Jafnréttisáætlun Háskólans á Akureyri

Jafnréttisáætlun háskólans gildir 2025-2028 og skiptist upp í jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun.

 Um Jafnréttisáætlunina

Jafnréttisáætlun Háskólans á Akureyri er í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði. Henni er ætlað að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og vinna gegn allri mismunun og útilokun í allri starfsemi skólans.

Áætlunin tekur við af fyrri áætlun sem gilti frá árinu 2021 til 2024. Ráðgjafar í vinnunni voru Herdís Sólborg Haraldsdóttir og Sóley Tómasdóttir. Meginbreyting á tilgangi og framkvæmd áætlunarinnar er sú að hún tekur nú einnig til sjónarmiða varðandi fjölbreytileika og inniheldur verkefni og markmið sem miða að aukinni inngildingu. Þessi breyting er í takti við núgildandi jafnréttislög, áherslur stjórnvalda á Íslandi og skýran vilja innan skólans, auk þess sem hún tekur mið af þeim áskorunum og tækifærum sem háskólar standa frammi fyrir í dag. Áætluninni fylgir einnig launastefna Háskólans á Akureyri sem var samþykkt á fundi háskólaráðs þann 24. október 2019 og endurskoðun samþykkt á fundi háskólaráðs þann 29. september 2022.

Sérstök áhersla er lögð á ábyrgð og stjórnun áætlunarinnar og utanumhald er aðgerðabundið. Rektor HA er eigandi jafnréttisáætlunarinnar og jafnlaunastefnunnar, en formaður jafnréttisráðs ber ábyrgð á framfylgni aðgerða. Framkvæmdin er í höndum þeirra aðila innan HA sem bera ábyrgð á þeim þáttum sem markmið og aðgerðir áætlunarinnar tengjast.

Áætlunin byggir á háleitri framtíðarsýn og raunhæfum markmiðum. Henni fylgir aðgerðaráætlun þar sem öll markmið eru studd tímasettum og mælanlegum markmiðum og framkvæmdahópar eru tilgreindir fyrir hverja aðgerð. Stjórnun og ábyrgð á áætluninni er veitt sérstakt vægi.

Áætlunin var samþykkt af háskólaráði í nóvember 2024 og er endurskoðuð árið 2028. Áætlunin tekur gildi þegar Jafnréttisstofa hefur samþykkt hana og er aðgengileg á heimasíðu skólans. Þar er hægt að fylgjast með framgangi hennar á mælaborði. Formaður jafnréttisráðs ber ábyrgð á eftirfylgni áætlunarinnar og er tengiliður vegna hennar.

Áætlunin tekur til starfsfólks og stúdenta og áhrifa háskólans á samfélagið.

Varðandi starfsfólk og skyldur háskólans gagnvart starfsfólki þá er unnið er sérstaklega að því að uppfylla eftirfarandi lagagreinar:

  • 6. gr. Almenn ákvæði um launajafnrétti (150/2020)
  • 7. gr. Jafnlaunavottun (150/2020)
  • 12. gr. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun (150/2020)
  • 13. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs (150/2020)
  • 14. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni (150/2020)
  • 8. gr. Bann við mismunun í starfi og við ráðningu (86/2018)
  • 9. gr. Bann við mismunun í tengslum við laun og önnur kjör (86/2018)

Jafnréttisáætlunin skiptist upp í Jafnréttisstefnu annars vegar og aðgerðaráætlun hins vegar.

Jafnréttisstefna 2025-2028

Framtíðarsýn Háskólans á Akureyri í jafnréttismálum fyrir árið 2028 er að brúa bil milli fólks með öflugu og fjölbreyttu samfélagi þar sem öll tilheyra og auðga náms- og starfsumhverfi skólans. Umgjörð og viðmót innan skólans tekur mið af fjölbreyttum þörfum fólks.

Framtíðarsýn

Þessi framtíðarsýn byggir á fjórum víddum sem allar tengjast saman og hafa áhrif hver á aðra. Þær ná annars vegar til skólans sem menntastofnunar og hins vegar sem vinnustaðar og beinast að fjölbreytileika og inngildingu.

Framtíðarsýn jafréttisstefnu HA. Á myndinni sjást víddirnar fjórar.

