Skipulag náms fyrir nýnema
Inngangur að íslenskri lögfræði
Kynnt verða helstu meginsvið íslenskrar lögfræði bæði hvað varðar opinberan rétt, s.s. stjórnskipunarrétt, stjórnsýslurétt og réttarfar og einkarétt, en veitt verður innsýn í helstu svið einkaréttar, s.s. fjármunarétt, sifja- og erfðarétt.
Samskipti og samfélagslöggæsla
Námskeiðið er tvíþætt; annars vegar fjallað um samskipti (4 ECTS) og hins vegar samfélagslöggæslu (2 ECTS). Markmið samskiptahlutans er að efla nemendur í árangursríkum tjáskiptum við almenning, samstarfsfélaga og aðra sem koma við sögu í daglegum störfum lögreglu. Kynntar verða kenningar og rannsóknir um árangursríka samskiptahætti í löggæslu. Sérstök áhersla er lögð á samskipti á vettvangi og leiðir til að leysa ágreining sem upp getur komi í störfum lögreglu. Samskipti eru skoðuð með hliðsjón af félagslegum og menningarlegum margbreytileika. Markmið samfélagslöggæslu hlutans er að skapa þekkingu nemenda á hlutverki samfélagslöggæslu. Í þeim tilliti verður sérstaklega skoðað forvarnarstarf í tengslum við börn, unglinga og fólk í viðkvæmri stöðu.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Lögreglustarfið
Markmið námskeiðsins eru að veita nemendum innsýn í hlutverk lögreglunnar í samfélaginu og innra skipulagi hennar, þ.m.t. reglugerð um starfsstig innan lögreglu. Kennd eru helstu kenningar um árangursríka framkvæmd almennrar löggæslu og samskipti við borgarana. Rætt er um verkefni lögreglu, hvernig þau tengjast verkefnum annarra viðbragðsaðila og um verkaskiptingu þessara aðila við ólíkar aðstæður. Lögð er áhersla á að nemendur geti tileinkað sér næga þekkingu til að geta lýst í grófum dráttum hlutverki lögreglunnar, helstu verkefnum og geti borið saman mismunandi aðferðir lögreglunnar við úrlausn verkefna.
Vinnulag í hug- og félagsvísindum
Námskeiðið leggur grunn að háskólanáminu með því að þjálfa nemendur í fræðilegum vinnubrögðum. Í námskeiðinu er farið ítarlega í notkun heimilda, s.s. rafræna heimildaleit, tilvísun í heimildir og heimildaskráningu. Mikil áhersla er lögð á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknarviðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa skrif, uppsetningu og frágang ritgerða og rannsóknagreina.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Tölfræðileg greining
Námskeiðið er inngangsámskeið í tölfræði, ætlað sem undirbúningur fyrir frekara nám í tölfræði og aðferðafræði rannsókna. Efnistök spanna undirstöðuatriði frá forsendum tölfræðilegrar úrvinnslu til mismunandi lýsitalna, mælitalna, einfaldra úrvinnsluaðferða og marktektarprófa.
Sakamálaréttarfar
Fjallað er um íslenskan rétt um meðferð sakamála og um hlutverk og stöðu þeirra aðila sem koma að þeim málum, þ.e. dómara, ákærendur, lögreglu, verjendur, réttargæslumenn, sakborninga, vitni, þ.m.t. brotaþola. Fjallað er um meðferð sakamála, upphaf þeirra hjá lögreglu og um ólíka meðferð mála á rannsóknar- og ákærustigi og um meðferð sakamála á dómstigi, bæði í héraði, fyrir Landsrétti og fyrir hæstarétti, sbr. lög nr. 88/2008 um meðferð opinberra mála. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist hagnýtum álitaefnum á borð við gerð ákæru og í tengslum við sönnunarfærslu í sakamálum, auk þess sem fylgst verður með gangi sakamáls fyrir dómi.
