Háskólinn á Akureyri fagnaði þeim merka áfanga að skila af sér kolefnisjöfnuðum rekstri árið 2022. Í stefnu HA 2018–2023 eru markmið um kolefnisjöfnun. Í upphafi byggði markmiðið á því að nota kolefnisbindingu frá Végeirsstöðum til jöfnunar, en það gekk því miður ekki eftir. Þá var markmiðið endurskoðað og ákveðið að árið 2022 yrði keypt kolefnisjöfnun samkvæmt Grænu bókhaldi skólans. Til að koma til móts við kolefnislosun starfseminnar voru keyptar einingar frá Kolviði og Sameinuðu þjóðunum. „Við skólann er virk umhverfisstefna og mikil vinna hefur farið í það undanfarin ár að finna leiðir til að vinna í takt við stefnu skólans þegar kemur að umhverfismálum. Við erum ánægð með árangurinn enda búið að fara í þær aðgerðir sem settar eru fram í stefnunni. Nú er í vinnslu ný stefna skólans og ljóst að umhverfismál verða þar ofarlega á baugi enda með mikilvægari málefnum nútímans til framtíðar litið,” segir Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri.
Háskólinn og vegferð okkar í umhverfismálum
Frá upphafi árs 2008 hefur Umhverfisráð verið starfandi við háskólann. Haustið 2013 hlaut Háskólinn á Akureyri, fyrstur háskóla á Íslandi, Grænfána Landverndar og hefur síðan þá fengið Grænfánavottun, og núna í ár hlaut skólinn sinn fimmta Grænfána. Árið 2016 skrifaði skólinn undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu og skuldbatt sig þar með til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn. Að þessu hefur verið unnið markvisst nú á síðari árum. Árið 2021 hafði skólinn uppfyllt allar kröfur hvað varðar Græn skref, sem eru fimm talsins, og innan þess verkefnis hlaut skólinn silfurviðurkenningu sem hjólavænn vinnustaður.
„Í dag er í boði lokað hjólaskýli ásamt því að starfsfólk og stúdentar geta fengið lánað hjól sér að kostnaðarlausu. Umhverfisráð hefur í tengslum við Grænu skrefin staðið að margvíslegum verkefnum, svo sem Plastlausum september frá árinu 2020, viðgerðatímum, gróðursetningu, hjólaþjónustudögum og fleiru, og tekið þátt í Stóra plokkdeginum á háskólasvæðinu og í fjörum við Eyjafjörð,” segir Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild og formaður Umhverfisráðs, í samtali varðandi þau verkefni sem í gangi eru. „Við byrjuðum árið 2021 með Græn kennsluverðlaun og þau hafa nú verið veitt þrisvar sinnum en þau hljóta kennarar sem tvinna umhverfisvernd inn í námskeiðin sín. Árið 2022 var þessu svo fylgt eftir með Grænum ritgerðarverðlaunum sem veitt eru til stúdenta sem velja sjálfbærni sem viðfangsefni í lokaverkefni sín. Það skiptir okkur miklu að búa til skapandi og styðjandi umhverfi fyrir rannsóknir tengdar sjálfbærni og er þetta liður í því,” bætir hún við.
Umhverfisráð hefur einnig staðið fyrir árlegri ráðstefnu um sjálfbærni frá árinu 2020 og verður fjórða ráðstefnan haldin á næsta ári. Ráðstefnunni er ætlað að vera vettvangur innlendra og erlendra rannsakanda hvað viðkemur sjálfbærni.
Vegferðin heldur áfram og stefnir Háskólinn á Akureyri að því að vera fremstur á meðal jafningja þegar kemur að því að stuðla að kolefnishlutleysi og bera virðingu fyrir náttúrunni.