Markmið

Til að uppfylla þessa framtíðarsýn hefur háskólinn sett sér fimm meginmarkmið sem er ætlað að brúa bil milli ólíkra hópa og fjölbreytts fólks að menntun og starfi við skólann auk markmiðs um bætta stjórnun og utanumhald með áætluninni. Aðgerðaráætlunin er svo sett upp til að mæta þessum markmiðum.

Markmið 1: Að bæta jöfnuð 

Þetta markmið snýr að því að endurhugsa ferla, stefnur og verklag til að jafna tækifæri fólks. Að bæta jöfnuð gagnvart starfsfólki og stúdentum, mæta kröfum jafnréttislöggjafar og viðmiðum fyrir jafnréttisáætlanir. Undir þetta markmið falla aðgerðir sem miða að því að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 6. gr. jafnréttislaga ásamt banni við mismunun í tengslum við laun og önnur kjör (sbr. 9. gr. laga nr. 86/2018 um bann við mismunun í tengslum við laun og önnur kjör). Einnig eru undir þessu markmiði aðgerðir er lúta að jafnlaunavottun vinnustaða, sbr. 7. gr. jafnréttislaga. Loks er hér að finna aðgerðir sem miða að því að háskólinn verði fjölskylduvænn vinnustaður, sbr. 13. gr. jafnréttislaga. Þá hefur háskólinn lagt fram aðgerðir sem eiga að bæta jöfnuð gagnvart stúdentum.

Markmiðið og aðgerðirnar sem undir það falla eiga við um allar víddir áætlunarinnar, bæði varðandi fjölbreyttari vinnustað og menntastofnun annars vegar og inngildandi vinnustað og menntastofnun hins vegar.

Markmið 2: Að rækta fjölbreytni 

Þetta markmið snýr að því að halda utan um tölur og gögn um kyn og finna leiðir til að auka fjölbreytileikann enn frekar. Að rækta fjölbreytni meðal starfsfólks og stúdenta, mæta kröfum jafnréttislöggjafar og viðmiðum fyrir jafnréttisáætlanir. Aðgerðir lúta að framfylgd 1. gr. jafnréttislaga, að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns, stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna, samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og ákvörðunum, efla fræðslu og rannsóknir í jafnréttismálum og greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni. Þá hefur háskólinn lagt fram aðgerðir sem eiga að bæta jöfnuð gagnvart stúdentum.

Markmiðið og aðgerðirnar sem undir það falla eiga við um allar víddir áætlunarinnar, bæði varðandi fjölbreyttari vinnustað og menntastofnun annars vegar og inngildandi vinnustað og menntastofnun hins vegar.

Markmið 3: Að útvíkka inngildingu 

Þetta markmið snýr að því að vinna markvisst að því að fólk tilheyri háskólasamfélaginu þrátt fyrir að standa utan hið viðtekna, eða normið. Að útvíkka inngildingu gagnvart starfsfólki og stúdentum, mæta kröfum jafnréttislöggjafar og viðmiðum fyrir jafnréttisáætlanir. Undir þetta markmið fellur það undirmarkmið að starf sem laust er til umsóknar standi opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og að atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf, sbr. 12 gr. jafnréttislaga og 8. gr. laga nr. 86/2018 um bann við mismunun í starfi og við ráðningu. Þá hefur háskólinn lagt fram aðgerðir sem eiga að bæta jöfnuð gagnvart stúdentum.

Markmiðið og aðgerðirnar sem undir það falla eiga við um allar víddir áætlunarinnar, bæði varðandi fjölbreyttari vinnustað og menntastofnun annars vegar og inngildandi vinnustað og menntastofnun hins vegar.

Markmið 4: Að auka áhrif

Þetta markmið snýr að því að vinna að verkefnum, fræðslu og vitundarvakningu sem styrkir jafnréttisstarf innan skólans. Að auka áhrif í gegnum margvísleg jafnréttisverkefni, mæta kröfum jafnréttislöggjafar og viðmiðum fyrir jafnréttisáætlanir. Undir það fellur undirmarkmið um að Háskólinn samþætti kynja- og jafnréttissjónarmið í allri stefnumótun og áætlanagerð, veiti fræðslu og ráðgjöf um jafnrétti á öllum námsstigum, endurskoði kennslugögn, styðji við rannsóknir á kynja- og jafnréttismálum, og tryggi eftirlit með framgangi jafnréttis innan skólans, sbr. 15. gr. jafnréttislaga. Þá fellur undir þetta markmið undirmarkmið sem falla undir 14. gr. jafnréttislaga og varða vinnu gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundnu áreitni og kynferðislegri áreitni. Þá hefur háskólinn lagt fram aðgerðir sem eiga að bæta jöfnuð gagnvart stúdentum.

