Umhverfisráð hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá upphafi árs 2008. Á upphafsárum ráðsins var áherslan lögð á að fá vottun um Grænfána frá Landvernd og markvisst var unnið að bættri umgengni, úrgangsmálum og vitundarvakningu um umhverfismál innan skólans. Haustið 2013 hlaut svo skólinn, fyrstur háskóla á Íslandi, Grænfána Landverndar fyrir ötult starf að umhverfismálum. Í desember 2016 skrifaði skólinn undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu og skuldbatt sig þar með til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn. Að þessu hefur verið unnið markvisst nú á síðari árum.
Þessi umhverfis- og loftlagsstefna er lögð fram sem liður í að fylgja eftir því góða og mikilvæga starfi sem unnið hefur verið að í umhverfismálum á undanförnum árum við HA. Í stefnunni er horft til framtíðar, farið yfir markmið, leiðir að markmiðum og því velt upp hvaða áhrif stefnan kemur til með að hafa.
Umhverfis- og loftlagsstefnan er stefnumótandi og lýsir því hvernig Háskólinn á Akureyri sér fyrir sér framtíð umhverfis- og loftlagsmála við stofnunina. Henni er ekki ætlað að vera bindandi er kemur að þeim framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar og hefur ekki að geyma skuldbindingu gagnvart tímaáætlunum sem settar eru fram. Þær eru til leiðbeiningar og mun umhverfisráð fylgja eftir því sem væntingar eru um að gera hverju sinni í samvinnu við framkvæmdastjórn.
Framtíðarsýn 2030
Háskólinn á Akureyri er til eftirbreytni fyrir einstaklinga og stofnanir í samfélaginu og leiðandi í umhverfismálum. HA hefur tekið markvisst tillit til umhverfis og náttúru við alla ákvarðanatöku er varðar kennslu/menntun, rannsóknir, stjórnun og rekstur síðan 2022.
HA leitast við að stuðla að því að minnka kolefnisspor sitt m.t.t. losunar á gróðurhúsalofttegundum, mengunarefnum, sóunar á auðlindum og öllum skaða á lífríki og náttúru sem starfsemin tekur til. Unnið er af metnaði í bæði umhverfis- og loftlagsmálum og sífellt er stefnt að betri árangri í daglegum rekstri. Skólinn hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 45% miðað við árið 2019 og hefur bundið kolefni til jafns við losun sína síðan 2023 með innlendum kolefniseiningum og stutt þannig við uppbyggingu vistkerfa og atvinnu á Íslandi.
Skuldbindingar og leiðarljós
Háskólinn á Akureyri tryggir að lagalegum kröfum til háskólans er varða umhverfisvernd sé fylgt. HA hefur innleitt Græn skref Umhverfisstofnunar sem miða að því að lágmarka umhverfisspor rekstrar og mun tryggja að skólinn standist þeirra viðmið áfram. Auk þess hefur HA skrifað undir loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu og þannig skuldbundið sig til að lágmarka kolefnisspor sitt og úrgang, setja sér markmið því tengt og segja frá árangri. HA fékk viðurkenningu Grænfánans árið 2013 og mun halda því starfi áfram, en Grænfánavottunin er endurnýjuð á tveggja ára fresti. Auk þess mun HA horfa til umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrar og styðja við markmið bæjarins þar sem það á við.
Yfirmarkmið
Háskólinn á Akureyri ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 45% á hvert stöðugildi starfsmanna til ársins 2030 miðað við árið 2019. Háskólinn mun binda kolefni sem nemur losun hans frá árinu 2023 með innlendum kolefniseiningum og verða kolefnishlutlaus stofnun þegar innlendar kolefniseiningar fá vottun um slíkt. Háskólinn mun draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnsluhlutfall í 80% fyrir árið 2023 og setja markvissa innkaupastefnu sem mun draga úr umhverfisáhrifum og úrgangi háskólans.
Lykilþættir í umhverfisstefnu HA
- HA mun draga úr kolefnisspori skólans um 45% til ársins 2030 miðað við árið 2019.
- HA mun verða kolefnishlutlaus stofnun frá árinu 2023.
- HA mun draga úr myndun sorps um 20% á stöðugildi með virkri innkaupastefnu og endurnýtingu á eignum.
- Endurvinnsluhlutfall HA verður 80% árið 2023.
- Hugað verður að loftslags- og umhverfismálum í öllum innkaupum á vöru og þjónustu.
- Áhersla er lögð á umhverfisfræðslu stúdenta og starfsfólks og hafa þannig áhrif á allt samfélagið.
