Fólkið í HA: Svava Arnardóttir

Fólkið í HA: Svava Arnardóttir

Svava Arnardóttir er iðjuþjálfi frá Háskólanum á Akureyri og er næsti viðmælandi í Fólkið í HA. Hún gefur okkur innsýn í fjölbreytt og spennandi starf sitt sem iðjuþjálfi og gefur nýstúdentum góð ráð.

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfri þér?

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, er þrítug og vinn sem iðjuþjálfi hjá Hugarafli. Ég flutti norður á Akureyri til að stunda námið við HA sem staðarnemi. Ég sinnti ýmsu samhliða náminu; stofnaði JCI Norðurland, tók þátt í stofnun Grófarinnar og uppgötvaði hvað zumbatímar eru mikil snilld.

Hver er hin hliðin á Svövu?

Ástríða fyrir mannréttindum og því að vaxa og þróast sem manneskja. Þessi ástríða hefur komið mér víða, til dæmis í panelumræður frammi fyrir 360 ráðstefnugestum, á fund með forseta Íslands og sem leiðbeinandi á erlendri ráðstefnu.

Í panelumræðum í Noregi

Hvers vegna varð iðjuþjálfun við HA fyrir valinu á sínum tíma?

Ég kynntist iðjuþjálfun fyrst þegar ég þurfti sjálf á endurhæfingu að halda. Aðferðir og hugmyndafræði iðjuþjálfunar reyndust mér það vel að ég vildi miðla þessu áfram og nota reynsluna til góðs. Ég hafði áhuga á heilbrigðisvísindum, vildi vinna með fólki og láta gott af mér leiða. Ég skráði mig því í námið við HA – og sé ekki eftir því!

Hvernig nýttist lokaverkefnið þitt þér? Geturðu sagt okkur aðeins frá því?

Ég gerði heimildasamantekt með nýsköpunarhluta. Verkefnið fjallaði um það sem notendur geðheilbrigðisþjónustunnar telja hafa skilað sér bata af geðrænum erfiðleikum og hannaði námskeið fyrir fagaðila til að veita batahvetjandi þjónustu. Efnistökin voru valdefling, bati af geðrænum erfiðleikum og innsýn notenda geðheilbrigðiskerfisins. Lokaverkefnið hefur nýst mér afskaplega vel, ég vinn með þessi efnistök á hverjum degi í Hugarafli, hef haldið erindi á málþingum og leiðbeint á vinnustofum tengt efninu.

Lokaverkefnið mitt

Hvernig gekk að fá vinnu eftir námið?

Ég fékk vinnu beint í kjölfar útskriftar og sé reglulega auglýsingar þar sem óskað er eftir iðjuþjálfum. Iðjuþjálfar eru það fjölbreytt starfsstétt að við getum unnið á alls kyns stöðum og jafnvel skapað ný störf eftir aðstæðum hverju sinni.

Hvað gerir þú í vinnunni þinni sem iðjuþjálfi?

Ég vinn aðallega með ungu fólki á aldrinum 18-30 ára sem vill ná bata af geðrænum erfiðleikum. Ég veiti einstaklingsbundinn stuðning í samtölum, held úti hópastarfi, tek þátt í verkefnavinnu, skipulegg námskeið, þróa þjónustuna og met árangur starfsins.

Í hlaðvarpsupptöku fyrir Klikkið (potcast Hugarafls)

Hvað eru skjólstæðingar þínir að fást við?

Skjólstæðingar mínir eru fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur í geðheilsu sinni til að ná bata. Einstaklingarnir eru að finna aftur kraft sinn, trúna á sjálfan sig, vonina að hægt sé að ná bata, byggja upp dýrmæt félagsleg tengsl, auka virkni, finna hvar áhugi þeirra liggur, vinna úr áföllum og fyrri reynslu, tileinka sér aðferðir sem henta þeim til að takast á við daglegt líf og nýta styrkleika til góðs.

Áttu skemmtilega sögu úr vinnunni?

Það sem mér finnst skemmtilegast í vinnunni er að sjá fólk blómstra, taka mikilvæg skref út í lífið og ná bata. Ég á fjöldann allan af dæmum, til dæmis að ferðast með einstaklingi til útlanda til að miðla af eigin reynslu inn í norræna stefnumótun í geðheilbrigðismálum, fylgjast með manneskju sem var áður á örorkubótum stunda háskólanámið sem hana dreymdi um eða sjá einstakling fara aftur út á vinnumarkað við góða líðan eftir langan tíma.

Getur þú gefið lesendum gott iðjuráð?

Mitt iðjuráð væri að safna saman fullt af ólíkum bjargráðum sem henta þér. Bjargráð eru alls kyns iðja sem lætur þér líða betur og halda út í erfiðum aðstæðum. Það er gott að eiga þau í handraðanum og geta gripið til þeirra, til dæmis í álagstímabili í námi! Dæmi: tala við vin, rifja upp gamla sigra, hrósa öðrum, núvitundaræfing, klappa einhverju mjúku, leysa sudoku, kreppa og slaka vöðvum. Skora á ykkur að finna ykkar bjargráð!

Nýtir þú þér iðjuþjálfun í eigin lífi?

Já, klárlega. Ég raða til dæmis innbúinu í eldhúsinu upp á ákveðinn hátt, stilli skrifborðsstólinn, þríf heimilið með trixum til að eiga sem mesta orku inni, skipulegg daginn, set mér markmið og huga að andlegri og líkamlegri heilsu minni.

Hvað stendur upp úr eftir tíma þinn við Háskólann á Akureyri?

Dýrmæt vinátta, góð tengsl við kennara skólans, nálægðin við náttúruna, snjórinn, þægilegar samgöngur og ævintýrið við að flytja norður í glænýjar og óþekktar aðstæður.

Samnemendur og vinnufélagar á góðri stundu

Voru háskólaárin við HA öðruvísi en þú áttir von á?

Já, að vissu leyti. Ég hafði áður verið í námi við annan háskóla og þetta voru allt aðrar kennsluaðstæður. Það eru færri nemendur, kennararnir þekkja hvern nemanda og maður fær á tilfinninguna að það skipti máli að mæta, taka þátt og leggja sitt af mörkum.

Getur þú gefið nýstúdentum sem hyggjast sækja um nám við Háskólann á Akureyri nokkur ráð?

  • Grípa tækifærin sem gefast í náminu – jafnvel þó það sé brjálað að gera! Ég fór í vettvangsnám í Danmörku og tók aukaáfanga í Finnlandi. Þessi reynsla var ómetanleg.
  • Muna eftir að tala við samnemendur þína, það er svo miklu betra að heyra að maður er ekki einn í heiminum með áhyggjur af skilafrestum, verkefnum og prófum! Það léttir strax á að geta rætt um lífið og tilveruna.
  • Sinna líkama og sál – finna hreyfingu og streitulosun sem hentar þér. Gefa sér tíma til að stunda þetta í prófum og verkefnatíð.
  • Fókusa á það jákvæða í lífinu og leggja áherslu á það sem gengur vel.

 NÁMIÐ: Iðjuþjálfunarfræði

 

Andri Dan: ViðskiptafræðiAnna Borg: SjávarútvegsfræðiGuðmundur Örn: LíftækniÞórhildur Edda: Líftækni

 

 Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.