Við Háskólann á Akureyri er náms- og fræðasamfélag sem er virkur þátttakandi í alþjóðlegum og innlendum vísindasamfélögum. Skólinn gegnir lykilhlutverki í eflingu háskólamenntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi.
Ávarp rektors
Heimurinn mun taka miklum breytingum á næstu 25 árum – breytingum sem sumir telja að séu þær mestu sem orðið hafa síðustu 250 ár. Þessar breytingar verða vegna sjálfvirknivæðingar, gervigreindar, samtengingar allra hluta í gegnum netið, nýrra framleiðsluaðferða og samþjöppunar íbúa jarðar í stærri byggðarlög og samtengdar borgir. Störf munu hverfa, önnur munu verða til og innviðir samfélaga breytast. Breytingar á loftslagi eru einnig þegar farnar að hafa mikil áhrif – sérstaklega á norðurslóðum. Þær breytingar og áhrif þeirra verður að taka alvarlega.
Í samfélagi svo örra breytinga verða háskólar lykilstofnanir. Með því að veita nemendum tækifæri til þess að öðlast færni og hæfni, í gegnum fræðilegt og faglegt námsumhverfi, munu þeir geta tekist á við þessar miklu breytingar. Með því að efla sköpunarkraft nemenda og kenna þeim að nýta breytingar sem tækifæri er jafnframt búið til umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í samfélaginu öllu.
Í heimi þar sem er ofgnótt upplýsinga en skortur á visku og þekkingu til að nýta þær á réttan hátt verða háskólarnir miðpunktur. Þeir eru sú stoð sem samfélagið treystir til að öðlast skilning á og finna lausnir á þeim vandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Slíku trausti fylgir vald – og háskólarnir eru í raun orðnir fimmta valdið í lýðræðislegum samfélögum nútímans.
Háskólinn á Akureyri er 30 ára við upphaf þessa stefnumótunartímabils. Á fyrstu þrjátíu árum sínum hefur skólinn sýnt fram á hvernig unnt er að nýta tæknibreytingar með því að taka upp sveigjanlegt námsform – ásamt því að efla rannsóknarumhverfi sitt. Með viðurkenningu yfirvalda sem heimila skólanum að taka upp doktorsnám á sérsviðum sínum er Háskólinn á Akureyri einstaklega vel í stakk búinn til þess að verða skapandi náms- og rannsóknarsamfélag sem hefur nýsköpun þekkingar að leiðarljósi.
Með þessari stefnu til ársins 2023 er Háskólinn á Akureyri að taka lokaskrefið í þá átt að verða ein helsta fræða- og menntastofnun landsins. Með því að ná að framkvæma þær aðgerðir sem settar eru fram innan þessarar stefnu hefur skólinn byggt sterkan grunn til þess að geta sinnt því hlutverki að styrkja íslenskt samfélag svo það megi takast á við þær miklu breytingar sem framundan eru næsta aldarfjórðunginn.
Meginmarkið stefnu Háskólans á Akureyri 2018–2023 eru að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði skólans og auka vægi rannsókna. Doktorsnám verður drifkraftur öflugs rannsóknastarfs á sérsviðum skólans sem stundað er í beinum tengslum við samfélagið. Jafnframt er það markmið skólans að verða kolefnishlutlaus og til fyrirmyndar í umhverfismálum á alþjóðlega vísu.
Til að markmið þessarar stefnu nái fram að ganga þurfa allir, bæði starfsfólk skólans og yfirvöld, að vera samstíga. Því er mikilvægt að stefnan og aðgerðir henni tengdar séu ekki skjal ofan í skúffu heldur lifandi skjal sem fylgt er eftir með skilvirkum hætti í fullu samstarfi við yfirvöld á hverjum tíma. Umfram allt er það þó hinn mikli og góði mannauður sem Háskólinn á Akureyri býr yfir sem mun verða grunnurinn að því að markmiðum þessarar stefnu verði náð. Starfsfólk og nemendur skólans munu verða lykillinn að því að Háskólinn á Akureyri verður ein öflugasta mennta- og rannsóknastofnun landsins árið 2023.
Eyjólfur Guðmundsson
rektor
Hlutverk
Háskólinn á Akureyri veitir nemendum tækifæri til að öðlast menntun í metnaðarfullu og alþjóðlegu náms- og rannsóknarumhverfi. Háskólinn skapar fræðimönnum sínum umhverfi og aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar sem stuðlar að vexti og framþróun íslensks samfélags í alþjóðlegu umhverfi. Háskólinn veitir nýjum straumum til landsins alls í gagnvirkum tengslum milli samfélagsins og háskólans.
