Horft til fjölbreytileikans

Ný jafnréttisáætlun skólans samþykkt til ársins 2028
Horft til fjölbreytileikans

Jafnréttisáætlun Háskólans á Akureyri fyrir árin 2025-2028 var samþykkt af Háskólaráði í lok nóvember 2024 og af Jafnréttisstofu þann 11. desember síðastliðinn.

Jafnréttisráð skólans leiddi vinnuna. Hlutverk þess er að hafa frumkvæði og eftirlit með jafnréttisáætlun skólans í samráði við stjórnendur. Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur við RHA, starfar fyrir ráðið.

Hildur Friðriksdóttir er formaður Jafnréttisráðs og í samtali við hana kemur fram að við vinnuna og samráðið hafi verið horft til þess hversu mikill fjölbreytileikinn er orðinn við skólann, „í dag eru um 18% starfsfólks við akademíuna af erlendum uppruna sem er gleðilegt enda sýnir það aðdráttarafl skólans fyrir framúrskarandi starfsfólk alls staðar að. Við fengum til liðs við okkur IRPA ráðgjöf sem leiddi okkur í gegnum vinnustofur og ítarlegt samráð ásamt því að aðstoða okkur við uppsetningu áætlunarinnar.“

Áætlunin er aðgengileg á unak.is, á íslensku og ensku og á næstunni verður hún kynnt vel ásamt því að sett verður upp mælaborð á innri vef þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi hennar.