Markmiðið og aðgerðirnar sem undir það falla eiga við um allar víddir áætlunarinnar, bæði varðandi fjölbreyttari vinnustað og menntastofnun annars vegar og inngildandi vinnustað og menntastofnun hins vegar.

Markmið 5: Bætt stjórnun og utanumhald

Þetta markmið snýr að því að bæta umgjörð jafnréttismála hjá skólanum. Í því felst að skýra ábyrgð á verkefnum, innleiðingu og framkvæmd aðgerða.

Jafnréttisáætlun 2025-2028

Háskólinn á Akureyri skuldbindur sig til að framkvæma þær aðgerðir sem hér fara á eftir til að ná markmiðum og framtíðarsýn um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Aðgerðunum er skipt upp eftir markmiðum.

Markmið 1: Að bæta jöfnuð - aðgerðir

 

1. Aðgengisúttekt

Framkvæmd er aðgengisúttekt á byggingum og aðstöðu háskólans út frá viðmiðum um algilda hönnun (e. universal design) og tímasett áætlun um úrbætur gerð.

  • Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður fasteigna
  • Tími: 2025-2028
  • Vídd: Allar

2. Betri skilyrði fyrir jaðarsetta nemendur

Jafnréttisráð, í samráði við Stúdentaráð, hannar og skipuleggur vettvang þar sem stúdentar sem tilheyra jaðarsettum hópum fá tækifæri til að deila upplifunum sínum, hindrunum og tillögum að úrbótum. Þetta ferli felur í sér auglýsingar, skráningu og val á fjölbreyttum hópi þátttakenda. Vettvangurinn verður öruggt rými, byggt upp á trúnaði, til að tryggja að þátttakendur geti tjáð sig opinskátt. Greina þarf gögn sem safnast frá vettvangnum til að skilja helstu áskoranir og þarfir jaðarsettra stúdenta. Niðurstöðurnar eru teknar saman í skýrslu sem inniheldur niðurstöður og tillögur að úrbótum. Niðurstöðurnar eru kynntar fyrir rektor og stjórnendum og innleiddar inn í starfsemi skólans.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2026-2027
  • Vídd: Fjölbreyttari menntastofnun og inngildandi menntastofnun

3. Húsverk og glamúrverkefni

Háskólinn á Akureyri gerir úttekt á launum, fríðindum og verkaskiptingu innan háskólans og nýtir þá úttekt til að skilgreina ólaunuð akademísk húsverk og svokölluð glamúrverkefni. Áhrif verkaskiptingarinnar á framgang og viðurkenningu starfsfólks eru metin. Í kjölfar úttektarinnar eru innleiddar tillögur að úrbótum til að jafna verkaskiptingu og tryggja sanngjarna dreifingu verkefna, með reglulegri endurskoðun til að meta árangur.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

4. Innri úttekt jafnlaunavottunar

Innri úttekt á ferlum jafnlaunavottunar er framkvæmd einu sinni á ári til að tryggja samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 og viðhalda stöðugum umbótum.

  • Ábyrgðaraðili: Lögfræðingur rektorsskrifstofu
  • Tími: 2025-2028 (Einu sinni á ári)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

5. Ytri úttekt jafnlaunavottunar

Viðhaldsúttekt er framkvæmd á ferlum jafnlaunavottunar einu sinni á ári til að tryggja samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 og viðhalda stöðugum umbótum.

