir „Learning agreement" skjalið. Með því að gera það er hún að samþykkja að meta viðkomandi námskeið þegar þú kemur til baka úr skiptináminu. Það er mjög mikilvægt að gera þetta tímanlega þar sem oft getur tekið allt að tvær vikur að fá skjalið til baka.

Erasmus+

Erasmus+ er menntaáætlun Evrópusambandsins. Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi í Erasmus samstarfi um árabil.