Gildi
Háskólinn á Akureyri er framsækið, sjálfstætt og traust þekkingarsamfélag með jafnrétti að leiðarljósi.
- Framsækni Háskólinn á Akureyri tileinkar sér bestu fáanlegu þekkingu og tækni við kennslu, rannsóknir og þróun. Hann sækir fram af víðsýni í framlínu vísinda og fræða.
- Jafnrétti Í starfi sínu leggur Háskólinn á Akureyri áherslu á að nemendur og starfsfólk nái árangri í námi og starfi óháð fötlun, kynhneigð, kyni, kynþætti, lífsskoðun, trúarbrögðum og uppruna.
- Sjálfstæði Háskólinn á Akureyri er sjálfstætt lærdóms- og þekkingarsamfélag sem hefur gagnrýna og sjálfstæða hugsun að leiðarljósi.
- Traust Nemendur og samfélag geta treyst því að öll vinna og samskipti við Háskólann á Akureyri byggi á grunni þar sem haldgóð menntun, gagnrýnin hugsun, vönduð vinnubrögð og heill samfélagsins eru höfð að leiðarljósi.
Framtíðarsýn til 2023
Við Háskólann á Akureyri er náms- og fræðasamfélag sem er virkur þátttakandi í alþjóðlegum og innlendum vísindasamfélögum. Skólinn gegnir lykilhlutverki í eflingu háskólamenntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi og bæði innlendir og erlendir nemendur sækja í það persónulega og krefjandi námsumhverfi sem skólinn býr þeim. Háskólinn leggur sig sérstaklega fram um að nýta þá möguleika sem felast í sveigjanlegu námi og leggur áherslu á tengsl við háskóla- og þekkingarsetur sem starfa á landsbyggðinni. Skólinn er uppspretta nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.
Skólinn nýtir kosti þverfaglegra samskipta í námi og rannsóknum til að móta skapandi námsumhverfi á öllum fræðasviðum – námsumhverfi sem gefur nemendum tækifæri til að bæta heiminn óháð því á hvaða sviði þeir munu starfa. Skólinn er með allt að 2500 nemendur á þremur fræðasviðum.
Við Háskólann á Akureyri eru stundaðar öflugar rannsóknir sem tengjast beint viðfangsefnum íslensks samfélags jafnframt því að stuðla að aukinni þekkingu í alþjóðlegu samhengi.
Háskólinn á Akureyri býður eftirsóknarvert náms- og rannsóknarumhverfi á öllum fræðasviðum skólans og hefur einnig skapað sér sérstöðu sem viðurkennd miðstöð náms og rannsókna sem tengjast norðurslóðum.
Námsframboð Háskólans á Akureyri er á fræðasviðum félagsvísinda, hugvísinda, auðlindafræða og heilbrigðisvísinda. Árið 2023 er jafnframt boðið upp á tæknifræði og aukin áhersla lögð á umhverfis- og náttúruvísindi með sjálfbærni og gagnkvæma yfirfærslu þekkingar milli háskólans og samfélagsins að leiðarljósi. Skólinn er í nánu samstarfi við aðra háskóla innanlands og erlendis og býður nám á ensku sem styður við slíkt samstarf.
Háskólinn á Akureyri er ein helsta mennta- og rannsóknastofnun landsins og er virkur og virtur þátttakandi í íslensku og alþjóðlegu fræðasamfélagi ásamt því að vinna með atvinnulífinu að nýsköpun og eflingu frumkvöðlahugsunar í nærsamfélaginu.
Stefna 2018-2023
Aðgerðir vegna stefnu skiptast í fjóra flokka:
- Rannsóknir og nýsköpun
- Nám
- Samfélagsleg ábyrgð
- Innra starf og mannauður
Í þeim köflum sem hér koma á eftir eru tekin fram helstu markmið, aðgerðir og mælikvarðar sem skólinn sem heild setur sér fyrir tímabilið 2018–2023. Á bakvið hvern málaflokk liggja síðan markmið, aðgerðir og mælikvarðar einstakra sviða, deilda og annarra starfseininga. Hvert svið ber ábyrgð á innleiðingu á sínum hluta stefnunnar sem yfirstjórn skólans ber síðan ábyrgð á í heild sinni.
