ÁVARP REKTORS, EYJÓLFS GUÐMUNDSSONAR, Á Vetrarbrautskráningarathöfn HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 18. febrúar 2023:
Kæru kandídatar, starfsfólk og góðir gestir
Í dag taka þátt í þessari brautskráningu rúmlega 70 nemendur af tveimur fræðasviðum með námsgráður af bakkalár- og meistarastigi, en öll hafa þau lokið námi á síðustu mánuðum. Þetta er mikil gleðistund fyrir okkur öll, kandídata, fjölskyldur ykkar og vini, Góðvini og starfsfólk háskólans á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri hefur þróast hratt á undanförnum 10 árum og hafið þið, ágætu kandídatar, verið hluti af skólanum á einu mesta framfaraskeiði skólans. Það á því vel við að þið eruð nú hér á fyrstu vetrarbrautskráningu HA en áður hafa nemendur sem brautskrást að hausti þurft að bíða fram að vori til að fá formlega brautskráningu sem þessa.
Háskólar þurfa og verða að þróast til þess að geta boðið upp á bestu þekkingu hverju sinni og stundað þekkingarleit, rannsóknir, sem auka við þekkingarbrunn mannkyns alls og búa til betra líf fyrir okkur öll. Rannsóknir sem takast á við stærstu og smæstu verkefni mannkyns á hverjum tíma eru grunnskylda allra háskóla. Og það er vel að á allra síðustu árum hefur starfsfólki Háskólans á Akureyri tekist að efla til muna rannsóknavirkni stofnunarinnar í heild sinni þannig að virkni á hvern starfsmann er nú fyllilega sambærileg við það sem þekkist hjá þeim stofnunum sem við viljum bera okkur saman við.
Ágætu kandídatar.
En hvað þýðir það fyrir ykkur? Hvers vegna skiptir það máli fyrir ykkur að við HA séu stundaðar öflugar rannsóknir nú þegar þið hafið lokið námi ykkar og fáið skírteini því til staðfestingar?
Jú – þetta tryggir að sú menntun sem þið hafið fengið hér við stofnunina byggir á góðri og gagnrýndri þekkingu, að þið hafið fengið innsýn í það sem nýjast er í ykkar fræðum og að þið getið gengið héðan þess fullviss að þekking ykkar er á við það besta sem hægt er að afla sér hér á landi.
En, ágætu kandídatar, í nútímasamfélagi úreldist hluti þekkingarinnar hratt og þið þurfið að gæta þess að vera stöðugt að bæta við ykkur nýrri þekkingu. Sem betur fer býður alnetið upp á aðgengi að megninu af þeim nýju upplýsingum sem birtast heiminum á degi hverjum, og þið getið alltaf farið í frekara nám. Ykkar stóra verkefni verður að þekkja í sundur annars vegar góða, ígrundaða og gagnrýnda þekkingu og hins vegar síbylju skoðana og áróðurs sem oft eru kynnt sem vísindi. Þá reynir á að geta greint á milli þess rétta og þess ranga. Sem stúdentar við Háskólann á Akureyri hafið þið, kandídatar góðir, öðlast færni í að greina þarna á milli – nýtið það vel!
Ágætu gestir nær og fjær,
Að brautskrást frá Háskólanum á Akureyri er stór stund fyrir kandídata og fjölskyldur þeirra. Á síðustu 10 árum hefur Háskólinn á Akureyri farið í gegnum tvær stórar gæðaúttektir fyrir skólann í heild sinni og í báðum tilfellum fengið traust úttektaraðila Gæðaráðs íslenskra háskóla. Það staðfestir að nám við Háskólann á Akureyri er fyllilega sambærilegt við nám í hinum vestræna heimi og að HA er að ná þeim markmiðum sem stofnunin hefur sett sér. Það skírteini sem kandídatar taka við hér í dag er því ekki aðeins staðfesting á því að nemendur hafi lokið hér námi með blóði, svita og tárum, heldur er þetta líka lykill að enn frekari menntun og stærri tækifærum til framtíðar, bæði hérlendis og erlendis.
Háskólinn á Akureyri hefur frá upphafi gefið meira en 7000 nemendum slíkt tækifæri. Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu gríðarleg breyting það var fyrir Íslendinga alla að eiga fleiri valkosti um nám á háskólastigi með tilkomu HA.