  • Ábyrgðaraðili: BSI á Íslandi
  • Tími: 2025-2028 (Einu sinni á ári)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

6. Stjórnendarýni jafnlaunavottunar

Árlega er framkvæmd stjórnendarýni á ferlum jafnlaunavottunar. Leiðrétta á launin ef fram kemur óútskýranlegur munur á launum kynjanna.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

7. Fjölskylduvænn vinnustaður

Háskólinn á Akureyri viðheldur stefnu um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs með það að markmiði að jafna ábyrgð kynja á uppeldi, umönnun og heimilisstörfum og gerir það með innleiðingu stuðningsaðgerða, fræðslu, kynningu, reglulegri eftirfylgni og endurskoðun. Báðir foreldrar nýti sér þann rétt sem þau eiga varðandi foreldra- og fæðingarorlof og leyfi vegna veikindi barna.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

Markmið 2: Að rækta fjölbreytni - aðgerðir

 

1. Fjölbreyttur háskóli

Fjölbreyttur hópur starfsfólks og stúdenta kemur fram fyrir hönd Háskólans á öllum opinberum vettvangi. Þetta felur í sér þátttöku á fundum, viðburðum, í fjölmiðlum og í kynningarefni. Að auki er listi yfir sérfræðisvið starfsfólks vel kynntur og aðgengilegur, til að stuðla að sýnileika og aðgengi að fjölbreyttum hæfileikum innan skólans.

  • Ábyrgðaraðili: Stjórnendur
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Allar

2. Fjölbreytt hlutverk

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á það að útgefið efni á vegum skólans viðhaldi ekki staðalmyndum um kyn, kynhlutverk, uppruna, húðlit, kynhneigð, hreysti, líkamsgerð eða annað sem stuðlar að jaðarsetningu, útilokun og mismunun í samfélaginu. Það felur í sér að innleiða verklag við útgáfu, ferli fyrir yfirlestur og samþykki efnis áður en það er útgefið með áherslu á jafnréttis- og fjölbreytileikasjónarmið. Að auki þarf að fræða starfsfólk sem tekur þátt í útgáfu efnis um mikilvægi þess að þekkja staðalmyndir og birtingarmyndir mismununar. Loks þarf að endurskoða efni árlega og koma með ábendingar að úrbótum.

  • Ábyrgðaraðili: Stjórnendur
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Allar


3. Kyn og fjölbreytileiki í nefndum og ráðum

Þegar óskað er eftir tilnefningar í nefndir, innan sem utan HA, skal tilnefna fólk af tveimur kynjum í hvert sæti ef hægt er, svo endanlegt val verði sem fjölbreyttast.

  • Ábyrgðaraðili: Skrifstofustjóri rektorsskrifstofu
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

4. Þátttaka í félagsstarfi

Markvisst skal hvetja til virkni í félagsstarfi stúdenta og tryggja að fjölbreytt fólk af öllum kynjum séu tilnefnd í trúnaðar og stjórnarstörf innan SHA eins og kostur gefst.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð og SHA
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari menntastofnun og inngildandi menntastofnu

Markmið 3: Að útvíkka inngildingu - aðgerðir

 

1. Tölfræðiupplýsingum safnað til að bæta stöðuna

Árleg samantekt á lykilupplýsingum í starfsemi skólans.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2027 (Árlega)
  • Vídd: Allar

2. Stuðningur við starfsfólk af erlendum uppruna

Unnið að inngildandi tungumálanotkun gagnvart starfsfólki háskólans.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2026 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

3. Stuðningur við stúdenta af erlendum uppruna

Unnið að inngildandi tungumálanotkun gagnvart stúdentum háskólans.

  • Ábyrgðaraðili: Deildir / Fræðasvið
  • Tími: 2025-2026 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari menntastofnun og inngildandi menntastofnun

4. Inngildandi ráðningarferli

Háskólinn á Akureyri rýnir og endurbætir verkferla Háskólans varðandi ráðningarferli með sérstakri áherslu á kynja- og fjölbreytileikasjónarmið. Enda á hvert það starf sem laust er til umsóknar að vera opið fjölbreyttu fólki að öllum kynjum. Verkferlar skulu rýndir og þróaðar leiðbeiningar og þjálfun. Innleiddar verði vörður til að tryggja fjölbreytileika og kynjajafnrétti, og framkvæma þarf reglulega endurskoðun á ferlum til að tryggja að markmiðum sé náð.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

5. Jafnréttisskimun

Á gildistíma áætlunarinnar er farið í tilraunaverkefni á einni skrifstofu háskólans þar sem allar stærri ákvarðanir eru jafnréttismetnar samkvæmt þar til gerðu eyðublaði (Jafnréttisskimun).

