Tveir kennarar við Háskólann á Akureyri voru teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna
Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor við Félagsvísindadeild og Jette Jörgensen Mebrouk, lektor við Hjúkrunarfræðideild voru tekin inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna á sérstakri athöfn sem fram fór á Litla Torgi í HÍ föstudaginn 3. nóvember síðastliðinn.
Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð árið 2021 með stuðningi frá stjórnvöldum. Akademían er að norrænni fyrirmynd og er markmið hennar að stuðla að samtali um kennslu og kennsluþróun innan og milli opinberu háskólanna. Ár hvert eru einstaklingar, sem skarað hafa fram úr í kennslu og kennsluþróun, teknir inn í Kennsluakademíuna sem alþjóðleg nefnd sérfræðinga í háskólakennslu metur á grundvelli umsóknar og viðtals.
Guðmundur og Jette voru í hópi 14 háskólakennara sem teknir voru inn sem meðlimir í Kennsluakademíuna og bætast við þá 20 framúrskarandi háskólakennara sem voru í henni fyrir.
„Mér þykir afar vænt um þessa miklu viðurkenningu á minni kennslu og kennsluháttum og mun hún verða mér frekari hvatning til góðra verka á þessu sviði. Ég brenn fyrir kennslu líkt og rannsóknum og vil láta gott af mér leiða á þessum samofnu sviðum. Kennsluakademían er frábær vettvangur til að þróa sig áfram sem háskólakennari. Það eru framúrskarandi kennarar í akademíunni og ég hlakka mikið til læra af þeim og deila með þeim og öðrum kennslureynslu minni og þekkingu,“ segir Guðmundur um viðurkenninguna.
Meðlimir Kennsluakademíunnar hafa allir verið mjög virkir í þróun kennsluhátta og brautryðjendur í nemendamiðuðum og virkum kennsluaðferðum og við óskum öllum 14 sem tekin voru inn innilega til hamingju með viðurkenninguna.