Geðheilbrigði er órjúfanlegur þáttur af almennri vellíðan og heilbrigði einstaklinga. Námið höfðar til þeirra sem starfa og vilja hafa áhrif á þróun þjónustu innan heilbrigðis-, sálfræði-, mennta-, og félagsgeirans. Lögð er sérstök áhersla á heildræna sýn á geðheilbrigði.

Námið veitir prófgráðuna meistarapróf í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigðisfræði.

Er námið fyrir þig?

  • Viltu dýpka skilning þinn á geðheilbrigðismálum, þjónustu og rannsóknum?
  • Viltu auka við sérþekkingu þína?
  • Hefur þú áhuga á rannsóknum?
  • Langar þig að auka víðsýni þína?

Áherslur námsins

Kristín Linda Hjartardóttir, umsjónarkennari námskeiðis aðstoðar þig við að setja þér markmið innan námslínunnar og velja saman námskeið.

Skyldunámskeið námslínunnar eru fjögur, samtals 40 ECTS einingar. Meistaraverkefni er 60 einingar og byggist á rannsókn. Þú hefur svo val um námskeið upp að 20 ECTS einingum.

Ákveðin fjöldi námsplássa í vinnusmiðjur geðheilbrigðisnámskeiðsins er frátekinn fyrir nemendur á geðheilbrigðisfræðilínu.

Þú getur skoðað skipulag námsins á Uglu, kennsluvef háskólans.

Fyrirkomulag námsins

Námið er skipulagt þannig að mögulegt er að stunda vinnu samhliða því. Nemendur vinna verkefni í stað prófa.

Diplóma- og meistaranemendur eru hvattir til að mæta í allar lotur í námskeiðum. Til að standast lágmarkskröfur námskeiðs við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs HA þarf nemandi að mæta í að minnsta kosti tvær* af þremur lotum í hverju námskeiði sem hann er skráður í.

Umsjónarkennara námskeiðs er frjálst að setja kröfu um mætingu í einhverja ákveðna lotu eða allar þrjár loturnar í námskeiði. Þessar kröfur geta verið mismunandi á milli námskeiða.

Mæting miðar við að mæta á staðinn eða með samþykki umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs að mæta í gegnum Fjærveru eða Zoom. Ath. nemandi þarf að fá þjálfun hjá Kennslumiðstöð HA til að geta nýtt sér Fjærveru sem mætingu í námskeið.

*Ef nemandi getur af heilsufarsástæðum ekki mætt í lotu verður viðkomandi að hafa samband fyrirfram við umsjónarkennara námskeiðs og skila vottorði til skrifstofustjóra heilbrigðisvísindasviðs, fari umsjónarkennari fram á það. Umsjónarkennari ákvarðar hvaða viðbótarverkefni nemandi þarf að gera í stað mætingarinnar til að standast lágmarkskröfur námskeiðs.

Þú getur tekið meistaranámskeið við Háskólann á Akureyri eða aðra háskóla, innanlands eða utan.

Möguleikar að námi loknu

Brautskráðir nemendur með meistaranám í heilbrigðisvísindum fara í stjórnunarstörf innan heilbrigðiskerfisins, starfa sjálfstætt sem geðhjúkrunarfræðingur eða eru í stöðum sérfræðinga.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur um meistara- og diplómanám þurfa að hafa lokið bakkalárgráðu á sviði heilbrigðisvísinda eða skyldra greina með fyrstu einkunn (7,25 eða hærra) frá viðurkenndum háskóla. Ef til aðgangstakmarkana kemur við innritun ganga þeir umsækjendur fyrir sem hafa nú þegar lokið viðbótardiplóma- eða meistaraprófi og/eða hafa 2 ára starfsreynslu úr heilbrigðis- eða velferðargeiranum. Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og starfsvottorð fylgi með umsókn.

Umsagnir

Mér fannst framhaldsnámið bæði krefjandi og skemmtilegt. Sérfræðingar frá ólíkum sviðum tóku að sér kennslustundir. Það gerði námið enn áhugaverðara og maður fékk innsýn í ólík störf innan heilbrigðiskerfisins.

Hrafnhildur Gunnþórsdóttir
Starfsmaður í þjónustukjarna fyrir geðfatlaða og stundakennari

Námið reyndist mér mjög hagnýtt og veitti góða yfirsýn yfir helstu þætti heilbrigðisvísinda. Mörg spennandi námskeið í boði og áhugi og þekking kennara á námsefni var hreint út sagt til fyrirmyndar þar sem markviss framsetning og jákvæð nálgun var í fyrirrúmi. Ég starfa sem sérfræðingur í þjónustukjörnum fyrir geðfatlaða á vegum Velferðarsviðs Akureyrarbæjar og þetta nám gaf mér einstakt verkfæri sem ég nýti daglega á mínum vinnustað.

Aðalheiður Ágústa Jónsdóttir
Sérfræðingur í velferðarþjónustu geðfatlaðra

Í framhaldsnáminu í geðheilbrigðisfræði öðlaðist ég dýpri þekkingu á mínu sérsviði. Námið ýtti undir gagnrýna hugsun og þroskaði mig faglega sem og persónulega. Kennarar skólans voru ætíð til taks og boðnir og búnir til að veita aðstoð sína. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa valið þessa leið í framhaldsnámi. 

Arndís Vilhjálmsdóttir
Geðhjúkrunarfræðingur

Námið var mjög einstaklingsmiðað og hentar vel þeim sem vilja fara á dýptina á einhverjum sviðum innan heilbrigðisvísinda.

Ég hafði brennandi áhuga á starfstengdum áföllum og gat skoðað þau út frá fjölbreyttum sjónarhornum innan mismunandi námskeiða. Það varð til þess að ég fékk mjög yfirgripsmikla þekkingu sem mun nýtast mér í starfi og hef m.a. fengið tækifæri til þess að miðla þekkingunni á hinum ýmsu málstofum.

Ég valdi sjálf á hvaða hraða ég kaus að taka námið sem hentaði vel þar sem ég var í fullri vinnu samhliða námi og með stórt heimili.

Katrín Ösp Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri