Fólkið í HA: Þórhildur Edda Eiríksdóttir

Við tókum tal af Þórhildi Eddu sem útskrifaðist síðastliðið vor og fengum að heyra hvað hún er að fást við í dag. Hún býr nú í Noregi þar sem hún er í framhaldsnámi og stundar crossfit að kappi.

Þórhildur Edda Eiríksdóttir

Við tókum tal af Þórhildi Eddu sem útskrifaðist síðastliðið vor og fengum að heyra hvað hún er að fást við í dag.

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfri þér?

Ég er 22 ára Líftæknifræðingur en ég útskrifaðist frá HA nú í vor. Ég flutti til Akureyrar 2012 sérstaklega til að stunda nám í Líftækni. Við HA upplifði ég frábæra skólagöngu, var forseti Stafnbúa og formaður FSHA auk þess sem ég var svo lukkuleg að kynnast kærasta mínum þar. Núna stunda ég mastersnám í Molecular Medicine við NTNU Í Noregi.

Hver er hin hliðin á Þórhildi?

Það er lyftinga/crossfit hliðin. Ég hef mjög gaman að náminu mínu en mér þykir líka mjög gaman að rífa í járn – ég er nokkuð sterk, þótt ég segi sjálf frá. Þegar ég er búin að eyða deginum í lærdóm þá finnst mér best að henda mér á crossfit æfingu og leyfa vöðvunum aðeins að vinna eftir langa setu.

Hvers vegna varð líftækni við HA fyrir valinu á sínum tíma?

Ég heyrði fyrst af líftækni í erfðafræðitíma þegar ég var á mínu seinasta ári í Kvennaskólanum í Reykjavík og heillaðist ég um leið. Ég komst að því að líftækni er einungis kennd við HA, þannig ég dreif mig norður.

Hvers saknar þú helst frá tíma þínum við Háskólann á Akureyri?

Ég sakna snjósins og hvað það er stutt í allt. Ég kann sérstaklega að meta allt þetta núna þegar það tekur mig um 30-40 mínútur að fara í skólann á hverjum degi, auk þess sem snjórinn hér endist bara örfáa daga hverju sinni. Ég sakna þó helst fólksins sem ég kynntist – það er einhver andi í HA sem er alveg sérstakur.

Hvers vegna varð NTNU og Molecular Medicine fyrir valinu?

Ég og Orri (kærasti minn) ákváðum að reyna að finna háskóla erlendis sem myndi henta okkur báðum. Við sáum að Noregur var líklegastur til að henta okkur báðum þannig að það var hafist handa við að leita. Og þá rakst ég á þetta líka ágæta nám í Molecular Medicine við NTNU. NTNU virtist vera mjög flottur og krefjandi háskóli, meira að segja með nóbelsverðlaunahafa í lífeðlis- og læknisfræði 2014. Auk þess sem mastersnámið, sem þau buðu upp á, var einmitt það sem ég vildi læra meira um. Ég uppfyllti allar kröfurnar til inngöngu í námið þannig að ég sótti um.

Hvað ertu að fást við í Molecular Medicine?

Ég er að fást við margt mjög áhugavert en námið miðast helst að því að skilja hvernig eðlileg ferli frumna í mannslíkamanum breytast eða eyðileggjast vegna sjúkdóma og/eða valda sjúkdómum. Hér eru fengist við langflesta sjúkdóma en krabbamein er algengasta viðgangsefnið.

Í mastersverkefni mínu, sem ég mun byrja á næsta haust, mun ég skoða mismunandi gerðir af B-eitilfrumuæxli og kortleggja mismuninn á milli þeirra, hvað varðar þær mismunandi gerðir af prótínum sem þar er að finna og gegna hlutverki í utangenaerfðum (e. epigenetics). Þá mun ég einnig skoða betur áhrif krabbameinslyfja á þessar frumur en hvert krabbamein er einstakt þrátt fyrir að vera af sömu gerð. Þar af leiðandi virkar ef til vill eitt lyf ekki eins vel á allar gerðir af B-eitilfrumuæxlum. Ég er mjög spennt á því að byrja á þessu verkefni.

Hvernig finnst þér líftæknin nýtast þér í framhaldsnáminu?

Námið í líftækni hefur nýst mér mjög vel. Ég finn að ég stend mjög vel að velli og er jöfn þeim samnemendum mínum sem eru með svipaða menntun, hvað varðar þekkingu og reynslu. Bekkjarfélagar mínir eru þó með mismunandi bakgrunn en flestir eru með menntun í t.d. líftækni, líffræði eða læknisfræði. Þau koma allstaðar að en um helmingur er frá Noregi, hinir koma meðal annars frá Líbanon, Líbíu, Búrma, Eþíópíu og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt.

Ég er vön miklu vinnuálagi í náminu í líftækni en NTNU er þekkt hér í Noregi fyrir að vera krefjandi háskóli með mikið vinnuálag. Ég finn því ekki fyrir miklum mun milli háskólanna hvað það varðar.

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framtíðinni með þessa menntun?

Vonandi að fá vinnu! Ég veit ekki ennþá hvort að leiðin liggi í doktorsnám – það heillar stundum. Helst langar mig þó að koma aftur heim til Íslands og fá vinnu hjá einhverju spennandi líftækni- eða lyfjafyrirtæki. Annars er ég líka til í að vera áfram hér í Noregi, sýnist vera nóg af vinnu í boði á þessu sviði.

Þórhildur við störf á rannsóknarstofu HA

Hvernig er lífið í Noregi?

Lífið hérna er mjög gott og alls ekki ósvipað og heima, það er þó rólegra og allt tekur lengri tíma. Norðmenn eru ekkert að stressa sig. Hér eru langflestar búðir lokaðar á sunnudögum og þá eyða fjölskyldurnar tíma saman. Veðrið í Þrándheimi er mjög milt, það þykir til tíðinda ef það blæs hér vindur.

Getur þú sagt okkur eina óvænta staðreynd sem þú hefur lært um Noreg?

Skemmtistaðir loka um það leiti sem Íslendingar fara vanalega niður í bæ að skemmta sér.

Eru Norðmenn jafn líkir Íslendingum eins og margir halda, hvernig þá?

Já þetta er bara alveg sama dæmið, ég er eiginlega fljótari að nefna mismuninn á milli heldur en það sem er líkt með þjóðunum tveimur. Tungumálið er helsta sem aðskilur, þeir tala einhverja furðulega blöndu af dönsku og íslensku. Og jú mér svona sýnist að þeir vinni minna og eru auðvitað ekki jafn góðir í crossfit. 

Finnst þér mikill munur á að vera nemandi í Noregi og á Íslandi?

Já mér finnst meira gert hér fyrir nemendur. Hér er t.d. svakalegt magn af stúdentaíbúðum. Ef foreldrar eru með veikt barn sama dag og þeir eru á leiðinni í próf, þá eru þeir velkomnir að koma með barnið í sérstaka pössun hjá stúdentaleikskólum á meðan þeir þreyta prófið, jafn vel þó að barnið sé ekki á þeim leikskóla. Hluti námslána breytist í styrk ef þú klárar á réttum tíma en þó mættu námslánin hér vera hærri rétt eins og þau íslensku.

Svo er félagslífið aðeins á hærra stigi myndi ég segja. Hér er heil bygging eingöngu ætluð stúdentum við NTNU, kallað Studenter samfundet, en þar er staðsettur einn veitingastaður, nokkrir barir og svo stór tónleikasalur þar sem eru reglulega haldnir tónleikar – þar vinna nemendur eingöngu í sjálfboðavinnu, rekið af nemendum fyrir nemendur. Það finnst mér alveg frábært :)

NTNU miða við HA?

NTNU er svo miklu stærri að ég næ varla að átta mig á því. Það vantar þessa nánd sem ég sakna svo úr HA. Kennararnir mínir hér eru voða vinalegir en þeir eru bara svo margir að ég gæti ekki reynt að muna nöfn þeirra allra.

Svo var ég eiginlega pínu hissa þegar ég sá rannsóknarstofurnar hérna, ég varð næstum eins og lítill krakki á jólunum, en rannsóknarstofurnar á mínu háskólasvæði eru búnar öllum græjunum og allt virðist vera nýlegt og þær eru ekki bara á einni hæð heldur 4 hæðum í tveim álmum, sem er skiljanlegt þar sem þær eru hluti af sjúkrahúsinu hér. Rannsóknarstofurnar í HA eru góðar en litlar og gera það besta úr þeim fjármunum sem eru til umráða. Þrátt fyrir þennan mun þá finn ég ekki fyrir því að mig skorti neina reynslu eða þekkingu.

Mér finnst kröfurnar og gæði náms vera á sama stigi hjá HA og NTNU. Það er verulega gaman að koma úr litlum háskóla í stærri og sjá að það er í raun enginn munur á gæðunum. HA á skilið stóran plús í kladdann fyrir það!

Getur þú gefið nemendum HA nokkur ráð?

Njóttu þess að vera í HA á meðan á því stendur. Því um leið og þessu tímabili er lokið þá áttu eftir að sakna þess.

Og svo þetta klassíska sem enginn hefur nokkurn tíma náð að fara eftir: Læra jafnt og þétt alla önnina svo prófatíðin verði ekki eins strembin.

 

Andri Dan: ViðskiptafræðiAnna Borg: SjávarútvegsfræðiGuðmundur Örn: LíftækniSvava: Iðjuþjálfun


Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.