- Áhersla er lögð á að verkefni og rannsóknir innan háskólans stuðli að aukinni þekkingu og þróun nýrra lausna til verndar loftslagi og umhverfi.
- Áhersla er lögð á að stúdentar og starfsfólk séu virk í opinberri umræðu um málaflokkinn og komi þannig upplýsingum til almennings og stjórnvalda.
Gildissvið
Stefna þessi á við um alla starfsemi HA, allar byggingar og samgöngur á vegum skólans. Þar sem stúdentar skólans stunda starfsnám eru þeir hvattir til að fylgja umhverfisstefnu þessari eftir fremsta megni.
Umfang
Stefna þessi tekur til eftirfarandi umhverfisþátta:
Samgöngur
- Losun GHL vegna samgangna starfsfólks á vinnutíma.
- Losun GHL vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu.
- Losun GHL vegna samgangna stúdenta í og úr skóla.
- Losun GHL vegna aksturs á bílaleigubílum, leigubílum og hópferðabílum á vegum skólans.
- Flug starfsfólks og stúdenta á vegum skólans, innanlands og utan.
Úrgangur
- Losun GHL vegna lífræns úrgangs sem fellur til í byggingum háskólans.
- Losun GHL vegna blandaðs úrgangs sem fellur til í byggingum háskólans.
- Viðeigandi förgun endurvinnsluefna og spilliefna.
Orka
- Rafmagns og heitavatnsnotkun í byggingum háskólans.
Innkaup
- Hlutfall umhverfisvottaðs skrifstofupappírs.
- Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna.
- Hlutfall umhverfisvottaðra ritfanga.
- Hlutfall umhverfisvottaðrar ræsti þjónustu.
- Hlutfall umhverfisvottaðrar prentþjónustu.
Efnanotkun
- Haldið er utan um innkaup og förgun allra efna sem notuð eru við rannsóknir og kennslu.
Mötuneyti
- Hlutfall grænmetisfæðis í mötuneyti.
- Úrgangur frá mötuneyti.
Markmið
1. HA mun draga úr kolefnisspori sínu um 45% til ársins 2030 frá 2019 með því að:
- Draga úr losun vegna flugsamgangna um 50% til 2030.
- Draga úr losun vegna samgangna á vinnutíma um 35% til 2030.
- Draga úr losun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu þ.a. 70% starfsfólks komi með vistvænum hætti til vinnu árið 2025.
- Draga úr losun vegna orkunotkunar um 10%.
- Draga úr losun vegna úrgangs um 50%.
2. HA mun binda kolefni sem nemur losun háskólans á hverju ári frá árinu 2023 með kolefnisbindingu á Íslandi.
3. HA mun draga úr myndun sorps um 20% með virkri innkaupastefnu og endurnýtingu á eignum.
- Draga úr pappírsnotkun um 50% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019.
- Auka endurnýtingu, s.s. á raftækjum og húsgögnum um 25%.
- Bjóða einungis uppá fjölnota borðbúnað.
4. Endurvinnsluhlutfall HA verður 80% árið 2023.
- Endurvinnsluhlutfall HA verður ekki lægra en 80% frá árinu 2023.
5. Huga að loftslags- og umhverfismálum í öllum innkaupum á vöru og þjónustu með því að:
- Fara eftir nýrri innkaupastefnu ríkisaðila.
- Versla einungis umhverfisvottaðar vörur og þjónustu þar sem því verður við komið.
- Endurskoða verkferla við innkaup.
6. Hafa áhrif á samfélagið með því að leggja áherslu á umhverfisfræðslu stúdenta og starfsfólks.
- Setja upp fræðslustefnu um umhverfismál fyrir starfsfólk.
- Koma á sérstakri fræðslu fyrir nýnema um áherslur HA í umhverfismálum.
- Halda reglulega fræðslu fyrir allan háskólann.
7. Stuðla að því að verkefni og rannsóknir innan háskólans stuðli að aukinni þekkingu og þróun nýrra lausna til verndar loftslagi og umhverfi með því að:
- Veita viðurkenningu fyrir kennslu og rannsóknir varðandi umhverfis- og sjálfbærnimál og halda slíku á lofti.
8. Hvetja stúdenta og starfsfólk til að taka virkan þátt í opinberri umræðu um umhverfis- og loftslagsmál og koma þannig upplýsingum til almennings og stjórnvalda með því að:
- Halda árlega ráðstefnu á vegum háskólans um mál tengd sjálfbærni.
- Halda sérstök hvatningarverkefni til að hvetja kennara og stúdenta til að skrifa greinar eða koma málefnum á framfæri á annan hátt.
Samþykkt á fundi háskólaráðs 16. desember 2021.