Laus meistaranámsstaða við Auðlindadeild: Áhrif endurheimtar votlendis á jöfnuð gróðurhúsalofttegunda og aðra vistkerfisferla

Auðlindadeild óskar eftir meistaranema til að taka þátt í spennandi meistaraverkefni við Auðlindadeild:

Hvernig breytist örverulífríki í gróðri og jarðvegi þegar votlendi er endurheimt?

Á síðustu öld voru mýrar ræstar fram í stórum stíl hérlendis. Um 4.200 km2 votlendis var umbreytt í tún, engi og móa með tilheyrandi raski á dýralífi, gróðri, kolefnisbúskap og örverulífríki. Í dag er aðeins um 15% af þessu flæmi nýtt með beinum hætti í landbúnaði og því er víða unnið að því að fylla upp í skurði og endurheimta votlendið. Þetta býður upp á einstakt tækifæri til að fylgjast með þeim breytingum á örverulífríkinu sem eiga sér stað þegar framræst votlendi breytist að nýju í mýrlendi.

Háskólinn á Akureyri tekur þátt í verkefninu Áhrif endurheimtar votlendis á jöfnuð gróðurhúsalofttegunda og aðra vistkerfisferla (ReWet) þar sem eru í fyrsta sinn gerðar beinar mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda og hringrás kolefnis, vatns og orku yfir framræstu votlendi sem verður svo endurheimt. Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands og samstarfsaðilar er, auk HA, Land og skógur, Svarmi ehf og Helsinkiháskóli. Í hlut HA fellur að fylgjast með breytingum á örverulífríkinu. Beitt verður aðferðum sem eru líftækninemum að góðu kunnar og byggja á einangrun DNA úr jarðvegs og gróðursýnum, mögnun markraða með PCR og raðgreiningu þeirra með háafkasta aðferðum , svo og heilraðgreining meta erfðamengja úr völdum sýnum og skimun eftir genum sem gegna hlutverki í ferlum á borð við metanmyndun, metanoxun, niturbindingu, o.fl. Einnig verður þess freistað að einangra valdar örverur úr sýnunum og kanna virkni þeirra í hreinræktum og samræktum, með það að markmiði að skima eftir verðmætum eiginleikum.

Meistaraverkefni er í boði með veglegum 12 mánaða framfærslustyrk. Verkefnið verður unnið undir handleiðslu Auðar Sigurbjörnsdóttur, dósents við Auðlindadeild með aðstoð þeirra Brynhildar Bjarnadóttur, dósents við Kennaradeild og Odds Vilhelmssonar, prófessors við Auðlindadeild. Æskilegt er að meistaraneminn geti hafið störf við verkefnið í byrjun september 2024.

  • Áhugasöm skulu hafa samband við Auði í gegnum netfangið mas@unak.is