Vettvangsnám

Vettvangsnám og æfingakennsla er mikilvægur þáttur í kennaranámi. Ábyrgðin er ekki aðeins háskólans heldur einnig fagstéttarinnar sjálfrar og leik-, grunn- og framhaldsskóla. 

Kennaranám er þáttað þekkingu og færni og sá vefur er afgerandi fyrir velferð nemans eftir að út í starf er komið. Þessir tveir þættir námsins eiga að spegla hvorn annan þannig að þekking úr námskeiðum sé starfsgerð og neminn færi með sér til baka í nám sitt nýja reynslu.

Þetta leggur grunninn að hæfni kennaranemans til að þroska faglega og kennslufræðilega ígrundun. Til þess að svo megi verða þarf öflugt samstarf starfsþróunarskóla og kennaradeildar þar sem viðurkennt er að hagsmunir samstarfsaðila eru gagnkvæmir. Vettvangsnám og æfingakennsla gera kröfur til sjálfstæðis og ábyrgðar nemans sjálfs í náminu. Leiðbeining frá bæði leiðsagnarkennara og öðrum kennurum starfsþróunarskólans er jafnframt lykilatriði í að þróa starfshæfni nemans. Leitast er við að nemar fari ekki oft í sama skóla meðan á kennaranáminu stendur.

1. Vettvangsnám kennaranema í fimm ára námi

Gert er ráð fyrir að vettvangsnám kennaranema í fimm ára námi við kennaradeild fari fram í fimm hlutum:

  1. Á fyrsta ári, haustmisseri, er skólaheimsókn í tengslum við skólafræðinámskeið. Nemar dvelja í tvo daga á vettvangi. Í þessum heimsóknum er lögð áhersla á að nemar fái sýn yfir valda þætti skólastarfs og kynnist skólanum sem væntanlegum vinnustað.
  2. Á öðru ári, haustmisseri, fara nemar á vettvang í viku og tengist námið völdum námskeiðum misseris. Áætlað er að vettvangsnámið fari fram í skólum utan þéttbýlis með áherslu á samkennsluskóla.
  3. Á öðru ári, vormisseri, fara nemar á vettvang í eina viku og tengist námið völdum námskeiðum misseris. Markmiðið með heimsóknum á öðru ári er að nemar fylgist með kennslu, skoði verklag, kennsluaðferðir og vinnu með börnum/nemendum.
  4. Á þriðja ári, vormisseri, fara nemendur í sex eininga vettvangsnám í skóla í tíu daga. Námið á vettvangi beinist að meginhluta til að starfi og samskiptum í kennslurýminu, áætlanagerð og mati á árangri. Vettvangsnámið er í raun sambland af aðstoðarkennslu og æfingakennslu. Þess er vænst að nemi kynnist því hvað felst í daglegu starfi kennara með börnum/nemendum, tengslum fræða og starfs og hvernig má mæta mismunandi þörfum einstaklinga svo eitthvað sé nefnt. Ennfremur fær hann kennslureynslu. Þriðja árið í íþróttafræðum er að mestu kennt á vettvangi.
  5. Nemar á 5. ári hafa val um tvær leiðir í vettvangsnámi og æfingakennslu:
    1. Ólaunað starfsnám. Þrjátíu eininga vettvangsnám og æfingakennsla sem stendur alla önnina. Sumir skipta ólaunaða starfsnáminu á milli missera. Taka 2/3 fyrir áramót og ljúka svo í febrúar. Fimm fyrstu vikurnar eru nemar í vettvangsnámi, VEN1510, og síðan tíu vikur í æfingakennslu, ÆFK1510 og ÆFK2510, í sama skóla og kenna sem nemur tuttugu kennslustundum/800 mínútum á viku.
    2. Launað starfsnám. Nemendur geta ráðið sig í 50% launað starfsnám í heilt skólaár. Samhliða því vinna þeir að meistaraprófverkefni (MPR230) eða sinna námi sínu við MT leiðina. Í launuðu starfsnámi vinna nemar eins og kennarar auk þess að vera með verkefni tengd náminu.

Báðar leiðirnar eru 30 einingar og nemendur fá leiðsagnarkennara í þeim skóla sem þeir taka námið í.

2. Nemar með BA/BS gráðu

Nemar með BA/BS gráðu ljúka 120 eininga kennaranámi á tveimur árum:

  • Nemendur sem innritast í MEd nám og stefna að réttindum til kennslu í leik- og grunnskóla taka námskeiðin VEN1510, ÆFK1510 og ÆFK2510, samanber lið 5 í kafla 1 hér fyrir ofan.
  • Nemendur sem stefna að kennslu í framhaldsskóla taka námskeiðið VÆK1510 (vettvangsnám og æfingakennsla) í framhaldsskóla og jafnframt 20 bóklegar einingar á meistarastigi að eigin vali, innan eða utan HA. VÆK1510 er í boði á bæði haust- og vormisseri.

3. Diplómanám í leikskólafræðum

Nemar sem innritast í diplómanám í leikskólafræðum ljúka 120 einingum á tveimur árum

  • Á 1. ári fara nemar á vettvang í tvo daga á haustmisseri (kafli 1, liður 1). Auk þess fara nemendur í sex eininga vettvangsnám á vormisseri. Þar eru nemar í leikskóla í tíu daga. Námið á vettvangi beinist að meginhluta til að starfi og samskiptum inni á deild. Þess er vænst að nemi kynnist því hvað felst í daglegu starfi kennara með börnunum, tengslum fræða og starfs, samskiptum og hvernig má mæta mismunandi þörfum barnanna svo eitthvað sé nefnt.
  • Á 2. ári fara nemar á haustmisseri og vormisseri á vettvang í tengslum við tiltekin námskeið misseris (kafli 1, liður 2 og 3). Auk þess fara nemendur í sex eininga vettvangsnám og æfingakennslu á haustmisseri (kafli 1, liður 4).

Nánari áætlanir um vettvangsnám og æfingakennslu eru í kennsluáætlun hvers námskeiðs