  • Ábyrgðaraðili: Skrifstofustjóri Jafnréttisskrifstofu og Jafnréttisráð
  • Tími: Fyrir árið 2027
  • Vídd: Allar

Markmið 4: Að auka áhrif - aðgerðir

 

1. Jafnréttisdagar

Jafnréttisráð tekur virkan þátt og hvetur allt háskólasamfélagið til þátttöku í árlegum Jafnréttisdögum. Á Jafnréttisdögum er vakin er athygli á öllu því sem viðkemur stöðu kynjanna, fjölbreytileika og inngildingu.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Allar

2. Kynjafræði- og fjölbreytileikanámskeið

Til að tryggja aðgengi að jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi í samræmi við jafnréttislög þá verður það markmið að samþætta kynja- og fjölbreytileikasjónarmið inn í námskeið í öllum deildum. Önnur nálgun er að deildir bjóði upp á námskeið um kynja- og fjölbreytileikasjónarmið.

  • Ábyrgðaraðili: Deildarforsetar/formenn námsnefnda
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari menntastofnun og inngildandi menntastofnun

3. Jafnréttis- og fjölbreytileikafræðsla

Fræðsla um kyn, fjölbreytileika og inngildingu stendur öllu starfsfólki og stúdentum til boða a.m.k. einu sinni á ári, þar sem áhersla er lögð á inngildandi námsefni, kennsluaðferðir og háskólasamfélag. Árlegt samtal fer fram milli gæða- og mannauðsteymis og starfsmanns Jafnréttisráðs til að tryggja að viðunandi fræðsla sé í boði.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Allar

4. Kynjaðar áherslur í kennslu

Kennurum við HA stendur til boða að sækja námskeið um kynjaðar áherslur í kennslu til að uppfylla 15. gr. jafnréttislaga um kynjasjónarhorn í náms- og kennsluskrám.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

5. Fræðsla fyrir Jafnréttisráð

Formaður og starfskraftur jafnréttisráðs sækir árlegan fræðsludag með samráðsvettvangi jafnréttisfulltrúa þar sem fjallað er um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu út frá ólíkum sjónarhornum.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2025-2028 (Árlega)
  • Vídd: Allar

6. EKKÓ fræðsluefni

Fræðsluefni um eðli, afleiðingar og viðbrögð við kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi er aðgengilegt í handbók stúdenta og á vefsíðu HA. Þá skulu upplýsingar um ferli fyrir kvartanir og starfsemi fagráðs vera vel kynntar á netinu og í raunheimum, meðal annars í rafrænum fréttabréfum og á upplýsingaskiltum innan skólans.

  • Ábyrgðaraðili: Fagráð EKKÓ
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Allar

7. EKKÓ umræða

Í upphafi hvers skólaárs er umræða um kynbundna áreitni og mismunun sett á dagskrá sviðsfunda og deildarfunda. EKKÓ mál eru alltaf sett á dagskrá þegar rætt er við bæði stúdenta og starfsfólk um starfsumhverfi, öryggi og líðan í skólanum.

  • Ábyrgðaraðili: Gæða- og mannauðsstjóri
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Allar

8. Reiknilíkan

Á gildistíma áætlunarinnar verði jafnréttisráði falið að skoða hvort hægt sé að aðlaga notkun á reiknilíkani Háskólanna að ólíkri stöðu kynjanna og jaðarsettra hópa og kynna þær niðurstöður fyrir Háskólaráði og rektor Háskólans á Akureyri.

  • Ábyrgðaraðili: Háskólaráð
  • Tími: 2025-2028 (Brotið niður í verkþætti)
  • Vídd: Fjölbreyttari vinnustaður og inngildandi vinnustaður

Markmið 5: Bætt stjórnun og utanumhald - aðgerðir

 

1. Jafnréttisáætlun - Ábyrgð og eignarhald

Háskólaráð og Rektor Háskólans á Akureyri eru eigendur jafnréttisáætlunarinnar og þar með talið ábyrg fyrir áætluninni. Þau kalla eftir stöðu tvisvar á ári.

  • Ábyrgðaraðili: Rektor og Háskólaráð
  • Tími: 2025-2028 (Tvisvar á ári)

2. Jafnréttisáætlun – Framkvæmd

Fyrir hönd Háskólaráðs og rektors bera yfirstjórnendur meginábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar í samráði við jafnréttisráð. Það felur í sér að tala fyrir áætluninni og koma aðgerðum í viðeigandi farveg.