Rannsóknir og nýsköpun
Grunnurinn að auknum rannsóknum við Háskólann á Akureyri verður aukin virkni rannsóknahópa sem munu sækja fram á sínum fræðasviðum eða til þess að takast á við stórar áskoranir samfélagsins á hverjum tíma. Rannsóknahópar eru kjarninn í doktorsnámi skólans þar sem doktorsnemar verða fjármagnaðir í gegnum innlenda og erlenda rannsóknasjóði.
Rannsóknasamfélagið við Háskólann á Akureyri mun jafnframt veita nemendum færni til nýsköpunar í víðum skilningi og á öllum fræðasviðum. Ný og skapandi nálgun er nauðsynleg forsenda þess að nemendur geti tekist á við hið margbreytilega umhverfi sem við þeim blasir að námi loknu og hvetur nemendur jafnframt til þess að nýta tækifærin sem felast í væntanlegum breytingum.
MARKMIÐ | AÐGERÐ | MÆLIKVARÐI |
Efling rannsókna |
Myndun rannsóknahópa á öllum fræðasviðum.
|
Heildarrannsóknastig aukist um 7,5% á ári (3ja ára meðaltal).
|
Doktorsnám á öllum fræðasviðum
|
Uppbygging stjórnsýslu doktorsnáms og nýting heimildar á öllum fræðasviðum til doktorsnáms.
|
Doktorsnemar verði 30 árið 2023.
|
Aukin sókn í samkeppnissjóði
|
Öflugri stuðningur við umsóknarferli í rannsóknasjóði með styrkingu stjórnsýslu rannsókna og aukningu á fjármunum í Vísindasjóð HA til að unnt sé að vinna umsóknir í alþjóðlegu samstarfi.
|
Fé til rannsókna úr samkeppnissjóðum aukist um 5% á hverju ári, eða samtals um 35% árið 2023 miðað við 2018.
|
Aukin þátttaka skólans og nemenda hans í nýsköpun
|
Fyrirlestrar og almennar kynningar fyrir nemendur. Þátttaka háskólans í nýsköpunar- og frumkvöðlasamtökum.
|
Þátttaka og árangur nemenda í samkeppni um nýsköpun og frumkvöðlaverðlaun.
|
Nám
Námssamfélagið við Háskólann á Akureyri er persónulegt og krefjandi. Nám er í boði á öllum námsstigum þar sem áherslan er á sveigjanlegt námsframboð í grunn- og meistaranámi. Doktorsnemar eru virkir þátttakendur í náms- og rannsóknarsamfélaginu við Háskólann á Akureyri með því að koma að kennslu og stunda rannsóknir í tengslum við nám sitt.
Í öllu námi við Háskólann á Akureyri er lögð áhersla á sjálfstæð vinnubrögð, gagnrýna hugsun og samþættingu nýjustu þekkingar á hverju sviði við hefðbundið námsefni. Samþætting kennslu og rannsókna er markviss á öllum námsstigum og er liður í því að búa nemendur undir frekara nám eða atvinnuþátttöku.
MARKMIÐ | AÐGERÐ | MÆLIKVARÐI |
Allt námsframboð samhæft í sveigjanlegu námsformi með sértækum áherslum hvers fræðasviðs
|
Kennslustefna sviða samræmd í tæknilegri framkvæmd innan faglegra þarfa hvers fræðasviðs
|
Innleiðingu sveigjanlegs námsframboðs lokið á öllum sviðum fyrir árið 2020
|
Nám á öllum fræðasviðum hefur staðist matsferli Gæðaráðs háskólanna
|
Sjálfsmat sviða, deilda og annarra starfseininga. Stofnanamat skólans í heild sinni árið 2021
|
Niðurstaða úr matsferli Gæðaráðs háskólanna sýni að HA njóti áfram fulls trausts Gæðaráðsins
|
Nám við HA njóti trausts og ánægju meðal nemenda
|
Kennslustefnu sviða framfylgt með virkri aðstoð frá stoðþjónustu. Boðið sé upp á nám/námskeið fyrir akademíska starfsmenn varðandi kennsluhætti, sveigjanlegt nám og endurgjöf til nemenda
|
Niðurstaða könnunar meðal nemenda sýni að yfir 90% nemenda á öðru ári séu ánægðir með námið og að yfir 95% útskrifaðra nemenda mæli með skólanum fyrir aðra
|
Nám við HA verði alþjóðlegra í námsframboði og samsetningu nemendahópsins
|
