Sigrún Stella Þorvaldsdóttir hlaut verðlaun fyrir lokaverkefni sitt í MBA-námi UHI og Símenntunar
Um liðna helgi fór fram útskrift nemenda við UHI – University of Highlands and Islands. Símenntun HA átti þar 10 útskriftarnema úr MBA-náminu. Ein þeirra er Sigrún Stella Þorvaldsdóttir. Nemendum býðst að velja á milli nokkurra áherslulína og valdi Sigrún Stella Executive MBA, þar sem henni þótti sú lína nýtast best í starfi. „Ég valdi að fara í MBA-nám til að þróa leiðtogafærni mína enn frekar. Ég er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá HÍ, próf í verðbréfamiðlun og hef starfað síðastliðin 5 ár hjá SIX Group í Zurich, Sviss. SIX Group er svissneskt fyrirtæki sem sér um fjármálainnviði og þjónar fjármálamarkaði. Fyrirtækið rekur meðal annars kauphöllina í Zurich og kauphöllina í Madrid,“ segir Sigrún Stella aðspurð hvers vegna hún kaus að hefja MBA nám. „Það sem heillaði mig mest þegar ég valdi námið var áhersla námsins á siðferðilega og ábyrga forystu, með áherslu á að þróa framúrskarandi stjórnendur þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, nýsköpun, frumkvöðlastarf og tækni.“
Hagnýtt nám og verkefni sem tengjast raunverulegum áskorunum
Sigrún Stella segir að námið hafi staðist væntingar og jafnvel farið fram úr þeim. Námið hafi veitt henni tækifæri til að takast á við áskoranir í starfi samt því kynnti námið hana fyrir nýjum sjónarhornum á sviði stjórnunar. „Það sem hefur staðið upp úr í náminu er hversu hagnýtt það er. Verkefnin tengdust raunverulegum áskorunum og ég fékk tækifæri til að vinna með fyrirtækinu sem ég starfa hjá í raunhæfum verkefnum (e. Case studies), sem gerði mér kleift að beita þekkingunni beint í starfi. Kennarar og stuðningur þeirra hafa einnig verið ómetanlegir.“
Aðspurð um utanumhald og skipulag námsins segir Sigrún Stella: „Skipulag námsins er mjög gott. Ég var sérstaklega ánægð með kennslukerfi skólans, Brightspace, þar sem ég hafði auðvelt aðgengi að námsefni og rafrænu bókasafni. Einnig hentaði mér vel að námið væri 100% fjarnám með fundum utan hefðbundins vinnutíma þar sem ég var í fullri vinnu á meðan á náminu stóð.“
UHI Perth Student Research of the Year
Sigrún Stella hlaut verðlaunin „UHI Perth Student Research of the Year“ fyrir lokaverkefnið sitt. Lokaverkefnið ber titilinn Sustainable Supply Chain Management: A Case Study of SIX Group. „Rannsóknin fjallar um sjálfbærni hjá SIX Group og markmiðið var að greina núverandi ferla, áskoranir og tækifæri til úrbóta í sjálfbærri stjórnun innan fjármálafyrirtækis. Ég er mjög stolt af þessari viðurkenningu, sérstaklega þar sem ég hef starfað í sjálfbærnideild SIX Group síðan í júlí. Viðurkenningin hefur því veitt mér aukið sjálfstraust í mínu starfi,“ segir Sigrún Stella.
Verðunin voru veitt á útskriftarathöfninni í Perth. „Ég vil þakka Símenntun HA og UHI fyrir frábært samstarf. Að hafa aðgang að alþjóðlegu námi í gegnum íslenskan vettvang er ómetanlegt,“ segir Sigrún Stella að lokum.