Háskólinn á Akureyri (HA) er þátttakandi í 12 af þeim 19 verkefnum sem hlutu stuðning úr þriðju úthlutun Samstarfs háskóla.
Í gær var veitt úr sjóðnum í þriðja skiptið og gríðarlega ánægjulegt var að sjá áhersluna á að byggja upp fjölbreytt nám á landsbyggðunum.
Hjúkrunarfræðin til framtíðar
Háskólinn á Akureyri leiðir tvö af verkefnunum. Annað þeirra ber nafnið MS nám í heilsugæsluhjúkrun þar sem unnið verður að því að setja á fót nýtt 120 ECTS eininga klínískt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun sem kennt verður hér og í samvinnu við Háskóla Íslands og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
Sigríður Sía Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar við skólann, segir að með slíku námi verði hægt að bjóða upp á meiri sérhæfingu meðal hjúkrunarfræðinga. „Þannig er hægt að efla þjónustu við þann fjölbreytta og breiða aldurshóp sem heilsugæslan þjónustar. Við munum leggja sérstaka áherslu á að kennsluhættir verði rafrænir sem mun gera hjúkrunarfræðingum um allt land kleift að stunda námið sem er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni,“ bætir Sía við.
Þá er skólinn einnig aðili að verkefni sem felur í sér heildræna endurskoðun námskrár í hjúkrun en nærri tíu ár eru frá síðustu endurskoðun námskrár við skólann. Endurskoðunin fer fram með það í huga að auka megi samþættingu og samstarf HA og HÍ. Sérstaklega verður horft til breytinga sem orðið hafa á samsetningu BS og MS náms í samfélaginu, sem og samfélagslegra breytinga.
Miðstöð um rannsóknir á sjálfsvígum á Akureyri
Seinna verkefnið sem HA leiðir er stofnun miðstöðvar á Akureyri um rannsóknir á sjálfsvígum, orsakaþáttum þeirra, afleiðingum og forvörnum hér á landi. Uppbyggingin og starfsemin verður samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landspítalans, Landlæknis og fleiri aðila í framtíðinni.
„Styrkurinn gerir okkur kleift að byggja upp þessa miðstöð fræðilegra rannsókna á sjálfsvígum, áhættuþáttum, forvörnum og árangri þeirra. Með stofnun miðstöðvarinnar munum við sameina krafta fremstu vísindamanna á sviðinu frá þremur háskólum, landlækni, heilbrigðisstofnunum og vonandi fleirum. Okkur er það mikil ánægja að miðstöðin muni eiga heimili í Háskólanum á Akureyri og að svona mikilvægu verkefni sé stýrt héðan,“ segir Brynjar Karlsson, sviðsforseti Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs við HA.
Listnám á háskólastigi, velsældarfræði og norðurslóðir
Þá fengu fjölmörg önnur mikilvæg og fjölbreytt verkefni styrk, svo sem aukið aðgengi að listnámi á landsbyggðunum sem unnið hefur verið að í mörg ár og mun styrkurinn fleyta því verkefni hratt áfram. Þá er ánægjulegur styrkurinn til Norðurslóðarannsókna á Íslandi sem enn frekar gefur skólanum færi á að þróast áfram sem háskóli norðurslóða.
Þá er ánægjulegt að sjá styrk til þróunar á þverfaglegu MSc námi í velsældarfræðum. Námið mun þjálfa nemendur frá ýmsum sviðum til að vinna saman að lausnum sem auka velsæld fólks og samfélagsins, þar sem greinar eins og heilbrigðisvísindi, hagfræði, viðskipti, sálfræði, félagsfræði og stjórnmálafræði koma við sögu.
Hér fyrir neðan er listinn yfir þau verkefni sem HA er þátttakandi í:
- Hamfarafræðinám
- Heilsugæsluhjúkrun
- Endurskoðun námskrár í hjúkrun
- Kennsluþróun á sviði kynheilbrigðis
- Nám í lagareldi
- Norðurslóðarannsóknir á Íslandi
- Rannsóknamiðstöð sjálfsvíga
- Velsældarfræði
- Aukið aðgengi að listnámi
- Rannsóknastofnun Íslands í geimvísindum
- Rannsóknarsetur um netöryggisfræði
- Framhaldsnám og rannsóknainnviðir í lífvísindum
Hér má sjá frétt frá Háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti um úthlutunina.