Mannauðsstefna

Mannauðsstefna 2011-2014 var samþykkt af háskólaráði 27. júní 2011 undir yfirskriftinni samhent og öflug liðsheild. Háskólaráð samþykkti þann 19. september 2019 að mannauðsstefnan gildi áfram þar til endurskoðun hefur farið fram.

Inngangur

Háskólinn á Akureyri er metnaðarfullt þekkingarsamfélag og þekkingin sem býr í starfsfólki er helsti auður hans. Háskólinn býður sambærileg launakjör og aðrir opinberir háskólar og lögð er áhersla á að skapa hvetjandi og frjótt starfsumhverfi þar sem þekking og færni starfsmanna fá að njóta sín og vaxa.

Lögð er áhersla á að bjóða fyrirmyndarstarfsumhverfi á nýuppbyggðu háskólasvæði sem umlukið er náttúrufegurð Eyjafjarðar.

Samkvæmt meginstefnu Háskólans á Akureyri er unnið að því að skapa krefjandi og persónulegt námsumhverfi þar sem nemendur eru settir í öndvegi. Háskólinn leggur áherslu á að efla rannsóknastarf og virk tengsl við samfélagið bæði hér á landi sem erlendis.

Stefnt er að því að háskólinn verði alþjóðlega viðurkennd menntastofnun sem skarar framúr á völdum fræðasviðum. Háskólinn á Akureyri mun ná markmiðum sínum með samhentri og öflugri liðsheild starfsmanna þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi í öllum aðgerðum er varða mannauðsmál.

1. Jafnrétti

Í Háskólanum á Akureyri er lögð áhersla á jafnræði og jafnrétti. Starfsfólki er ekki mismunað eftir aldri, kynferði, kynþætti, kynhneigð, fötlun, þjóðerni, trúar- eða stjórnmálaskoðunum.

Stefnt er að jöfnu hlutfalli kynjanna í stjórnun, þjónustu og kennslu. Allt starfsfólk skal fá sömu tækifæri og hvatningu til að þróast í starfi og ná árangri.

Einelti og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin og leitast er við að vinna með öðrum stofnunum á jafnréttissviði í þeim tilgangi að miðla upplýsingum og þekkingu á jafnrétti á vekjandi og hvetjandi hátt.

2. Ráðningar og móttaka nýliða

Háskólinn á Akureyri vill laða til sín hæft starfsfólk með hliðsjón af faglegum kröfum, gildum og þörfum, jafnframt því að tryggja markvisst ráðningar- og móttökuferli.

3. Stjórnun

Góð stjórnun er grundvöllur þess að Háskólinn á Akureyri sé skilvirk skipulagsheild. Aðgengi að gögnum þarf að vera tryggt og upplýsingaflæði á að vera gott.

Ef taka þarf ákvörðun um breytingar á skipulagi eða verkaskiptingu, sem eru íþyngjandi fyrir starfsfólk, skal ávallt gæta jafnræðis, réttlætis og meðalhófs í anda stjórnsýsluréttar og laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þetta skal einkum hafa í huga og rannsaka vandlega þegar uppsögn starfsmanns er fyrirhuguð.

4. Frammistöðumat, stuðningur, símenntun og starfsþróun

Háskólinn á Akureyri styður starfsfólk til að ná árangri og hvetur það til sí- og endurmenntunar. Notað er skilvirkt kerfi til að meta frammistöðu og leitast er við að tryggja að allt starfsfólk fái jöfn tækifæri til framþróunar og sé hvatt til að nýta sér þau.

5. Starfsaðstaða og vinnuumhverfi

Háskólinn á Akureyri sér til þess að starfsfólk geti unnið vel og hafi til þess nauðsynlega aðstöðu og stuðning. Lögð er áhersla á að uppfylla kröfur um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Starfsfólki á að líða vel á vinnustaðnum og hlakka til vinnudagsins.

6. Samræming starfs og einkalífs

Háskólinn á Akureyri vill að starfsfólk hafi svigrúm til að finna jafnvægi milli starfs og einkalífs. Komið er til móts við starfsfólk hvað varðar vinnutilhögun, starfshlutfall og orlofstöku þegar það er mögulegt.