Boðið verði upp á nám á ensku innan allra fræðasviða. Lögð verði áhersla á að fá erlenda skiptinema og erlenda nemendur sem stunda framhaldsnám til háskólagráðu
|
Á árinu 2023 verði a.m.k. 5% nemenda við skólann erlendir og allt að 30% nemenda í meistara og doktorsnámi komi erlendis frá
|
Krefjandi nám sem mótar einstaklinginn til fræðilegra vinnubragða, faglegrar þekkingar og ábyrgðar sem þátttakandi í samfélaginu
|
Alþjóðlegur samanburður á innihaldi náms verði hluti af gæðakerfi háskólans og leiðir innan QEF II til að meta einstök fræðasvið séu nýttar á tímabilinu. Nemendur fái samræmda kennslu í gagnrýnni hugsun og vísindalegumvinnubrögðum og sé gert skylt að kynna sér siðareglur skólans, sviða og deilda á hverjum tíma
|
Árið 2023 hafi ein deild á hverju fræðasviði farið í gegnum mat á rannsóknavirkni og alþjóðlegum samanburði náms samkvæmt aðferðafræði QEF II. Á hverju ári skrifa allir nemendur skólans undir yfirlýsingu um þekkingu sína á siðareglum skólans og skuldbindingu til að stunda nám sitt af ábyrgð
|
Samfélagsleg ábyrgð
Háskólinn á Akureyri er til fyrirmyndar í íslensku og alþjóðlegu samfélagi. Við skólann er öflug umhverfisstefna, ábyrg framkoma í öllum viðskiptum, gagnsæ stjórnsýsla og ábyrg vísindaleg afstaða gagnvart stærstu áskorunum heimsins á hverjum tíma. Skólinn vill vera í góðum tengslum við nærsamfélag sitt í gegnum samtal við almenning, atvinnulíf og opinberar stofnanir. Háskólinn er jafnframt virkur þátttakandi í erlendu fræðasamfélagi og hvetur því starfsfólk sitt til þátttöku í opinberri umræðu á vísindalegum forsendum.
MARKMIÐ | AÐGERÐ | MÆLIKVARÐI |
HA er virkur þátttakandi í samfélagslegri umræðu með áherslu á mannréttindi, lýðræði, jafnrétti og vísindalega þekkingu. Með því skapar HA traust á vísindalegri þekkingu í nútímasamfélagi
|
Aukin þátttaka starfsfólks í opinberri umræðu með áherslu á faglega framsetningu málefna sem hefur í heiðri vísindaleg vinnubrögð og siðareglur skólans á hverjum tíma
|
Stig í D-flokki stigamatskerfisins aukist um 10% á ári. HA sé meðal 10 efstu stofnana í könnunum um traust almennings á stofnunum landsins
|
HA er leiðandi á heimsvísu í umhverfismálum háskólastofnana með því að verða koltvísýringshlutlaus menntastofnun og sjálfbær með tilliti til umhverfissjónarmiða
|
Innleiðing samgöngu- og umhverfisstefnu. Virk mæling á notkun jarðefnaeldsneytis í allri starfsemi stofnunarinnar. Efling skógræktar sem mótvegisaðgerð við notkun á jarðefnaeldsneyti
|
HA verði hlutlaus árið 2020 í notkun á jarðefnaeldsneyti á móti bindingu koltvísýrings með skógrækt. Háskólinn verði með grænt bókhald og geti sýnt fram á sjálfbærni í rekstri sínum
|
HA leiði rannsóknir og nýsköpun sem efla íslenskt samfélag og auka getu þess til að takast á við áskoranir samtímans
|
Rannsóknahópar taki mið af markmiðum Vísinda- og tækniráðs um samfélagslegar áskoranir
|
Fjöldi umsókna til rannsóknasjóða sem leggja fram verkefni um samfélagslegar áskoranir. Fjöldi nýsköpunarverkefna, nýsköpunarverðlauna og fyrirtækja sem stofnuð eru af nemendum og starfsfólki HA
|
Efling samstarfs heilbrigðisstofnana og fræðasviða HA með sérstakri áherslu á fjarheilbrigðismál, öldrun og heilsugæsluþjónustu
|
Efling Heilbrigðisvísindastofnunar HA sem samstarfsvettvangs við aðrar stofnanir heilbrigðiskerfisins. Sérstakur stuðningur við markmið SAK um að verða háskólasjúkrahús.
