Sigrún Sigurðardóttir er dósent við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hennar snúa að sálrænum áföllum og ofbeldi, afleiðingum þess fyrir heilsufar og líðan, og úrræðum.
„Rannsóknarsvið mitt er sálræn áföll og ofbeldi, afleiðingar þess og úrræði, áfallamiðuð nálgun og samþættar meðferðir,“ útskýrir Sigrún nánar.
Í kennslu kemur Sigrún að þessu mikilvæga viðfangsefni. „Aðalnámskeiðið mitt í haust er námskeiðið Sálræn áföll og ofbeldi í framhaldsnámi í heilbrigðisvísindum, sem hefur aldrei verið vinsælla. Námskeiðið sitja yfir 90 stúdentar. Þetta er málefni sem brennur á samfélaginu og það skilar sér hingað inn. Ég kenni það námskeið annað hvert haust og mér sýnist að það sé komin þörf fyrir það árlega,“ segir Sigrún.
Þá kennir Sigrún einnig 4. árs hjúkrunarfræðinemum Samfélagshjúkrun þar sem hún kemur einnig aðeins inn á áföll og ofbeldi, sem má segja að sé hennar hjartans mál í kennslu og rannsóknum. Sigrún segir að það sé ekki einungis vinnan hennar að fjalla um þessi mál heldur sé það einnig áhugamál.
„Aðaláhugamál mitt er samt að fylgjast með börnunum mínum þrem og sjá þau blómstra svo fallega hvert á sinn hátt, ýmist í leiklist, tónlist, kvikmyndagerð eða eldflaugaverkfræði. Það er ómetanlegt að geta ræktað þau blóm svo fallega þegar maður fæst við eins krefjandi viðfangsefni og ofbeldi er. Það eru því oft þau sem næra mig með endalausum uppátækjum sínum og sýningum,“ segir Sigrún.
Vill grípa ungmennin áður en þau detta í fossinn
Fyrir utan þessi tvö námskeið sem Sigrún hefur umsjón með í haust fer hún í alla 9. bekki í grunnskólum á Akureyri þar sem hún fræðir ungmenni um ofbeldi og áföll í forvarnarskyni. „Þar er ég að benda á leiðir til úrræða og mikilvægi þess að leita sér aðstoðar til að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar. Það er ótrúlega gefandi að spjalla við flottu ungmennin, og þau hafa verið mjög áhugasöm, enda hefur umræðan undanfarið um ofbeldi verið mikil, sérstaklega meðal ungmenna,“ útskýrir Sigrún.
Í framhaldi af fræðslunni fékk Sigrún tækifæri til að vera með fræðslu fyrir alla skólahjúkrunarfræðinga á landinu um áföll, ofbeldi og ACE (adverse childhood experience). Markmiðið er að skólahjúkrunarfræðingar taki að hluta til við boltanum og fræði öll ungmenni á landinu um ofbeldi og kynni þeim ACE-listann: „Ég er óendanlega þakklát fyrir það framfaraskref í heilsugæslunni að spyrja ungmenni um áföll og ofbeldi og koma þeim til aðstoðar. Þar með erum við að grípa ungmenni áður en þau detta í fossinn og þurfum vonandi ekki að bjarga þeim seinna frá drukknun. Ég er mjög þakklát fyrir það.“
Mikill heiður að vera í Doktorsnefnd
Fyrsta doktorsvörnin við HA fór fram nú í október og sat Sigrún í Doktorsnefnd nemans sem þá lauk námi. Það þótti henni ótrúlega mikill heiður: „Sérstaklega er það heiður að fyrsta vörnin hafi verið á sviði áfalla og ofbeldis, og mér finnst ég eiga smá í flotta nýdoktornum, Karen Birnu, sem kom í námskeið hjá mér fyrir nokkrum árum. Það sem tengdi okkur saman þá var að við höfðum báðar misst feður okkar unga og fannst það spennandi rannsóknarefni, en það er rannsókn sem bíður betri tíma. Það er magnað að sjá ávöxt af vinnunni á þennan hátt.“
Sigrún er fædd á Ísafirði árið 1968 og ólst þar upp. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum á Ísafirði 1988, frá Lögregluskóla Ríkisins 1993 og sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 2001. Sigrún lauk meistaraprófi í heilbrigðisvísindum frá sama háskóla árið 2007 og loks doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2017.
Þessi umfjöllun er hluti af kynningu á Vísindafólkinu okkar – Sjá umfjöllun á Instagram