Skólinn hefur því ætíð haft að leiðarljósi að við erum hér til þess að bæta aðgengi allra Íslendinga að háskólanámi og hefur uppbygging fjarnáms, sem nú er orðið að kjarnastarfsemi skólans, verið lykilatriði í því að gefa Íslendingum öllum aðgengi að háskólanámi.
Það er skemmtileg staðreynd að tæplega 7% af öllum nemendum skólans eru Íslendingar sem eru búsettir erlendis en hafa kosið að taka nám sitt í fjarnámi við Háskólann á Akureyri.
Þessi góði árangur hefur náðst þrátt fyrir að Háskólinn á Akureyri hafi gengið í gegnum miklar þrengingar í kringum síðasta fjármálahrun fyrir 15 árum síðan, en á þessum 15 árum hefur starfsfólk skólans lyft grettistaki í eflingu rannsókna, sinnt nemendum eins vel og kostur er – eins og ánægjukannanir nemenda staðfesta – tekið á móti stærsta hópi nemenda skólans frá upphafi og, líkt og áður segir, staðist alla þá mælikvarða sem stofnanaúttekt skólans í heild sinni hefur sett fram. Á sama tíma hefur ekki tekist að fjölga starfsfólki skólans fyrr en nú á allra síðustu árum – og er það vel – en í raun er það fyrir ótrúlega þrautseigju starfsfólks sem þessi markmið hafa náðst. Með tilkomu doktorsnáms og fyrstu doktorsvarna við skólann síðastliðið haust hafa starfsfólk og nemendur skólans náð hinu upprunalega markmiði; að Háskólinn á Akureyri yrði öflug viðbót við íslenskt samfélag í heild sinni og kæmi inn með nýjar og ferskar leiðir til að bæta aðgengi að háskólanámi fyrir landsmenn alla.
Háskólin á Akureyri er ein arðbærasta aðgerð, og, já, fjárfesting, sem íslenska ríkið hefur ráðist í á síðustu 35 árum og er því afskaplega mikilvægt nú, þegar erfiðari tímar eru fram undan í rekstri hins opinbera, að forgangsröðun sé skýr gagnvart vísindum, þekkingu og fjölbreyttu aðgengi að námi. Það er eina leiðin til þess að við sem samfélag getum tekist á við þær áskoranir sem fyrir framan okkur liggja.
Við verðum að tryggja ungu fólki í dag öruggt aðgengi að öflugu háskólanámi.
Kæru kandídatar,
Ykkar hlutverk í góðri vegferð HA hefur ekki verið lítið – síður en svo. Háskóli er samfélag þar sem allir þátttakendur þurfa að vera virkir í samtalinu og starfi skólans. Sem hópur eruð þið sérstaklega öflug og hafið nú þegar hlotið eldskírn ykkar þar sem stór hluti af námi ykkar fór fram á tímum kóvsins. Mörg ykkar tóku beinan þátt í baráttunni, t.d. inni á heilbrigðisstofnunum, á sama tíma og þið hélduð áfram námi ykkar. Sum ykkar hafa þegar tekið þátt í rannsóknum tengdum þessum vágesti, og það er víst að rannsóknaefnin verða næg næstu áratugina til að skilja betur hvernig við tökumst á við framtíðarvágesti af sama sauðahúsi.
Fulltrúar ykkar í deildum og ráðum skólans hafa verið mjög virkir í starfi sínu og þannig tryggt að rödd stúdenta hefur heyrst á öllum stjórnstigum skólans, þar á meðal í háskólaráði. Þið hafið því sett mark ykkar á þróun skólans og verið hluti af skólanum síðustu ár. Við munum sakna ykkar og vonumst til að sjá ykkur aftur með einum eða öðrum hætti í framtíðinni en með ríkari reynslu að baki og búin að efla þekkingarstig ykkar enn frekar – og hver veit – að koma til baka og efla HA sem fræðafólk með öfluga þekkingu byggða á ykkar eigin rannsóknum.
Ágætu kandídatar.
Þegar ég hef tekið á móti nýnemahópum síðustu ár hef ég oft sagt við ykkur að ég öfundi ykkur af þeim tækifærum sem þið hafið í þessum nýja heimi tækni, vísinda og þekkingar. Heimurinn er fjölbreyttari, áhugaverðari og víðfeðmari, en samt smærri, og í raun betri en hann hefur verið flestar þær aldir sem mannkynið hefur verið til.
