Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólasetur Vestfjarða bjóða upp á námið
Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólasetur Vestfjarða munu í haust bjóða upp á hagnýtt diplómanám í íslensku sem annað mál í fjarnámi. Fyrirkomulag námsins var kynnt á upplýsingafundi á Amtsbókasafninu síðastliðinn föstudag.
Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hefur lengi stefnt að því að bjóða upp á hagnýtt diplómanám í íslensku sem annað mál við Háskólann á Akureyri. Á síðasta ári þegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið auglýsti samstarfssjóð háskólanna sótti Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands um styrk til eflingar íslenskrar tungu. Meðal verkefna í umsókninni var bætt aðgengi að íslenskukennslu óháð staðsetningu og með meiri sveigjanleika í tíma til þess að styrkja aðlögun fólks af erlendum uppruna og veita þeim betri tækifæri í íslensku samfélagi. Meðal annars til að mennta sig við íslenska háskóla og fá sterkari stöðu í íslensku samfélagi. Háskólinn á Akureyri var samstarfsaðili að þessari umsókn og hefur Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við Félagsvísindadeild leitt samstarfið fyrir hönd HA.
„Samstarfið felst í því að öll kennsla fer fram í fjarkennslu frá HÍ en nýnemafundur, mið misserispróf, lota og lokapróf fara fram í HA. Ég er tengiliður námsins í HA og nemendur geta leitað til mín ef þeir vilja. Auðvitað er þessi lausn, það er að segja, fjarnám frá HÍ ekki eins og ég lagði upphaflega með en mestu máli skiptir að námið er höfn og núna munu innflytjendur á Norðurlandi hafa tækifæri á íslenskunámi á háskólastigi. Samstarf okkar við HÍ hefur verið með miklum ágætum og ég er mjög sátt við þessi málalok,“ segir Ingibjörg.
„Þá ber að nefna að í haust mun Félagsvísindadeild fara af stað með BA nám í nútímafræði en hluti þess náms verða íslenskunámskeið (fjarkennd fá HÍ) sem eru fyrir þau sem eru lengra komin í íslensku. Þar með hefur Háskólinn á Akureyri gert innflytjendum á Akureyri og nágrenni tækifæri til háskólanáms sem getur opnað dyr meðal annars að betri launuðum störfum,“ segir Ingibjörg að lokum.