Richard Eirikur Taehtinen er nýr deildarforseti Sálfræðideildar Háskólans á Akureyri
„Hlutverk deildarforseta er afar fjölbreytt. Það felur í sér að stjórna daglegum rekstri deildarinnar, umsjón með áætlunum, yfirsýn kennsluáætlana og rannsókna ásamt fleiru sem fellur til. Ég tel mikilvægt að deildarforseti styðji við starfsfólk og stúdenta, sé virkur talsmaður deildarinnar og leggi til við stefnumörkun og langtímaáætlanir,“ segir Richard sem formlega tók við hlutverkinu 1. janúar af fráfarandi deildarforseta, Árna Gunnari Ásgeirssyni, dósent við deildina. Deildarforsetar eru skipaðir til tveggja ára í senn þar sem allt starfsfólk deildarinnar getur boðið sig fram í hlutverkið og svo er kosið.
Brúin byggð á milli fræða og raunveruleikans
Aðspurður um hvað einkenni Sálfræðideildina segir Richard að deildin sé öflugt lærdómssamfélag sem býður stúdentum upp á margvísleg rannsóknartækifæri. „Starfsfólk deildarinnar er með fjölbreyttan bakgrunn og mikinn metnað fyrir bæði námi og rannsóknum. Við erum í miklu samstarfi bæði innanlands- og utan sem er mikill styrkur fyrir deildina og öll þau sem koma að henni. Þá hvetjum við stúdenta til að taka þátt í rannsóknarverkefnum, sækja ráðstefnur og skoða mögulega starfsnemamöguleika. Við gerum okkar besta í að brúa bilið á milli fræðanna og praktík með því að bjóða upp á raunverulega reynslu við rannsóknir á rannsóknarstofum sem sýnir hvernig sálfræðin virkar utan skólastofunnar. Það gefur að mínu mati stúdentum öryggi til að nota það sem þau læra í raunheimum.“
Opið og persónulegt andrúmsloft er líka einn af styrkleikum deildarinnar að mati Richards. Hann segir að oft myndist gott samband á milli kennara og stúdenta í rannsóknarverkefnum. „Við búumst við miklu af okkur sjálfum og stúdentum en erum mannleg og vitum að lífið gerist stundum á meðan við erum upptekin við að gera plön. Í heild er starfsstaðurinn HA svolítið svona. Starfsfólk er upp til hópa vel sérhæft og jafnvel þekkt alþjóðlega á sínu fræðasviði sem skapar hvetjandi og metnaðarfullt umhverfi. Á sama tíma sé vinnuumhverfið afslappandi og menningin feli í sér nálægð sem gefur mikil færi á að tengjast öðru starfsfólki og samvinnu,“ segir Richard sem telur þetta jafnvægi á milli metnaðar og persónulegrar nálgunar stuðli að því að honum þyki ánægjulegt að mæta til vinnu hvern dag.
Sálfræðin og nærsamfélagið
Richard hefur sérhæft sig í rannsóknum sem lúta að íþróttasálfræði, þá sérstaklega andlegri heilsu og frammistöðu. „Ég hef unnið með íþróttafólki og fleirum bæði sem þjálfari og sálfræðingur og sú reynsla felur í sér mikið af mannlegum samskiptum, sem ég tel að muni nýtast í starfi mínu sem deildarstjóri. Þó svo að staða deildarstjóra sé aðeins utan míns þægindaramma þá hef ég gaman af áskorunum. Ég geri mér grein fyrir að ég þurfi að læra margt en ég sé þetta sem mikið tækifæri til að eflast enn frekar og ég vona að mín reynsla muni koma til góða í þessu hlutverki,“ segir Richard.
„Ég er spenntur fyrir árunum sem framundan eru. Verið er að vinna að því að bjóða upp á doktorsnám í sálfræði og ég vona að það leiði til þess að innan fárra ára muni fyrsti doktorsneminn frá okkur útskrifast. Að bjóða upp á doktorsnám mun gefa okkur enn frekara færi á að efla rannsóknir og að hér verði til næsta kynslóð vísindafólks. Þá erum við alltaf að útvíkka möguleikana í meistaranáminu ásamt því að hafa augun á því að grunnnámið þróist í takt við samfélagið,“ segir Richard aðspurður um sýn til framtíðar.
„Mig langar líka til að tengja starfsemina hér við nærsamfélagið, hvort sem það er í gegnum opnar málstofur, vinnustofur eða samvinnu við skóla, fyrirtæki og stofnanir. Okkar vinna á að snúast um það að deila þekkingu og meðal annars hafa jákvæð áhrif á nærsvæði. Heilt yfir sé ég deildina sem stað sem býður upp á virkt samfélag þar sem stúdentar og starfsfólk er velkomið, til að þróast, tengjast og vinna að mikilvægum verkefnum saman,“ segir Richard að lokum.