
Stefna Háskólans á Akureyri til ársins 2030 markar sameiginlega sýn okkar á þá vegferð sem fram undan er – að efla háskólasamfélagið og þróa það í takt við þarfir og tækifæri samfélagsins.
Í stefnunni eru skýr markmið og áherslur sem styðja við framtíðarsýn okkar: að vera leiðandi og framsækið háskólasamfélag á norðurslóðum þar sem þekking, nýsköpun, jafnrétti og sjálfbærni eru drifkraftar framfara.
Fram undan er spennandi vinna við að hrinda stefnunni í framkvæmd – og þar skiptir þátttaka okkar allra máli.
Áslaug Ásgeirsdóttir
Rektor Háskólans á Akureyri
Efnisyfirlit
1. Framtíðarsýn Háskólans á Akureyri
2. Gildi Háskólans á Akureyri
3. Áherslumál Háskólans á Akureyri til 2030
4. Fyrsta áhersla
5. Önnur áhersla
6. Þriðja áhersla
Stefnan í prentútgáfu (pdf)
Hlutverk Háskólans á Akureyri
Í öflugri miðstöð fræða á norðurslóðum er Háskólinn á Akureyri leiðandi mennta- og vísindastofnun sem skapar fjölbreytt tækifæri til náms og rannsókna sem standast ströngustu gæðakröfur.
Framtíðarsýn Háskólans á Akureyri
Háskólinn á Akureyri er leiðandi og framsækið háskólasamfélag sem með öflugu vísindastarfi og kennslu er uppspretta þekkingar, nýsköpunar og framfara á norðurslóðum.
Háskólinn á Akureyri er drifinn áfram af óbilandi trú á tækifærin sem norðurslóðir bjóða upp á. Háskólinn er miðpunktur þekkingar, nýsköpunar og framfara, þar sem framsækin hugsun og hugrekki til að móta framtíðina fara saman.
Háskólinn á Akureyri er í samstarfi við innlenda og alþjóðlega háskóla, rannsóknarstofnanir og atvinnulíf og leggur áherslu á rannsóknir og menntun sem takast á við áskoranir samfélagsins á öllum sviðum.
Háskólinn á Akureyri er sjálfstætt náms- og þekkingarsamfélag sem leggur áherslu á gagnrýna og sjálfstæða hugsun. Menntun við háskólann miðar að því að efla gagnrýna hugsun og sköpunargáfu stúdenta. Sérstök áhersla er lögð á fjölbreytni og aðgengi að námi, með sjálfbærni og samfélagslega velferð að leiðarljósi.
Háskólinn á Akureyri er ómissandi afl sem tengir saman fólk, vísindi og atvinnulíf á norðurslóðum. Með því að stunda rannsóknir, miðla þekkingu og byggja upp sterk samfélög í síbreytilegu umhverfi leitast skólinn við að vera uppspretta þekkingaröflunar, nýsköpunar og framfara og þar með tryggja betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Gildi Háskólans á Akureyri
Háskólinn á Akureyri er framsækið, sjálfstætt og traust náms- og þekkingarsamfélag með jafnrétti að leiðarljósi.
FRAMSÆKNI
Háskólinn á Akureyri tileinkar sér bestu þekkingu og tækni við kennslu, rannsóknir og þróun. Hann sækir fram af víðsýni og metnaði og er í fararbroddi á sviði vísinda og fræða.
JAFNRÉTTI
Í starfi sínu leggur Háskólinn á Akureyri áherslu á að stúdentar og starfsfólk nái árangri í námi og starfi óháð fötlun, kynhneigð, kyni, kynþætti, lífsskoðun, trúarbrögðum og uppruna.
SJÁLFSTÆÐI
Háskólinn á Akureyri er sjálfstætt náms- og þekkingarsamfélag með gagnrýna og sjálfstæða hugsun að leiðarljósi.
TRAUST
Stúdentar og samfélag geta treyst því að Háskólinn á Akureyri hafi að leiðarljósi haldgóða menntun, gagnrýna hugsun, vönduð vinnubrögð og heill samfélagsins.
Áherslumál Háskólans á Akureyri til 2030
Háskólinn á Akureyri hefur á stefnutímabilinu skýrar áherslur og sértæk markmið sem byggja á þeim.
Áherslumál stefnunnar skiptast í þrjá meginflokka þar sem lögð er sérstök áhersla á að undirstrika hlutverk Háskólans á Akureyri sem öflugt og eftirsóknarvert háskólasamfélag.
Fyrsta áhersla
Háskólinn á Akureyri er öflugt náms- og þekkingarsamfélag sem mótar framtíðina og eflir samfélagið með nýsköpun, þekkingu og sjálfbærni að leiðarljósi.
Háskólinn á Akureyri hefur sterka ímynd, er leiðandi í samfélaginu og fyrirmynd um sjálfbæra og umhverfisvæna starfshætti. Háskólinn leitast við að stuðla að því að minnka kolefnisspor sitt með tilliti til losunar á gróðurhúsalofttegundum, mengunarefnum, sóunar á auðlindum og öllum skaða á lífríki og náttúru sem starfsemin tekur til. Háskólinn leggur metnað í að auka sýnileika vísindastarfs sem unnið er við stofnunina bæði á landsvísu og á alþjóðavettvangi efla gagnvirk tengsl við atvinnulíf, stofnanir og samfélag.
Áherslur
- Sýnilegur háskóli með sterka ímynd
- Traust og leiðandi afl í samfélaginu
- Sjálfbærni og umhverfisvernd í fyrirrúmi
Markmið og mælikvarðar sem byggja á ofangreindum áherslum verða skilgreind árlega.