  • Ábyrgðaraðili: Stjórnendur
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

3. Jafnréttisáætlun - Framkvæmd aðgerða

Meginábyrgð á að aðgerðaáætlunin komist til raunverulega framkvæmda er dreifð og sameiginleg stjórnendum, starfsfólki og stúdentum.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

4. Jafnréttisáætlun – Innleiðing

Jafnréttisráð fylgir eftir innleiðingu áætlunarinnar í umboði rektors og Háskólaráðs. Formaður og starfskraftur jafnréttisráðs fara með daglega umsjón hennar og veita öllum hlutaðeigandi stuðning við framkvæmd þeirra aðgerða sem kveðið er á um.

  • Ábyrgðaraðili: Formaður jafnréttisráðs
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

5. Jafnréttisáætlun - Eftirfylgni í formi mælaborðs

Framsetning á innleiðingu og eftirfylgni áætlunarinnar er í formi mælaborðs þar sem staða verkefna og árangur eru metin á sex mánaða fresti. Mælaborðið er þróað og viðhaldið af starfsmanni jafnréttisráðs og tilbúið á vef skólans eigi síðar en um miðbik árs 2025.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

6. Jafnréttisáætlun - Kynning áætlunarinnar

Jafnréttisáætlunin er aðgengileg öllum hagaðilum og sýnileg á vef Háskólans. Hún er kynnt á opnum kynningarfundi að samþykkt lokinni. Jafnréttisáætlunin er vel kynnt við við móttöku nýs starfsfólks og gagnvart nýnemum.

  • Ábyrgðaraðili: Formaður jafnréttisráðs
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

7. Jafnréttisráð - Mat á áætluninni

Undir lok gildistíma áætlunarinnar er viðhorfskönnun lögð fram fyrir starfsfólks og stúdenta. Þar er óskað svara við áhrifum áætlunarinnar sem nýtist við gerð nýrrar áætlunar.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2028

8. Skipun og starfsemi jafnréttisráðs

Jafnréttisráð er skipað tveimur fulltrúum frá hvoru fræðasviði, einum fulltrúa sem er sameiginlega tilnefndur af háskólaskrifstofu og skrifstofu rektors og tveimur fulltrúum SHA. Formaður Jafnréttisráðs er skipaður af rektor án tilnefningar. Ráðið fundar að öllu jöfnu mánaðarlega og ekki sjaldnar en sex sinnum á ári, og kallar eftir upplýsingum frá ábyrgðaraðilum verkefna tvisvar á ári (að vori og hausti). Upplýsingarnar birtast á vefnum í mælaborði sem fylgir eftir aðgerðum áætlunarinnar. Starfskraftur jafnréttisráðs sinnir daglegum störfum ráðsins.

  • Ábyrgðaraðili: Jafnréttisráð
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

9. Starfskraftur Jafnréttisráðs:

Starfskraftur jafnréttisráðs er hlutastarf. Hann sinnir daglegum störfum jafnréttisráðs, hefur yfirsýn yfir fræðslu og gerð mælaborðs, kemur að jafnlaunavinnu og er tengiliður jafnréttisráðs við ábyrgðarfólk verkefna í áætlun þessari.

  • Ábyrgðaraðili: Starfskraftur jafnréttisráðs
  • Tími: 2025-2028 (Stöðugt)

10. Starfshlutfall starfskrafts jafnréttisráðs:

Starfshlutfall starfsmanns jafnréttisráðs er endurskoðað yfir gildistíma áætlunarinnar vegna aukinna umsvifa í jafnréttismálum.

  • Ábyrgðaraðili: Skrifstofustjóri rektorsskrifstofu
  • Tími: Fyrir 2028

Stjórnun og eftirfylgni

Rektor Háskólans á Akureyri er eigandi jafnréttisáætlunarinnar, en háskólaráð og stjórnendur bera meginábyrgð á framkvæmd hennar. Markmiðið með stjórnun og eftirfylgni er að bæta utanumhald áætlunarinnar, tryggja að hún skili tilætluðum árangri og að jafnréttisáætlunin sé í stöðugri þróun, líkt og önnur stefnumótun. Einnig er markmiðið að auka gagnsæi og upplýsingamiðlun, auk þess að tryggja að allar aðgerðir fari í réttan farveg.