Það kann að vera erfitt að sjá öll þessu jákvæðu teikn nú þegar við erum rétt nýkomin út úr kóvi faraldursins og stríð geisar á ný í Evrópu, en ef marka má fréttir dagsins er Ísland, ef ekki heimurinn allur, í kalda koli.
Þá reynir á ykkur, kæru kandídatar, að nota þá þekkingu sem þið hafið orðið ykkur úti um hér við skólann. Greina á milli síbyljunnar og staðreynda. Bera kennsl á raunveruleg vandamál en ekki kvart og kvein dagsins yfir smáatriðum sem engu skipta. Notið þekkingu ykkar til að bæta heiminn út frá grunngildum jafnréttis, lýðræðis, þekkingar og jöfnuðar í víðum skilningi, ekki bara hérlendis heldur fyrir heiminn allan. Ykkar bíða risavaxnar áskoranir en þið hafið líka gríðarlegan þekkingarbrunn að sækja í, og eins og nýjustu dæmin sanna þá mun gervigreindin verða áhrifavaldur í framtíðarstörfum ykkar. Gervigreindin mun verða gríðarlegt tækifæri til framfara og kannski stór hluti af því að leysa úr mörgum af erfiðustu vandamálum heimsins. Verið viss um að þið verðið þátttakendur í því breytingarferli sem fram undan er – og þar mun sá grunnur sem nám ykkar hefur gefið ykkur reynast vel.
Breytið heiminum til hins betra. Þið hafið þekkinguna, viljann og tímann til að finna lausnir heiminum til góðs.
Kæru gestir og góðir kandídatar.
Nú þegar Háskólinn á Akureyri fer að nálgast árin fjörutíu er óhætt að segja að vel hafi tekist til við þessa tilraun sem hófst árið 1987. Það var á köflum tvísýnt en síðustu 15 árin hefur leiðin legið upp á við og Háskólinn á Akureyri er í dag ein af öflugustu rannsókna- og menntastofnunum landsins – og það er bara ákvörðun, ákvörðun okkar, hvort við viljum verða sú besta!
Þessi árangur hefur náðst með samheldni og gríðarlegu átaki starfsfólks, en það er fyrst á síðustu þremur árum sem stjórnvöld hafa loks viðurkennt stöðu okkar og gert skólanum kleift að eflast enn frekar. Þær blikur sem nú eru á lofti í fjármögnun háskólakerfisins valda mér áhyggjum og stundum smá svefnleysi. Það er auðvelt að missa þennan árangur niður ef fjármögnun háskólakerfisins og Háskólans á Akureyri sem slíks verður ekki tryggð í næstu fjármálaáætlun. Ég treysti því á ykkur, kæru kandídatar og góðir gestir, og, já, á ykkur, Góðvinir HA. Ég treysti á að þið munið láta í ykkur heyra og staðfesta hversu mikilvægt háskólanám hefur verið fyrir ykkur og hversu mikilvægt það er fyrir framtíð okkar allra að Háskólinn á Akureyri fá áfram að dafna í blómlegu háskólaumhverfi hér á landi.
Þekking er stærsta auðlind nútímans og grunnur að velgengni til framtíðar og án jafns aðgengis fyrir alla landsmenn að þekkingu mun íslenskt samfélag ekki þróast með lýðræðislegum og jákvæðum hætti á næstu árum og áratugum. Með einni rangri ákvörðun er hægt að þurrka út 10 ára árangur í starfi skólans. Það er von mín, og, já, vissa, að þið munið styðja við íslenska háskóla og aðstoða okkur við að tryggja áframhaldandi fjármögnun á háskólakerfinu.
Með góðu samtali við stjórnvöld og ykkar stuðningi mun það takast!
Kæru kandídatar, ágæta starfsfólk og góðir gestir.
Starfsfólki skólans þakka ég fyrir mikilsvert framlag þess í gegnum erfiða en áhugaverða tíma á síðustu árum. Sameinuð munum við ná að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og vöxt Háskólans á Akureyri.
Kandídötum óska ég alls hins besta og fjölskyldum ykkar og vinum innilega til hamingju með þennan merka áfanga í dag.
Megi þið rata hinn gullna meðalveg lífsins og gefið af ykkur til þess samfélags sem þið kjósið að starfa og lifa í á næstu árum og áratugum.