Markmið
MARKMIÐ |
MÆLIKVARÐAR |
Við viljum efla sýnileika með virkri miðlun upplýsinga og auknu samstarfi starfsfólks og stúdenta við samfélagið |
Árið 2028 er komið notendavænt aðgengi að upplýsingum um virkar rannsóknir innan háskólans og ytri styrki á vef háskólans
Árið 2030 hefur stuðningur við vísindamiðlun til almennings og hagaðila verið aukinn meðal annars með framboði námskeiða í vísindamiðlun og aukinni nýtingu stigamatskerfis háskólans
Árið 2030 hefur fjöldi stúdenta sem taka þátt í samstarfsverkefnum með atvinnulífi, sveitarfélögum eða stofnunum aukist um 30% frá árinu 2025
|
Önnur áhersla
Háskólinn á Akureyri skapar eftirsóknarvert umhverfi til náms og starfa þar sem námsframboð og nýsköpun eru í takt við þarfir samfélagsins og vísindastarf blómstrar.
Háskólinn á Akureyri er alþjóðlegur háskóli í fremstu röð, leiðandi í rannsóknum, kennslu og nýsköpun með áherslu á norðurslóðir og sveigjanlegt námsframboð. Aukið samstarf við fyrirtæki og stofnanir undirbýr stúdenta fyrir störf sem mæta þörfum framsækins samfélags.
Við Háskólann á Akureyri er öflugt rannsóknarsamfélag með traustum rannsóknarinnviðum og rannsóknarþjónustu. Rannsóknarmenning háskólans miðar að opnum vísindum með áherslu á alþjóðlegt samstarf þar sem rannsóknarafurðir og gögn eru gerð aðgengileg í opnum aðgangi.
Áherslur
- Framsækið nám og nýsköpun í takt við þarfir samfélagsins
- Öflugt vísindastarf og sterkir innviðir
- Nám og tækni í fremstu röð
Markmið
Markmið og mælikvarðar sem byggja á ofangreindum áherslum verða skilgreind árlega.

Markmið sem hófust 2025
MARKMIÐ |
MÆLIKVARÐAR |
Við viljum stórauka sókn í vísindastarfi með auknu umfangi styrkja og áhrifaríkum rannsóknum |
Árið 2030 er þriggja ára meðaltal umsókna um ytri styrki sem fá háa einkunn (skilgreint sérstaklega fyrir hvern sjóð) orðið 60%
Árið 2030 brautskrást að meðaltali sjö kandídatar með doktorsgráðu árlega
Árið 2028 hefur bæði nýting og ánægja með rannsóknarþjónustu háskólans, sem metin verður með könnun á meðal hagaðila, aukist
|
Við viljum nýta framfarir í tækni og gervigreind til þess að vera leiðandi í að skapa eftirsóknarvert umhverfi til náms og starfa |
Árið 2026 hefur leiðbeinandi stefna um notkun gervigreindar í háskólanum verið sett
Árið 2027 hafa markmið um nýtingu gervigreindar innan háskólans verið skilgreind
Árið 2027 hefur tilraunaverkefni um nýtingu gervigreindar innan háskólans farið fram og áhrifin verið metin
|
Þriðja áhersla
Háskólinn á Akureyri er lifandi og metnaðarfullt háskólasamfélag þar sem inngilding, jafnrétti, samheldni, hvatning og tækifæri til þróunar skapa einstakt umhverfi til náms og starfa.
Háskólinn á Akureyri er eftirsóknarverður vinnustaður starfsfólks og stúdenta sem byggir á inngildingu, samstöðu og hvetjandi menningu. Með áherslu á framúrskarandi mannauð, fjölbreytileika og styrk innra starfs, vinnur háskólinn að því að skapa fjölbreytt samfélag þar sem öll tilheyra og auðga náms- og starfsumhverfi skólans. Umgjörð og viðmót innan skólans tekur mið af ólíkum þörfum fólks og laðar að hæfileikafólk í anda grunngilda háskólans.
Áherslur
- Öflugur stuðningur við fjölbreytt og inngildandi háskólasamfélag
- Samstillt og hvetjandi menning sem styður við þróun fólks í námi og starfi
- Eftirsóknarverður valkostur hæfileikafólks
Markmið
Markmið og mælikvarðar sem byggja á ofangreindum áherslum verða skilgreind árlega.

Markmið sem hófust 2025
MARKMIÐ |
MÆLIKVARÐAR |
Við viljum vera þekkt fyrir opið og inngildandi háskólasamfélag sem byggir á þverfræðilegri nálgun og víðtæku samstarfi |
Árið 2030 hefur hlutfall námskeiða þar sem fjölbreytni, jöfnuður og inngilding eru sýnileg í umfjöllun námskeiðsins aukist um 50%
Árið 2030 hefur jákvæð upplifun starfsfólks og stúdenta af inngildingu, fjölbreytileika og virðingu innan háskólans aukist
Árið 2025 hafa markmið og verkefnaáætlun um inngildandi háskólasamfélag stúdenta verið skilgreind
|