Jafnréttisráð sér um framkvæmd áætlunarinnar og starfskraftur jafnréttisráðs fer með daglega umsjón hennar.

Stjórnun og eftirfylgni með áætluninni 

Jafnréttisráð Háskólans á Akureyri er skipað eftirfarandi fulltrúum:

  • Tveimur fulltrúum frá hvoru fræðasviði
  • Tveimur fulltrúum frá háskólaskrifstofu/skrifstofu rektors
  • Tveimur fulltrúum frá Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA)
  • Formanni sem skipaður er af rektor án tilnefningar

Rektor skipar formann ráðsins og með því starfar starfskraftur í hlutastarfi. Við skipan fulltrúa skal tryggja að tveir fulltrúar af ólíkum kynjum séu tilnefndir hverju sinni, þar sem annar situr sem aðalfulltrúi og hinn sem varafulltrúi.

Jafnréttisráð fundar að jafnaði mánaðarlega og ekki sjaldnar en sex sinnum á ári. Jafnréttisráð hefur umsjón með mælaborði aðgerðaráætlunar í jafnréttismálum. Formaður óskar reglulega eftir stöðu aðgerða fyrir mælaborðið og uppfærir í samræmi við það. Árlega að vori er haldinn kynningarfundur um jafnréttismál og stöðu aðgerða með hagaðilum. Jafnframt er samantekt á starfsemi ráðsins birt í ársskýrslu háskólans.

Helstu hlutverk jafnréttisráðs:

  1. Að fylgja eftir framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar
  2. Að fylgja eftir stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri
  3. Að stuðla að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð með sérstakri áætlun til þriggja ára
  4. Að tryggja að stúdentar og starfsfólk fái fræðslu um jafnréttismál
  5. Að vera í tengslum við Jafnréttisstofu varðandi jafnlaunavottun og jafnréttisáætlun
  6. Að innleiða markmið og aðgerðir til að stuðla að auknum fjölbreytileika í stjórnunar- og áhrifastöðum og greina frá stöðu þeirra á svæði jafnréttisáætlunar

Jafnréttisráð er skipað til tveggja ára í senn. Jafnréttisráð er skipað af háskólaráði en rektor ber ábyrgð á skipan jafnréttisráðs og störfum þess. Fulltrúar í jafnréttisráði sækja námskeið um jafnrétti kynjanna, fjölbreytileika, inngildingu og samþættingu sér að kostnaðarlausu. Þeim ber að hafa yfirsýn yfir kynjahlutföll í hópi starfsfólks og stúdenta á sínu sviði.

Til þess að skýra ábyrgð er búið að brjóta alla verkþætti stjórnunar og eftirfylgni niður í markmið og aðgerðir.

Launastefna Háskólans á Akureyri

Markmið Háskólans á Akureyri er að tryggja starfsfólki sínu samkeppnishæf launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo háskólinn geti laðað að hæft starfsfólk sem vex og dafnar í starfi. Laun skulu ávallt ákvörðuð á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða þannig að enginn ómálefnalegur launamunur fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sé til staðar.

Háskólaráð og rektor bera, sem æðstu stjórnendur, endanlega ábyrgð á launastefnunni. Gæða- og mannauðsstjóri, ber ábyrgð á því að launastefnunni sé framfylgt og að starfsfólk og stjórnendur háskólans þekki til stefnunnar.

Til að framfylgja launastefnunni skuldbindur háskólinn sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun launaferla í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals ÍST85 og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Með jafnlaunastaðlinum á það að vera tryggt að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en feli ekki í sér beina eða óbeina kynjamismunun.

Til þess að framfylgja markmiðum launastefnunnar mun Háskólinn:

  • Innleiða og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi byggðu á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 í samræmi við lög
  • Staðla verklag við launaákvarðanir með viðeigandi verklagsreglum og leiðbeiningum sem komi í veg fyrir beina eða óbeina kynjamismunun
  • Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki
  • Hafa eftirlit með og bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum
  • Gera innri úttekt og rýna framkvæmd jafnlaunastaðalsins og árangur þess með stjórnendum árlega
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma
  • Kynna stefnuna fyrir starfsmönnum háskólans og birta hana á ytri vef

Samþykkt af háskólaráði 28. nóvember 2024
Staðfest af Jafnréttisstofu 11. desember 2024