Afbrot og frávik
Fjallað verður um helstu tegundir afbrota og frávika og kenningar á sviði afbrotafræði og félagsfræði frávika. Sérstaklega verður fjallað um hlutverk lögreglu og löggæslu í samfélaginu. Mismunandi skilgreiningar á eðli og afleiðingum slíkra vandamála verða ræddar í sögulegu ljósi og athyglinni beint að áhrifum margvíslegra hagsmuna á setningu og framkvæmd laga.
Fjölbreytileiki og löggæsla
Markmið námskeiðsins er að nýta félagsfræðilegt sjónarhorn á félagsleg vandamál, löggæslu, jafnrétti og fjölbreytileika í nútímasamfélögum. Fjallað verður um þá hópa sem búa við undirskipun í samfélaginu og leitast verður eftir að auka skilning á því hvernig valdakerfi virka og sjónum verður einkum beint að kynhlutverkum, fátækt, kynhneigð, kynþáttum, stéttum og samspili þessara þátta sem oft á tíðum leiða til félagslegra vandamála. Lögð verður áhersla á skilgreiningar á félagslegum vandamálum, kenningalega grunn slíkra skilgreininga og hvaða áhrif þau eru talin hafa á hópa og einstaklinga í nútímasamfélagi.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Refsiréttur I
Í námskeiðinu er farið yfir grundvallaratriði og grundvallarhugtök íslensks refsiréttar, svo sem hinn almenna og sérstaka hluta refsiréttar, almenn hegningarlög og sérrefsilög, afbrotahugtakið og refsingu, mismunandi aðferðir við flokkun afbrota, tilraunarhugtakið, afturhvarf, hlutdeild, samverkefnað, refsivörslukerfið og viðurlög við afbrotum, kenningar um varnaðaráhrif refsingar, ákvörðun refsingar, ítrekun, lok refsingar og brottfall viðurlaga. Markmiðið er, að nemendur öðlist grunnþekkingu á refsirétti, almennum hegningarlögum og helstu brotaflokkum.
Ofbeldi og valdatengsl
Í námskeiðinu er fjallað um ofbeldi með víðri skírskotun í valdamismun. Viðfangsefnið verður skoðað út frá félagsfræðilegu, sálfræðilegu og lagalegu sjónarhorni. Orsakir, afleiðingar og aðstæður ofbeldis verða skoðaðar, sem og andlegar, líkamlegar, kynferðislegar og fjárhagslegar birtingarmyndir. Sérstaklega verður fjallað um kynferðisofbeldi, þar með talið nauðgun, stafrænt kynferðisofbeldi og kynferðislega misnotkun á börnum. Þá verður jafnframt til umfjöllunar heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Rýnt verður í rannsóknir um hvernig ójöfn valdastaða getur leitt til kynbundins ofbeldis, metoo hreyfinguna og upplifun kvenna af réttarvörslukerfinu. Málefni fólks af erlendum uppruna, hinsegin sambönd, kynferðisbrot gegn fólki með fötlun og kynferðis- og heimilisofbeldi gegn drengjum og körlum verða gerð að sérstöku viðfangsefni. Einnig verður fjallað um mansal í íslensku samhengi, hvoru tveggja vændi- og vinnumansal. Að lokum verður fjallað um lögreglurannsóknir kynferðisbrota í víðtækri merkingu, kynnt verður þverfaglegt samstarf lögreglu og annarra stofnanna og félagasamtaka varðandi bæði brotaþola og gerendur og kynntar verða forvarnar gegn kynferðisofbeldi.
