Doktorsvörn í félagsfræði

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir ver doktorsritgerð sína

Föstudaginn 21. júní mun Gréta Bergrún Jóhannesdóttir verja doktorsrigerð sína í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Doktorsrigerðin ber heitið: Ein af þessum sögum. Félagslegt taumhald, fólksflutningar og slúður: ungar konur í litlum byggðarlögum á Íslandi.

Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 11:00 og er öllum opin.

VINSAMLEGAST TILKYNNIÐ MÆTINGU Í HÁTÍÐARSAL HÉR

Vörninni verður einnig streymt hér.

Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Þórodds Bjarnasonar prófessors við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Auk hans voru í doktorsnefnd Unnur Dís Skaptadóttir prófessor við Háskóla Íslands, Ólöf Garðarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Vífill Karlsson dósent við Háskólann á Akureyri.

Andmælendur eru Ruth McAreavey Prófessor í félagsfræði við Newcastle University og Gyða Margrét Pétursdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.

Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og Dr. Tom Barry, forseti Hug- og félagsvísindasviðs, munu stýra athöfninni.

Um doktorsefnið

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir er fædd og uppalin á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og býr í dag á heimaslóðum, nánar tiltekið á Þórshöfn á Langanesi. Hún lauk BA námi í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri árið 2007. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar, þar sem hún kláraði MA gráðu í kynjafræði árið 2009. Á árunum 2009 til 2020 starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga við ýmiss konar byggðarannsóknir og verkefni. Hún hefur brennandi áhuga á jafnréttismálum sem og byggðamálum.

Samhliða doktorsnáminu hefur Gréta Bergrún sinnt kennslu við HA þar sem hún hefur kennt rannsóknaraðferðir, félagsfræði, byggðafræði og leiðsagt BA stúdentum. Sem part af náminu vann hún um tíma í Þrándheimi, við Ruralis-byggðarannsóknarmiðstöð Noregs og einnig stuttlega við University of Gröningen í Hollandi. Þá hefur hún einnig sótt fjölda erlendra og innlendra ráðstefna til að kynna verkefnið, auk þess sem það hefur fengið nokkra fjölmiðlaumfjöllun.

Ágrip

Í þessu doktorsverkefni eru rannsökuð samfélagsleg áhrif á ungar konur í litlum byggðarlögum og félagslegir þættir sem hafa áhrif á búsetu þeirra og búsetuánægju. Þar er sérstaklega horft til þess hvernig félagslegt taumhald slúðurs virkar í þessum samfélögum og hvernig því er beitt gegn konum.

Rannsóknin byggir á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum. Megindleg gögn koma úr könnunum sem lagðar voru fyrir á Íslandi árin 2019-2020 á vegum verkefnisins „Búferlaflutningar á Íslandi“. Niðurstöðurnar sýna að það félagslega taumhald sem felst í slúðri hefur áhrif á búferlaáætlanir bæði karla og kvenna í litlum byggðarlögum. Þau sem upplifa mikið slúður um sitt ástarlíf eru tvöfalt líklegri til að ætla að flytja en önnur sem ekki upplifa slíkt. Fyrir þau sem fluttu áður fyrr úr litlum byggðarlögum til höfuðborgarsvæðisins má sjá kynjamun. Konur sem nefna slúður sem eina af ástæðum fyrir fyrri flutningum eru marktækt ólíklegri til að snúa aftur út í landsbyggðirnar en önnur sem fluttu.

Eigindleg gögn koma úr viðtölum sem voru tekin við konur í nokkrum sjávarbyggðum á Íslandi árin 2019-2021. Megináhersla viðtalanna var viðhorf og upplifun kvennanna á slúðri og hvernig þær upplifa það í sínu samfélagi. Niðurstöður viðtalanna sýna að konur upplifa félagslega stjórnun og kynbundna drusluskömm í þessum litlu samfélögum, þar sem frelsi kvenna til einkalífs er takmarkað nema eiga á hættu umtal og slúður. Konurnar sýna forðun í félagslegri hegðun, þar sem ótti við slúður og skömm hefur áhrif á hegðun þeirra og gjörðir. Þá eru einhleypar konur einnig að upplifa sterkt félagslegt taumhald þegar kemur að kynlífi og ástarlífi.

Lykilorð: slúður, félagslegt taumhald, fólksflutningar, konur, lítil byggðarlög

Áhugasöm geta nálgast doktorsrigerðina hér.

Öll velkomin