Efla þarf nám í lagareldi og styrkja eftirlitsstofnanir

Út er komin skýrslan „Lagareldi, mannauður og menntun“ sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir matvælaráðuneytið
Efla þarf nám í lagareldi og styrkja eftirlitsstofnanir

Í skýrslunni „Lagareldi, mannauður og menntun“ sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir matvælaráðuneytið kemur meðal annars fram að efla þurfi nám í lagareldi og samhæfa það öflugu fagháskólanámi sem spanni bæði framhalds- og háskólastig.

Einnig kemur fram að fyrirtæki í lagareldi þurfi að marka sér skýra mannauðsstefnu og auka þurfi námsframboð þeirra háskóla sem nú þegar bjóða upp á nám í lagareldi á háskólastigi, s.s. Háskólans á Hólum. Færa þurfi námið upp á BS stig og samhæfa framboð annarra háskóla sem bjóða upp á almennt háskólanám í takt við þarfir fiskeldis. Kynna þurfi atvinnugreinina á meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla, til þess mætti nýta hugmyndafræði Fiskeldisskóla unga fólksins sem nú þegar er starfræktur.

Lagt er til í skýrslunni að fagráð um nám í lagareldi verði stofnað sem samanstandi m.a. af fulltrúum fyrirtækja í lagareldi, frá ráðuneytum matvæla og menntamála og hagaðilum. Að auki kemur fram í skýrslunni að tryggja þurfi nægt fjármagn til að eftirlitsstofnanir og aðrar stofnanir sem koma að lagareldi geti ráðið það starfsfólk sem þarf til að stofnanirnar geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum og að starfsfólk viðkomandi stofnana eigi kost á viðbótar- og endurmenntun.

Fjölmörg tækifæri fyrir Háskólann á Akureyri

„Tækifæri fyrir Háskólann á Akureyri eru sannarlega til staðar. Það er mikið af tæknimenntuðu fólki sem vinnur við lagareldið og því má ætla að tæknifræðinámið sem boðið er upp á hér við háskólann muni nýtast. Einnig mætti hugsa sér að bjóða upp á meira nám tengt fiskeldi við Auðlindadeild HA. Það er sett fram í skýrslunni að það þurfi að koma á fót fagháskólanámi í lagareldi og þar gætu legið tækifæri fyrir Háskólann á Akureyri. Einnig eins og í öllum rekstri þá þarf fólk í lagareldið sem hefur viðskiptafræðimenntun og þá hugsanlega með áherslu á lagareldi. Þá þarf einnig fólk með menntun í líftækni og lögfræði,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar HA.

Aðspurð að því hvað standi upp úr og sé áberandi í skýrslunni segir Guðrún: „Það er t.d. það að styðja við Fiskeldisskóla unga fólksins. Það er samkeppni um unga fólkið sem er að velja sér störf og starfsvettvang. Því þarf að efla skólann og styrkja til að kveikja áhuga ungmenna í efstu bekkjum grunnskóla á lagareldinu. Einnig þarf að sjá til þess að veitt sé fé til stofnana þannig að þeirra starfsfólk hafi tækifæri til að auka við sig menntun og þekkingu svo þau verði fær um að sinna hlutverki sínu. Setja á stofn fagráð um nám í lagareldi sem verði samsett af fulltrúum eldisfyrirtækja, ráðuneyta matvæla og menntamála, stofnana og annarra hagaðila.“ 

„Einnig þarf að vinna að því að koma á fót fagháskólanámi í lagareldi og efla þá skóla sem nú þegar bjóða upp á nám í lagareldi bæði á framhalds- og háskólastigi. Svo er nefnt í skýrslunni að það ætti að koma á fót sjálfseignarstofnun fyrirtækja í greininni, ráðuneyta og annarra hagaðila sem héldi um og styddi við málefni fiskeldisins líkt og gert er í Noregi og Færeyjum,“ segir Guðrún Arndís að lokum.

Áhugasöm geta nálgast skýrsluna hér.