Lagaumhverfi lögreglu
Í námskeiðinu er fjallað um kafla úr lögreglurétti. Fjallað er um helstu réttarheimildir og aðrar reglur er varða störf lögreglu. Fjallað er um helstu verkefni og brotaflokka sem koma til kasta lögreglu og samspil ýmissa laga sem reynt getur á í störfum lögreglu, bæði laga sem hafa að geyma málsmeðferðarreglur og refsiákvæði. Fjallað er um þýðingu mannréttindaákvæða sem njóta verndar stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála fyrir störf lögreglu. Þá er fjallað um meginreglur lögregluréttar og framkvæmd lögreglustarfa með áherslu á allsherjarumboð lögreglu og lögregluvald. Fjallað er um leiðbeiningarskyldu lögreglu. Fjallað er sérstaklega um lagaleg álitaefni er varða lögreglumenn sem opinbera starfsmenn, persónuvernd og þagnarskyldu og trúnaðarupplýsingar. Loks er fjallað með heildstæðum hætti um umferðarrétt, fíkniefnalagabrot, hótunarbrot, brot þar sem málsóknar er krafist af hálfu þess sem misgert er við (brot háð kröfu um málsókn/kæru) og þær sérreglur sem gilda um börn með áherslu á lögreglurétt.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Siðfræði starfsstétta lögfræðinga og lögreglu
Fjallað er um siðfræði starfsstétta með sérstöku tilliti til réttarvörslukerfisins. Viðtekin siðferðileg viðmið um lögfræði- og löggæslustörf, gildandi eftirlit og viðurlög verða kynnt og sett í samhengi við almennar spurningar um siðfræði starfsgreina, s.s. hvaðan siðareglur starfsgreina þiggi réttlætingu sína, hvaða munur sé á lögum, siðareglum starfsgreina og almennum siðareglum, og hvaða tilgangi það þjóni að skrá siðareglur starfsgreina og starfrækja siðanefndir. Nemendur kynnast siðfræðikenningum og ræða dæmi um siðferðileg álitamál af vettvangi viðkomandi starfsgreina þar sem sérstaklega er hugað að skyldum þeirra til að virða og vernda almenn mannréttindi.
Netglæpir og álitamál í löggæslu
Námskeiðið fjallar um rafræn afbrot, löggæslu í netheimum og önnur samtímaverkefni lögreglu. Fjallað er um nýjar tegundir afbrota sem byggja á nýrri tækni og breytingar á hefðbundnum tegundum afbrota. Fjallað er um helstu tegundir afbrota í netheimum svo sem tölvuinnbrot, upplýsinga- og kenniþjófnað, eltihrellingar, barnaklám, fíkniefnasölu og brot gegn höfundarétti. Nemendur fá kynningu á myrkranetinu (dark web). Fjallað verður um um áskoranir íslenskra laga og löggæslu í alþjóðlegu umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á nauðsynlega þekkingu lögreglumanna framtíðarinnar á þessu sviði og möguleika þeirra til að eiga í samskiptum við sérfræðinga á sviði afbrota í netheimum.
Lögreglurannsóknir
Í námskeiðinu er fjallað um lögreglurannsóknir sem eru einn af meginþáttum í starfsemi lögreglunnar. Markmið námskeiðsins er að nemendur kunni grunnatriði í rannsóknum brotamála og séu meðvitaðir um hlutverk lögreglu þar sem rannsókna er þörf. Nemendur kynnast flestum þáttum sakamálarannsókna og verða að námskeiðinu loknu færir um að sinna mikilvægum rannsóknaraðgerðum á upphafsstigum mála sem og rannsaka minni háttar mál. Nemendur kynnast rannsóknum á mismunandi tegundum mála og fræðast um bæði innlent- og erlent samstarf. Kynntar eru aðferðir við skýrslutöku, þar með talið af þolendum afbrota, börnum og sakborningum. Sérstök áhersla er á skýrslutöku af einstaklingum með viðkvæma stöðu og kynningar á viðurkenndum yfirheyrsluaðferðum með áherslu á PEACE-módelið og aðrar gagnreyndar samtalsaðferðir. Fjallað er um hvernig byggja má upp heildstæða mynd af atburðarás.