|
Árið 2023 verði a.m.k. 20 aðilar með klíníska nafnbót í heilbrigðisvísindum. Jafnframt verði virkir náms- og rannsóknasamningar við a.m.k. 10 stofnanir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
|
Aukið námsframboð sem höfðar til breiðari hóps nemenda og tekur jafnframt mið af þörfum atvinnulífs um meiri menntun í tæknigreinum
|
Lögð fram áætlun um upptöku tæknifræði við HA og gerð greining á námsframboði og kennsluaðferðum út frá kynjasjónarmiðum og þörfum þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli |
Kynjahlutfall nemenda við skólann verði sem jafnast og ekki meira en 60/40 skipting á milli kynja. Tæknifræði verði í boði frá hausti 2020 ásamt námi í íslensku sem öðru tungumáli
|
Innra starf og mannauður
Háskólinn á Akureyri er rannsókna- og námssamfélag þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og aðstæður skapaðar til þess að bæði nemendum og starfsfólki líði vel í námi og starfi. Mannauðurinn er helsti auður stofnunarinnar og mun HA því stuðla að eflingu og þroska þess mannauðs á hverjum tíma með öflugri starfsþróun og gagnsæjum ráðningar- og framgangsferlum. Háskólinn er til fyrirmyndar í faglegri stjórnun á öllum stjórnunarstigum og þjónar hlutverki sínu sem opinber þjónustustofnun af alúð.
- Viðskipta- og raunvísindasvið
- Heilbrigðisvísindasvið
- Hug- og félagsvísindasvið
- Háskólaskrifstofa
MARKMIÐ | AÐGERÐ | MÆLIKVARÐI |
Öflug mannauðsstefna sem byggir upp fræða- samfélag. Hornsteinar slíkrar stefnu eru jafnrétti, samþætting vinnu og einkalífs og gagnsæir ferlar
|
Innleiðing nýrrar mannauðsstefnu ásamt ráðningu mannauðsstjóra. Skýrir ferlar við nýráðningar
|
Árið 2023 verði yfir 90% starfsfólks ánægð eða mjög ánægð í starfi. Yfir 90% nýráðins starfsfólks séu ánægð með innleiðingarferlið ári eftir að starf hófst
|
Störf séu jafnt metin til launa óháð kyni eða uppruna
|
Innleiðing jafnlaunavottunar sem byggir á starfslýsingum og gagnsæjum ferlum við röðun starfa til launa
|
HA hljóti jafnlaunavottun ásamt árlegum jafnlaunakönnunum þar sem óskýrður munur á heildarlaunum kynja sé innan við +/- 0,25% á ársgrunni
|
Aukin alþjóðleg tengsl starfsfólks við rannsóknahópa og aðrar háskólastofnanir
|
Aukin rannsóknavirkni leiði til aukningar í rannsóknamisserum akademísks starfsfólks. Því verður að efla rannsóknamisserasjóð. Þá verði komið á skýrum verkferlum fyrir starfs- þróunarleyfi starfsfólks í grunnþjónustu og fjármögnun þeirra leyfa
|
Stefnt sé að því að 10% akademísks starfsfólks séu í rannsóknamisseri á hverjum tíma. A.m.k. 80% starfsfólks í grunnþjónustu nýti sér rétt til starfsþróunarleyfa á fimm ára tímabili
|
Starfsþróun alls starfsfólks aukin sem hluti af eflingumannauðs
|
Starfsmannaviðtöl séu markvisst notuð til að móta persónuleg markmið og áætlun um stuðning skólans til símenntunar hvers einstaklings. Boðið sé upp á námskeið í kennslufræðum háskóla
|
Allt starfsfólk hafi virka starfsþróunaráætlun samþykkta af mannauðsstjóra og næsta yfirmanni. Sett sé fram allt að 30 ECTS eininga nám í kennslufræðum fyrir háskóla sem starfsfólki HA bjóðist að taka án endurgjalds
|
Fagleg og gagnsæ stjórnun á öllum stjórnunarstigum
|
Byggt verði upp þjálfunarferli fyrir stjórnendur, bæði þá sem ráðnir eru sem slíkir og þá sem kosnir eru innan akademískra eininga
|
Yfir 80% starfsfólks séu ánægð með stjórnun/stjórnendur við skólann í starfsánægjukönnunum (t.d. SFR/VR könnunum)
|
Fræði til framtíðar